Færsluflokkur: Menntun og skóli

Women@Work - Konur í nýsköpun

Eftirfarnandi fyrirtæki og stofnanir í 7 Evrópulöndum standa fyrir stuttum kynningarfundi á þjálfunarferli og þjónustu við konur í nýsköpun. Þessi lönd og aðilar eru:

RightNow    Ísland

Gip Fipan   Frakkland

Dramblys    Spáni

Salvamamme  Ítalíu

Enoros      Kýpur

ProQvi      Svíþjóð

ItalCam     Þýskalandi

Efnt er til upplýsingafundar um verkefnið Women@Work eða konur í frumkvöðlastörfum.

Fyrri hlutinn er upplýsingar um verkefnið og er haldið í beinu streymi, sunnudaginn 31. október 2021 kl. 13,30.

Seinni hluti verkefnisins þar sem meðal annars tvær konur úr frumkvöðlastétt gera grein fyrir verkefnum sínum. Sá hluti er haldinn þriðjudaginn 2. nóvember 2021 kl. 13,30.

Þjálfunin er í beinu streymi á Facebook og er slóðin:

https://www.facebook.com/events/578285976768815

Þær konur sem hafa áhuga á að sjá kennsluefni um frumkvöðlastörf á íslensku ættu að líta við og skoða vefsíðuna okkar. Þar er einnig að finna vefverslun sem íslenskar konur geta selt afurðir sínar hjá, myndbönd með sögum af velgengni íslenskra kvenna á sviði frumkvöðlamála og síðan sjálfsmat um hver er færni kvenna í að takast á við frumkvöðlastarf. 

 

 

 

 

 


Færni til nýsköpunar kallar á samstarf og stuðning

"Stuðningur við nýsköpun í atvinnulífinu er meðal annars til þess gerður að jafna samkeppnisaðstöðu atvinnulífs í ólíkum löndum."
Færni til að koma á nýsköpun í fyrirtækjum og leysa flókin vandamál henni tengd, er ein mikilvægasta forsenda þess að nýsköpunarfyrirtæki nái að vaxa. Einnig að atvinnulíf landsins þróist og nái árangri. Færni til nýsköpunar er getan til að leysa öll þau flóknu mál sem koma upp við að koma nýrri eða breyttri afurð á markað. Til þessa þurfa nýsköpunarfyrirtæki oft stuðning frá opinberum aðilum. Lítil fyrirtæki eru jafnan ekki í stakk búin til að leysa öll vandamál sjálf. Stuðningur við nýsköpun í atvinnulífinu er meðal annars til þess gerður að jafna samkeppnisaðstöðu atvinnulífs í ólíkum löndum. Íslenskt stuðningskerfi við nýsköpun virðist vera nokkuð skilvirkt í þessu sambandi. Eitthvað vantar þó á að fyrirtæki fái sama stuðning við nýsköpun og best gerist í nágrannalöndunum. Það má viðurkenna það sem vel er gert en þó mætti taka á málum þar sem stuðning vantar. Að öðrum kosti eykst hætta á að íslenskt atvinnulíf dragist aftur úr í samkeppni um að koma afurðum sínum á alþjóðamarkað.

Í tengslum við efnahagshrunið var settur á stofn fjöldi áhugaverðra frumkvöðlaverkefna þar sem einstaklingar voru hvattir til að koma fram með viðskiptahugmyndir með það að markmiði að þeir gætu síðan stofnað fyrirtæki um hugmynd sína. Þetta var jákvætt átak og er áhugavert að sjá hvort eftir 8-10 ár verði hægt að sjá árangur af þessum átaksverkefnum. Sennilega mun það taka þann tíma fyrir fyrirtækin að komast á legg hafi þau til þess burði. Hafi fyrirtækjum fjölgað í framhaldi af átaksverkefnunum má segja að vel hafi tekist til. Ef ekki, þá var að minnsta kosti reynt. Vandamálið er að fyrirtæki á Íslandi vaxa hægar en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Það liggja fyrir rannsóknir sem sýna að vöxtur nýsköpunarfyrirtækja er fremur hægur. Það má því leiða líkur að því að færni frumkvöðla sé ekki nægilega mikil og að stoðkerfi nýsköpunar sé ekki alltaf í stakk búið til að sjá til þess að bæta úr þar sem þörfin er mest.

Stoðkerfið þarf að vinna með fyrirtækjunum í því að finna hvaða flöskuhálsar standa í vegi fyrir því að nýsköpunarfyrirtæki í landinu nái að vaxa og dafna. Mikilvægt er að leita leiða til að sjá fyrirtækjum fyrir réttri og viðeigandi færni. Hluti af þessu er að bæta menntun landsmanna í þeim greinum sem líklegt er að nýtist til framtíðar. Það nægir ekki að kalla eftir fólki með tækni- eða raunvísindamenntun. Þetta er stærra en svo og kallar á samstarf fyrirtækja og aðila í menntakerfinu og nákvæma skilgreiningu á þörfinni fyrir færni. Þetta á einnig við hvað varðar þjálfun og þróun á færni fólks. Að sjá atvinnulífinu fyrir viðeigandi færni er ferli sem varðar allt samfélagið, menntakerfið eins og það leggur sig. Þá þarf almennt umhverfi sem er jákvætt í garð frumkvöðla, nýsköpunar og færniþróunar.

Stoðkerfið leggur áherslu á fjárstuðning við nýsköpunarfyrirtæki en þó má segja að skortur á fjármagni sé oft það sem stendur nýsköpunarstarfi fyrirtækja fyrst fyrir þrifum. Nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndum búa við auðveldara aðgengi að fé, bæði til rannsókna og nýsköpunar. Þar er einnig reynt að fylgja peningunum eftir með góðum ráðum. En segja má að þar sé um að ræða „snjalla peninga“. Ekki skal gert lítið úr því fé sem varið er til nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi enda eru ótal dæmi þess að þetta sé forsenda þess að fyrirtæki nái að vaxa. Frumkvöðullinn leggur oft af stað með áhugaverða tæknilega hugmynd en skortir þekkingu til að láta hana verða að arðbærri afurð. Það má segja að fjármögnun fyrirtækja með snjöllum peningum færi þeim aukna færni sem losi þar með um ýmsa flöskuhálsa.

Tímaþátturinn er mikilvægur í þróun færni en atvinnulífið og menntakerfið þurfa að sameinast um aðgerðir sérstaklega til langs tíma. Það er ekki skilvirkt að fyrirtæki og menntakerfi einblíni á þörf dagsins í dag eftir færni. Þegar mennta- og stuðningskerfi koma með lausn dagsins í dag er liðinn svo langur tími að allt önnur vandamál hafa komið fram og þarfnast lausna. Til að gagnast atvinnulífinu best þarf að sjá því fyrir réttri færni á réttum tíma. Færni er ekki bara fólgin í menntun enda koma mjög margir aðrir þættir til greina. Skoða þarf atriði eins og reynslu, menningu, rekstrarumhverfi svo að fátt eitt sé nefnt. Að þróa færni til nýsköpunar er því langhlaup sem kallar á þátttöku mjög margra.

Nýsköpun verður ekki til nema fyrir tilstuðlan markaðarins. Góð hugmynd sem markaðurinn hafnar er ekki nýsköpun heldur tómstundagaman. Færni á sviði markaðar og stjórnunar ýmiskonar er ekki síður mikilvæg fyrir nýsköpun en hin tæknilega færni. Stjórnun nýsköpunar og innfærsla á markað er ekki síður mikilvæg en hin tæknilega hugmynd. Hér er það áherslan á sterkar hliðar í landinu sem gildir. Leggja skal áherslu á það sem landsmenn kunna vel en hika þó ekki við að taka inn nýjar greinar. Það skal þó gert meðvitað, ekki endilega með því að leggja mikið fé og mannskap í verkefni sem ekki er þaulhugsað og sem passar hugsanlega ekki vel inn í efnahagslífið.

 

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1475177/?item_num=0&searchid=9476388cc79e0b77beb0b1e0395b1c33951adb10 


Aðgengi að réttri færni til nýsköpunar bætir samkeppnisgetu og arðsemi atvinnulífsins

Færni til nýsköpunar er forsenda þess að atvinnulífið nái þeirri samkeppnisstöðu og arðsemi sem því er nauðsynlegt til að standa undir hagvexti í landinu. Hagvöxtur er forsenda þeirrar endurreisnar sem þörf er á. Nefnt hefur verið til sögunnar að fjárfestingar séu í lágmarki og þurfi að vaxa til að atvinnulífið nái flugi. Það er vitanlega rétt en það skal varast að laga einn flöskuháls sem atvinnulífið hefur verið að glíma við, bara til þess að næsti flöskuháls taki við.

 

Að atvinnulíf á Íslandi nái einhverjum styrk kallar á að heildarsýn ráði aðgerðum hins opinbera og atvinnulífsins sjálfs. Það þarf að takast á við aðföng þess í formi hráefna, þjónustu, starfsfólks með rétta færni, fjármagns og annarra þeirra ytri aðstæðna sem fyrirtækin starfa í. Einn þessara þátta er framboð og eftirspurn eftir fólki með rétta færni til nýsköpunarstarfa. Á meðan tækniþekking og notkun hennar vex hröðum skrefum verður til þörf fyrir aðgengi að starfsfólki sem getur tileinkað sér þessa tækni til að stunda nýsköpun. Nýsköpun er forsenda endurnýjunar í atvinnulífinu og hefur mikil áhrif á möguleika til að bæta samkeppnisstöðu og arðsemi.

 

Sjálfstæðisflokkurinn bendir á í ályktun Landsfundar 2013 um atvinnumál að stuðla þurfi að umhveri þar sem mannauður íslensku þjóðarinnar fær notið sín. Þjóðin er framtaksöm, hugmyndarík og vel menntuð. Tryggja þarf að svo verði áfram með öflugu menntakerfi sem vinnur í samstarfi við atvinnulífið með þarfir þess að leiðarljósi.

 

Það er þó ekki bara menntakerfið sem þarf að takast á við að auka færni starfsfólks í landinu. Að þessum málum kemur fjöldi annarra aðila og má þar nefna atvinnulífið sjálft. Greining á starfsemi fyrirtækja hefur leitt í ljós að skortur er á starfsfólki með vissa menntun. Rætt er um tæknimenntun og menntun á sviði raunvísinda. Þetta er vitanlega rétt en til að geta lagt mat á þörf atvinnulífsins fyrir færni í framtíðinni verður að líta heilstætt á þessi mál. Það má raunar segja að breið nálgun á þróun menntunar er nauðsynleg enda er hagkerfi landsins fremur flókið og kallar á ýmis konar færni.

 

Í Landsfundarályktuninni er einnig fjallað um nauðsyn á að auka framleiðni hér á landi. Það er forsenda hagvaxtar að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum, opinberum rekstri og nýjum fyrirtækjum. Nýsköpun skapar atvinnu, eykur skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Nýsköpun er þróun, ekki aðeins á tæknisviði heldur víðar.

 

Ljóst er að þróa þarf kerfi sem tekst á við að auka færni starfsfólks í atvinnulífinu. Fjölmargir aðilar þurfa að leggja hönd á plóg til að af því geti orðið. Varast verður að reyna að koma atvinnulífinu á flug með lausnum á mest áberandi vandamálunum heldur skal tekið á öllum þáttum sem geta leitt til þess að betri aðgangur sé að fólki með færni til að leysa flókin mál nýsköpunar.

 


Stefna í menntamálum fyrir kosningar 2013

Af almennri umræðu um þessar mundir má ráða að áhersla á menntun hefur vaxið. Í kjölfar efnahagshrunsins töpuðust fjölmörg störf en þau störf sem eru að koma til baka eru ekki endilega þau sömu og töpuðust. Þörf er á að líta á menntamál sem langtíma fjárfestingu einstaklinga og samfélagsins sem á að skila sér með arði. Hvort sem sá arður er í formi efnahagslegra gæða, aukinnar þekkingar, menningar og lista eða annarra þátta sem auka velsæld og hagsæld.

 

 Íslendingar eiga nokkuð í land að standa jafnfætis þeim þjóðum sem standa fremst hvað varðar menntun. Þessu þarf að breyta og skal tekið tillit til allra þeirra aðila sem láta sig málið varða. Íslenskt atvinnulíf kallar eftir starfsfólki með tiltekna menntun. Ekki er í öllum tilfellum til fólk sem uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru fram. Þetta er þó misjafnt á milli fræðagreina. Segja má að aðgangur að fólki með félags- og hugvísindamenntun sé nokkuð betri en þeirra sem vinna að tæknimálum og viðfangsefnum sem byggja á menntun í raunvísindum.

 

 Lausnin liggur ekki endilega í að laða fólk í ákveðnar námsgreinar. Einstaklingar eru venjulega löngu búnir að marka sér framtíð áður en þeir standa frammi fyrir vali á námsbraut eða viðfangsefni. Það virkar ekki lofandi að lokka námsmanninn sem ætlar að verða sagnfræðingur inn í verkfræði þegar hann mætir uppí háskóla. Hann er búinn að undirbúa sig um árabil og verður líklegast ekki haggað. Það þarf að bjóða fólki valkosti í menntamálum með löngum fyrirvara. Þetta er ekki fjarri þeim boðskap sem Samtök iðnaðarins nefna í sínum málflutningi um menntamál.

 

 Í stefnu sinni um menntun og menningu tekur Sjálfstæðisflokkurinn fram að sveigjanleiki, fjölbreytni, ábyrgð og valfrelsi þurfi að fá að njóta sín í öllu menntakerfinu. Að nemendur þurfi raunverulegt val um skóla, einkarekinn eða á vegum hins opinbera enda fylgi fjárframlög nemandanum í gegnum öll skólastig. Þá er lagt til að sveitarfélög geti rekið framhaldsskóla enda passar það ágætlega inn í hvernig námsmenn flæða milli skóla. Hér er valfrelsi og gegnsæi í brennidepli enda líklegast til árangurs.

 

 En námsframboð þarf að taka mið af framtíðaþörf atvinnulífsins, hvort sem um er að ræða fyrirtæki landsins eða opinberar stofnanir sem hafa skilgreint hlutverk í efnahagslífi landsmanna. Menntakerfið þarf að sjá fyrirtækjum og stofnunum fyrir þeim starfskröftum sem kallað er eftir innan nokkurra ára. Breytingar á þörf fyrirtækja og stofnana fyrir starfsfólk með rétta færni,ermjög hröð. Því þarf að huga að réttu námsframboði með góðum fyrirvara.

 Það tekur vísast tíu til fimmtán ár að koma málefnum menntamála í mjög gott horf. Því er best að byrja á að endurskipuleggja menntunar og þjálfunarmál hið fyrsta. Það skal vissulega gætt að því að halda í það sem vel er gert nú og stíga varlega til jarðar við endurskoðun á menntakerfinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband