Færsluflokkur: Rannsóknir og nýsköpun

Vellíðan barna á Íslandi samanborið við önnur lönd í Evrópu

World Economic Forum birti áhugaverðar niðurstöður rannsókna fyrir nokkru. Þar er borin saman vellíðan barna í tæplega 40 löndum í Evrópu. Mæld er röðun landa eftir þremur mælikvörðum.

https://www.weforum.org/agenda/2020/09/child-well-being-health-happiness-unicef-report/

Andleg vellíðan, líkamleg vellíðan og færni.

Það er nokkuð ljóst að hin Norðurlöndin, sérstaklega Noregur, Danmörk og Finnland eru venjuleg í bestu 25% í þeirri röð sem mælir vellíðan barna. Svíþjóð nálægt því en Ísland rekur lestina af þessum fimm löndum. Það fer ekki alltaf eftir auði landanna hvernig börnunum líður þar sem stress, hvíði og depurð getur lagst á börnin óháð búsetu. Þetta er a.m.k. niðurstaða UNICEF sem mældi vellíðan barna, þó mælingarnar gefi til kynna að ríkari löndin standa sig heldur betur.

Ísland er í 24 sæti af þessum 40 löndum miðað við meðalniðurstöðu mælinganna. Önnur Norðurlönd eru í fyrstu 10 sætunum, þar af eru Danmörk, Noregur og Finnland í fyrstu fimm sætunum. Þegar kemur að andlegri vellíðan eru Ísland í 22. sæti en þar fer að riðlast röð annarra norrænna ríkja, sem bendir á að líklega er ekki hugað nægilega vel að andlega þættinum hvað varðar börn á Norðurlöndum.

Hvað varðar líkamlega vellíðan barna í þessum 40 löndum sem WEF bar saman kemur í ljós að þar er staðan enn verri, en Ísland er í 28. sæti á listanum. Önnur Norðurlönd eru ekki mjög framarlega á því sviði, en Noregur þó best eða í 4. sæti. Það vekur nokkra athygli að Ísland sýnir svo lág gildi um líkalmega vellíðan barna þar sem íþróttastarf er mjög almennt og talið frekar vel upp byggt. T.d. eru hvergi eins margir faglærðir leiðbeinendur með íþróttastarfi barna og unglinga eins og á Íslandi.

Þegar kemur að færni barna í samanburðarlöndunum er staðan nokkuð betri, en þar er Ísland í 18. sæti af 40. Noregur er í fyrsta sæti önnur Norðurlönd í 7. til 11. sæti. Mælt var líka hversu mikill fjöldi 15 ára barna væru með ánægð með lífið. Þar voru íslensk börn í 9. sæti með um 81% ánægð með lífið.

Rannsóknin gefur til kynna að staða mála varðandi börn í Evrópu hefur ekki batnað í heimsfaraldrinum. Því er mikilvægt að huga vel að þessum málum. Ísland er vel í stakk búið að hlúa vel að ungu fólki, en það verður þá að gera það.


Nýsköpunarlandið Ísland, ekki lúxus heldur nauðsyn.

 

Ráðuneyti nýsköpunarmála hefur nú birt stefnumótun sína í nýsköpunarmálum. Því ber að fagna, en í þessari stefnu kennir margra grasa. Sumt skynsamlegt og áhugavert annað síður. Það vekur athygli að tekið er fram að nýsköpun sé ekki lúxus heldur nauðsyn. Þetta er fremur furðuleg yfirlýsing og gefur vonandi ekki tóninn fyrir innihaldinu.

Að birta nýsköpunarstefnu er mikilvægt fyrir hvert land. Þó Ísland sé fremur seint á ferðinni að móta stefnu um þetta viðfangsefni sem hefur þó verið markvisst unnið að í yfir þrjátíu ár. En lengur ef miðað er við skipulagða vinnu fyrirtækja til að bæta afurðir sínar og ferla. Mælingar á nýsköpunarstarfi byrjuðu árið 1991 og hefur verið í gangi síðan. Mælingar á rannsókna- og þróunarstafi byrjaði um 1980 en tölur eru til frá 6. áratugnum.

Fullyrt er að hugvit einstaklinga sé mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. Það er vitanlega rétt enda er nýsköpun mannanna verk en hvar er þessi uppspretta virk. Er það í bílskúrnum eða einhversstaðar annarsstaðar, málið er að nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er það nýsköpunarstarf sem skila hvað mestu til samfélagsins.  Nýsköpun sem byrjar sem hugmynd einstaklinga getur vissulega skipt máli en brottfall í því starfi er mikil  og einungis um 10% fyrirtækja sem sprottin eru frá hugmynd einstaklinga vaxa sem fyrirtæki.

Í stýrihópnum sem stendur að baki stefnu Íslands í nýsköpunarmálum er valinn maður í hverju rúmi. Þar er að finna fólk frá umhverfi nýsköpunar, menntakerfinu og úr stjórnmálunum. Formaðurinn er frumkvöðull sem gefur hópunum aukið vægi. Það hefði ef til vill mátt virkja íslenska frumkvöðla sem sem hafa af reynslu af því að vinna frá grunni með nýsköpunarhugmynd  og vita hvar skóinn kreppir. Vonandi rata fleiri frumkvöðlar inn í nýsköpunar- og frumkvöðlaráð verði það sett á stofn. Það er skaði af því að Rannsóknarmiðstöð Íslands hafi verið breytt í sjóðastofnun og skilið eftir stórt skarð þar sem stjórnsýsla vísinda, tækni og nýsköpunar er nú í skötulíki. Það er útilokað að ráðuneytin sem sinna þjónustu við Vísinda- og tækniráðs geti gert það að einhverju viti, miðað við það álag sem er á ráðuneytisfólki.

Annar stór ágalli við nýsköpunarkerfið eins og það er í dag er mikill skortur á öflun gagna og greining á þeim.  Hagstofan safnar gögnum fyrir samræmda gagnaöflun um nýsköpun á EES svæðinu. Í árlegri skýrslu ESB sem kallast „European Innovation Scoreboard“ eru birt gögn frá öllum EES löndunum, þar með talið frá Ísalandi. Nýjast skýrslan gefur til kynna að Ísland sé verulega að dragast aftur úr öðrum löndum hvað varðar nýsköpun. Sennilega er þessi þróun til komin vegna þess að önnur lönd eru að sýna aukinn árangur ár frá ári á meðan Ísland stendur í stað. Það er frekar óþægileg þróun og gæti haft verulegar afleiðingar fyrir samkeppni og efnahag landsins.

Þar sem ekki fylgir framkvæmdaplan fyrir stefnumótun í nýsköpun, er ekki hægt að ætlast til að hugtök og forgangsröðun viðfangsefna séu nákvæmlega skilgreind. En þungamiðjan í stefnunni eru viðfangsefnin a) fjórða iðnbyltingin, b) umhverfismál og c) lýðfræðilegar áskoranir. Hér eru nokkur viðfangsefni á ferðinni sem er góð byrjun en fleiri þættir þurfa að koma til, svo sem hvað varðar þjálfun. Í fyrsta lagi hvað er átt við með nýsköpun? Þetta þarf að skýra þannig að sem flestir lesendur séu með sama skilning á hugtakinu. Það mætti rekja í stuttu máli þróun á hugtakinu frá því að vera línulegt kerfi, yfir í ólínulegt og nú skilningurinn á að nýsköpunarstarf hafi víðfermar afleiðingar og áhrif. Þá er skilningur á hugtakinu fjórða iðnbyltingin afar mismunandi. Sumir sjá í þessu hugtaki að vélar séu að taka við af fólkinu. Þetta má vera rétt en það kemur meira til. Það mætti skýra þessa mikilvægu þróun betur í ljósi fyrri þróunar frá því línulegt kerfi var skilgreint þar til í dag að þriðja kynslóð nýsköpunar hefur komið fram.

OECD segir að „svokölluð fjórða iðnbylting muni „breyta ekki aðeins hvað við gerum heldur líka hver við erum. Hún mun hafa áhrif á sjálfsmynd og allt sem hana varðar, svo sem friðhelgi einkalífsins, skilning okkar á eignarhaldi, neysluvenjur, tíma sem við verjum í vinnu,  frístundum og hvernig við þróum starfsferla, þekkingarsköpun, samskipti og fleira svo sem til að nefna eina nálgun.

 

Umhverfismálin eru afar mikilvægur þáttur fyrir íslendinga að skilja og vinna að. Þetta skiljum við nokkurn veginn þó umhverfismál séu afar umfangsmikill málaflokkur og er okkur frekar hugleikinn. Þegar kemur að lýðfræðilegum áskorunum eru nefndar til sögunnar aldursamsetning þjóðarinnar og nýjar lausnir í heilbrigðis og velferðarmálum. Hér er skautað frjálst yfir fjölda viðfangsefna til að nefna dæmi:

-  Heilbrigðismál, öldrun, lýðfræðilegar breytingar og velferð

-  Fæðuöryggi, sjálfbær landbúnaður og lífrænu efnahagskerfi

-  Trygg, hrein og skilvirk orka

-  Snjallir, grænir og samþættir flutningar

-  Loftslagsbreytingar og skilvirk nýting gæða, þar með talin hráefni

-  Öryggi og nýsköpun í samheldnu samfélag

Lýðfræðilegar áskoranir eru jafnan þannig gerðar að ekkert eitt land hefur burði til þess að finna lausnir gagnvart þeim. Mikil áhersla er lögð á að lönd vinni saman að þessum málum enda stærð þeirra mjög mikil. Norðurlöndin eru þegar vel á veg komin með að undirbúa samstarf um þessi mál meðal annars í samstarfi innan NordForsk.

Fullyrt er í stefnunni að vilji til nýsköpunar sé innbyggður í samfélag, menningu og atvinnulíf landsmanna. Þetta er trúlega rétt. Almenningur er jákvæður í garð nýsköpunar. Vandamálið er ekki í viðhorfi fólks heldur möguleikum fólks til að stunda nýsköpun. Þar kemur fyrst fram afar takmarkað fé til nýsköpunar, brotakennt kerfi og síðan að einhverju leiti skortur á þekkingu á viðfangsefni nýsköpunarinnar ásamt stuðningskerfi við frumkvöðla og er þá átt við aðgengi að þekkingu til nýsköpunar sem frumkvöðlar gætu sótt stuðning og þekkingu.

Það skal ekki vanþakkað að stjórnvöld hafa næstum alltaf stutt við rannsókna- og nýsköpunarsjóði. Jafnvel á hrunárunum voru þessir sjóðir að einhverju leiti verndaðir fyrir miklum niðurskurði. Eitthvað virðast þessi mál þó eiga undir högg að sækja nú. Vandamálið er ekki viðhorf og áhugi heldur að sjóðir eins og Tækniþróunarsjóður eru mjög litlir. Sjóðurinn hefur stækkað hressilega á síðustu árum og áratugum en hann er enn of lítill til að geta skipt verulegu máli. Þetta þýðir að fjölmörg áhugaverð verkefni fá ekki framgang. Þar eru fyrstu merki um þrengri samkeppnisstöðu Íslenskra nýsköpunarfyrirtækja miðað við erlend fyrirtæki.

Þá eru fjárfestingarsjóðir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum mjög fljótir að fjárfesta öllu sínu fé í áhugaverðum fyrirtækju. Þar er líka um að ræða ávöxtunarkröfu sem aðeins reyndari og eldri nýsköpunarfyrirtæki geta mögulega uppfyllt. Það er ekki til mikils að reka sjóði sem geta ekki fjárfest í einu verkefni fyrr en annað fer út úr sjóðunum.

Stefnan gerir ráð fyrir að til staðar sé þroskað umhverfi fyrir fjármögnun nýsköpunar. Um þetta má deila. Fjármögnun á þekkingarstarfsemi er svolítið í skötulíki á Íslandi. Mest opinbert fé sem merkt er nýsköpun fer til stofnana á fjárlögum og þeim er nokkuð í sjálfsvald sett hvernig þær nota það. Rannsóknastofnanir og háskólar eru, eða ættu að vera, mikilvægur þáttur í nýsköpunarstarfi, en þá er mikilvægt að þessar stofnanir séu í betri tengslum við atvinnulífið og þarfir til nýsköpunar. En þar sem litlar sem engar kröfur eru settar á þessar stofnanir hættir þeim til að byggja upp óþarfa yfirbyggingu.

Það er jákvætt í stefnunni hve mikil áhersla er lögð á þátttöku íslendinga í erlendum verkefnum. Þetta er alls ekki sjálfgefið og einungis á færi þeirra sem hafa aðgang að fólki sem þekkir til umsóknaferla í erlendum sjóðum að vænta árangurs. Það er mikil vinna að gera hæfa umsókn t.d. í rammaáætlanir ESB og þurfa umsækjendur að hafa tíma, þekkingu, tengsl og fé til að sækja um fé. Þetta ferli mætti bæta en dæmi eru um að erlendir aðilar hjálpi íslenskum fyrirtækjum til að sækja um í erlenda sjóði. Þessa þekkingu þarf að byggja upp hér á landi með tilheyrandi tengslum. Svo eru það ekki bara fjármagn sem þarf að vera aðgangur að það þarf mikil tengsl og þekkingu á umfangi og eðli þeirra verkefna sem sækja skal í. Áhersla á fjármagn eitt og sér er alls ekki nóg, meira þarf til.

Íslenskt regluverk varðandi nýsköpun er hugsanlega ekki eins fullkomið og stefnuskýrslan heldur fram. Víða eru brestir í kerfinu. Stutt er síðan hlutverk rannsóknaráðs var minnkað niður í einungis rekstur sjóða og því þyrfti að endurskoða hlutverk rannsóknaráðs með tilliti til aukinnar áherslu á nýsköpun samkvæmt nýútgefinni skýrslu  ,,Nýsköpunarlandið Ísland”.. Sjóðirnir sem jafnan hafa notið stuðnings stjórnvalda eru mjög litlir og kröfurnar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að sækja um og gera grein fyrir styrkjum til nýsköpunar eru óhóflegar. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að gera góða grein fyrir nýtingu opinbers fjár frá skattgreiðendum. En að leggja síbreytilegar kröfur, oft óskrifaðar, á lítil fyrirtæki er engum til góðs. Það eru allmörg mannár nýsköpunarfyrirtækja sem fara í umsóknir á styrkjum sem oft eru litlir og stór hluti fer aftur til ríkisins í formi skatta.

Stefnan kallar á að gagnaöflun og greining á stöðu nýsköpunarumhverfisins verði hluti að mælaborði stjórnalda og við hagstjórn. Þetta er hressandi yfirlýsing og þörf því hingað til hefur gagnaöflun og greining verið allt of lítil síðastliðinn ár. Fyrir um tíu árum var gagnaöflun takmörkuð en þó regluleg og greining var gerð í samstarfi við bæði Norðurlöndin og erlendar stofnanir sem gaf okkur við mið. Þetta var ekki nægileg vinna þá, en er enn minni nú og sennilega engin. Hagstofan gerir samræmdar kannanir um nýsköpun, en þessar niðurstöður eru ekki nýttar í neina greiningu hér á landi sem er þó mikilvæg til að meta stöðu og þörf. Sem betur fer er greining gerið á vettvangi ESB í svo kölluðum Eruopean innovation scorboard. Þar eru í raun fyrstu vísbendingar um að Ísland er að dragast afturúr öðrum löndum hvað varðar nýsköpun. Þetta kallast á við nýjustu niðurstöður frá World Economic forum sem nýlega hefur greint frá því að samkeppnisstaða Íslands fer versnandi.

Stefnuplaggið ,,Nýsköpunarlandið Ísland” er gott framlag í umræðuna um þróun nýsköpunar á Íslandi. Talsvert af innihaldinu byggist þó ekki á greiningarvinnu og sumstaðar um að ræða hreina óskhyggju. Vonast er til þess í framhaldi að stefnunni fylgi einhverskonar framkvæmdaáætlun þar sem tekist er á við í fyrsta lagi þá vankanta sem er að finna á umhverfi og skipulagi nýsköpunarkerfisins. Þá þarf að samræma aðgengi að fé til þessara mála, en til er fjöldi lítilla sjóða sem eru svo sem ekki til neins, nema þá að veita viðurkenningu fyrir góða umsókn. Það þarf að afla tölulegra gagna um starfsemi nýsköpunar, sem segja okkur til um umfang og leiðir, og byggja síðan stefnu á þeim greiningum sem gerðar verða á þeim gögnum. Skattayfirvöld þurfa að opna gagnagrunna sína fyrir aðgengi að gögnum um fyrirtæki, svo sem flokkun á starfsemi þeirra, mannafla og fleira, en þar er að finna fjársjóð upplýsingar sem ekkert nýtast.

Að lokum mætti benda á að það er í lagi að hafa forgangsröðun á nýsköpunarstarfi og þróun nýsköpunarumhverfis hér á landi. Skynsamleg nýting fjár er eitt, samstarf um samfélagslegar ögranir er annað. Það þarf að taka til í kerfinu og skipuleggja í anda nýrra hugmynda um stöðu og þróun nýsköpunar.


Norska Forskningspolitikk gerir grein fyrir nýrri sýn á nýsköpun.

Norska rannsóknarráðið hefur fengið í hendurnar nýja skýrslu frá hinu fjölþjóðlega ráðgjafafyrirtæki Technopolis. Stuðst er við nýja skýrslu OECD um úttekt á nýsköpun í Noregi. Norðmenn láta taka reglulega út rannsókna- og nýsköpunarkerfið í landinu, líkt og Íslendingar gerðu um árabil.

Helstu skilaboð í skýrslunni til stefnumótandi aðila í Noregi eru þrennskonar:

  • Breytingar í átt að fjölbreyttara og öflugra hagkerfi.
  • Þróun nýsköpunarkerfisins í átt að samkeppnishæfni, skilvirkni og hagkvæmni.
  • Stuðningur við rannsóknir og nýsköpun sem gera betur kleift að mæta félagslegum árskorunum.

Þessi skilaboð Technopolis taka mið af því sem OECD kallar „þriðja kynslóð nýsköpunarstefnu“.  En í gegnum árin hefur sýn sérfræðinga í stefnumálum nýsköpunar gengið í gegnum tvær kynslóðir:

  1. Fyrsta kynslóðin byggist á línulegum skilning á nýsköpun, þar sem nýsköpun er flutt frá rannsóknarstofnunum eða háskólum til atvinnulífsins. Opinber fjárfesting í rannsóknum og þróun er hér réttlætanleg vegna markaðsbrests, það er að fyrirtækin hafa ekki næga burði til að stunda rannsóknir til að niðurstöður þeirra komi fram sem nýsköpun. Hugmyndin er sú, að fyrirtæki leggja áherslu á rannsóknir og þróun vegna þess að þau geta annars ekki viðhaldið nægilegri arðsemi.
  2. Önnur kynslóðin byggist á að fyrirtækið er í brennidepli í skilningi á nýsköpun, þar sem maður sér samspil mismunandi aðila í samfélaginu og hvernig þeir læra af hverju öðrum. Hér er verkefni hins opinbera að vinna gegn vankanta kerfisins með því að tryggja fjármögnun, skipulag og ramma sem fólk og fyrirtæki þurfa að tileinka sér.
  3. Þriðja kynslóð nýsköpunarstefna er ný hugmynd, sem er enn í þróun. Flestir sem vinna að þessu málum eru sammála um að þessi ramma inniheldur að minnsta kosti þessa þætti:

 

  • Stefna sem varðar félagsleg og alþjóðlegar áskoranir, sem má tengja markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni.
  • Hugmynd er uppi um að þessar helstu áskoranir krefjast meira en nýrra uppfinningar og nýrra hugmynda. (í ljósi þess að þetta starf getur skapað eins mörg vandamál og það leysir). Það kann að koma upp þörf fyrir endurskipulagningu hagkerfisins, framleiðslunnar og jafnvel hins félagslega kerfis til að tryggja sjálfbæra framtíð.
  • Í ljósi þess að rannsóknir og nýsköpun geta skapað eins mörg vandamál og hún
    leysir verður ábyrgð og sjálfbærni verða að vera hluti af hugsun fyrirtækja og vísindamanna frá fyrsta degi. Stefnumótandi aðilar þurfa því að taka tillit til sjálfbærni og ábyrgðar í skipulagningu, fjármögnun og eftirfylgni.
  • Margir af þeim áskorunum sem við vinnum að eiga verða til í framtíðinni og allt sem maður gerir hefur afleiðingar fyrir framtíðina. Enginn getur sagt til um framtíðina, en vísindamenn og stefnumótandi aðilar geta búið til mismunandi sviðsmyndir um framtíðina og skilgreina þannig áskoranir og tækifæri sem hægt er að undirbúa.
  • Allir sem málið varðar ættu að taka þátt í stefnumótun, ekki bara þeir sem hefð hefur verið fyrir að sjái um þau mál svo sem faglegir og pólitískir sérfræðingar.

Sjálfbærni er mikilvægur þáttur í viðleitni þjóða til að ná félagslegum og efnahagslegum markmiðum sínum. Það er því mikilvægt að vanda vel til verka við stefnumótun í nýsköpunarmálum.

 


Framlölg til heilbrigðismála í 11% af VLF

Mikil umræða hefur verið um útgjöld til heilbrigðismála í aðdraganda kosninga en einnig á síðustu árum. Krafa hefur verið um 11% framlög til þessara mála af vergri landsframleiðslu. Raddir hafa heyrst um að í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við sé hlutfall útgjalda af heilbrigðismálum einmitt 11%.

Meðal framlag til heilbrigðismála í OECD ríkjunum er um 9% árið 2016 en á Íslandi um 8,6% eins og sjá má í úttekt OECD Health at a Glance 2017 (http://www.keepeek.com/Digital-Asset-Management/oecd/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-2017_health_glance-2017-en#page1) á blaðsíðu 137.

Spurning er hvað er „framlag“ en OECD skiptir framlögum í opinber framlög og frjáls framlög af ýmsu tagi. Opinber framlög til heilbrigðismála á Íslandi voru um 7% af VLF árið 2016 á meðan þetta framlag var rúmlega 6% að meðaltali hjá OECD. Hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við er opinbert framlag til heilbrigðismála um 8%. Raunar er það svo að önnur framlög til heilbrigðismála en hin opinberu, eru jafnan fremur lægra hlutfall af heildinni hjá þeim sem fá hvað mest.

Eflaust hafa allir sína skoðun á því hve hátt framlag ætti að vera til heilbrigðismála. Þeir sem best þekkja segja að heilbrigðiskerfið sé komið að þolmörkum. Það er vissulega mjög alvarleg staða en spurning er hvert ætti framlagið að vera? Hæsta opinbera framlag til heilbrigðismála er í Þýskalandi eða rúm 9% miðað við 7% á Íslandi. Bæði löndin hafa mjög gott heilbrigðiskerfi en hægt er að velta því fyrir sér hvort hagkvæmni stærðarinn hafi þarna áhrif. Opinbert framlag til heilbrigðismála á Norðurlöndum er talsvert hærra en á Íslandi eða um 9% en frjálsu framlögin kringum 1,5 til 2,0% eitthvað aðeins hærra en á Íslandi. Spurning er hvort markið ætti að vera 9% af opinberu fé eða um 11% af öllu fé. Það er talsverður munur á þessum markmiðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vísindagangan

Það var gaman að sjá fjöldann sem tók þátt í vísindagöngunni, ekki minnst á tímum þegar vísindin eru sniðgengin eins og má sjá vestan hafs. Þar ríkir „mér finnst“ viðhorfin sem aldrei fyrr. Þetta sést mjög vel á viðhorfi til umhverfis og heilbrigðismála. En sennilega eru svo kölluð „alternative truth“ ekki það besta sem hefur komið fyrir vísindin.

Það er sjaldgæft að hópur vísindamanna sýni þá samstöðu sem þarna var þar sem fjöldi vísindamanna um allan heim, gekk vísindagöngu til stuðnings þessari mikilvægu starfsemi. Það eru mörg málefni sem brenna á vísindafólki þessa dagana en hægt er að sjá nokkur af þeim viðfangsefnum sem þeim er bent á að sinna á þessari vefsíðu.  https://satellites.marchforscience.com/

Ein af leiðbeiningunum sem þarna er að finna er „reyndu að kynnast því hvernig stefnumótun vísinda gengur fyrir sig“. En meðal þess er bent á er að samskipti vísinda og stjórnvalda skipti verulegu máli. Það hjálpar svo sem ekki að hvorugur hópurinn skilur hinn en það er annað mál. En oft er þó skilning að finna á vísindum meðal opinberra aðila. Hér á landi eru fjöldi vísindamanna sem eru í fremstu röð í sínum fræðum aðilar að Vísinda- og tækniráði. En það er hópur sem ætti að tengja saman vísindi og stefnumótun og framkvæmd stefnu. Maður verður hugsi yfir því að hópur fólks með þekkingu á vísindum og situr í skjóli stjórnvalda í slíku ráði hafi ekki áhuga eða getu til þess að vinna að stefnumótun. Nú þegar líður að miðju ársins 2017 fær hinn óinnvígði aðeins að sjá Stefnu og aðgerðaáætlun 2014 til 2016 en það geta verið ótal skýringar á því hvers vegna engin stefna hefur verið gefin út fyrir yfirstandandi tímabil. Sennilega er þó engin þessara skýringa marktæk, en það eru engin stjarnvísindi að skrifa stefnupappír.

En vísindastefna hér á landi er „mér finnst“ stefna. Stjórnvöld hafa litla hugmynd um útá hvað vísindin ganga, hvað þá hvaða forsendum þau lúta og þær þarfir sem þau hafa. Þetta veit vísindafólkið enda hefur það sannað sig að þrátt fyrir stefnu (leysi) stjórnvalda í vísindamálum eru íslenskir vísindamenn oft í fremstu röð í sínum greinum. Það eru til nokkur tæki, ekki þó mjög mörg eða góð, til að sá árangur íslenskra vísindamanna í gegnum tíðina. Nægir hér að nefna að íslenskir vísindamenn hafa birt ritrýndar vísindagreinar í miklu magni og má sjá gæði þessara greina með háu hlutfalli tilvitnana í þær. Það er ekki nóg að skrifa fjölda greina ef enginn tileinkar sér innihald þeirra sem sést til dæmis með að vitna í þær. En íslenskir vísindamenn eru öðrum fremri í að vinna með vísindamönnum annarra landa. Þetta hefur líka verið mælt, en vitanlega bara af erlendum sérfræðingum. „Okkur finnst“ ekki mikil þörf á að mæla svona. Við-vitum-þetta-allt. Reyndar er Hagstofan að mæla aðföng til vísinda sem ekki skal vanmetið, nema hvað að Hagstofan mælir bara hvað er undir ljósastaurnum. Þetta er vísast vegna þess að Hagstofan er mjög góð í að mæla hluti, en bara hluti sem hún skilur.

Þá hafa íslenskir vísindamenn, sjálfir án afskipta stjórnvalda, landað fjölda erlendra rannsóknastyrkja, svo að eftir því er tekið. Þá er sókn í innlenda styrki líka nokkuð mikil. Það eina sem stjórnvöld hafa heyrt þegar vísindamenn tala er „meiri pening“ og þar hafa stjórnvöld raunar staðið rausnarlega við bakið á vísindum á Íslandi. Sjóðir sem styrkja vísindi, tækni og nýsköpun hafa vaxið með ári hverju um langa hríð. Aukningin er mikil á milli ára. Þetta hrósa stjórnvöld sér af við hátíðleg tækifæri og gleðjast yfir framsýni sinni. En íslensk stjórnvöld hafa raunar verið meðal þeirra sem leggja hvað mest til vísindastarfa í hinum vestræna heimi. En ekki með samkeppni um peninga, heldur beinum framlögum til stofnana. Það er síðan stofnanna að skipta fé á milli vísinda og rekstrar. Þetta virkar ekki sérlega skilvirk aðferð en afar þægileg. Nú er raunar skorið verulega í þetta framlag og mun það eflaust leiða til minni virkni vísinda. Það er ekki eins og stofnanir séu teknar út og lagt mat á starfsemi þeirra til að sjá hvar megi skera af, nei það er er best að nota ostaskerann í svona niðurskurð.

Margar þjóðir tengja saman vísindastarf og stefnu viðkomandi ríkisstjórna. Þannig eru veittir styrkir til vísindamanna og hópa um verkefni á þeim sviðum sem viðkomandi lönd eru að leggja áherslu á. Vitanlega eru ýmsar aðrar leiðir sem notaðar eru en að leysa mál þeirrar þjóðar sem styrkir vísindi ætti ekki að vera annað en jákvætt. Er þá ekki verið að atast í margumtöluðu frelsi vísindanna. Þetta gera íslensk stjórnvöld ekki. Þau auglýsa bara eftir verkefnum, einhverjum verkefnum. Það getur verið að á skorti skilvirkni í slíkum aðferðum hjá litlum löndum. 

En nú er göngunni lokið og er því spurt: „hvað svo“. Kannski að komist á samtal milli stjórnvalda og vísinda. Eða ættum við kannski bara að láta Ævar og Villa vísindamenn sjá um að tengja vísindin við alla hina, en þeir eru þeir einu sem hafa gert eitthvað í því af viti.


Sprotafyrirtæki eða ekki sprotafyrirtæki

Það virðist vera gróska í ýmiskonar nýsköpunarstarfsemi hér á landi eins og víða annarsstaðar. Fram kemur í Innovation Union Scoreboard (stigatafla ESB um nýsköpun), að Ísland sé í 13. sæti yfir lönd í Evrópu hvað varðar nýsköpunarvirkni.

http://ec.europa.eu/growth/industry/innovation/facts-figures/scoreboards_en

Þó kemur þar fram að raunar er Ísland nánast að sýna sömu nýsköpunarvirkni og árið 2008 og á sama tíma eru önnur lönd að sýna nokkra, þó mismikla framför. Þetta er áhyggjuefni þar sem nýsköpun er forsenda framfara og hagvaxtar jafnvel til skemmri tíma.

Svo virðist sem opinberir aðilar og einkageirinn séu að leggjast á eitt um að bæta málefni nýsköpunar. Hið opinbera leggur fé í opinbera nýsköpunarsjóði og endurgreiðir hluta útgjalda til rannsókna og þróunar. Bæði er þetta afar mikilvægt fyrir fyrirtæki í nýsköpun sem jafnan eru að byggja upp markað fyrir nýjar eða verulega breyttar afurðir. Öðru hvoru koma fram fyrirtæki sem hafa skarað framúr en þau það flest sameiginlegt að hafa átt í góðum tengslum við hið opinbera og gjarnan þegið þaðan fé til nýsköpunarstarfa. En fjármagn er ekki það eina sem lítil og ung fyrirtæki í þekkingarfrekum greinum þarfnast. Þar kemur til skortur á ýmisskonar þekkingu varðandi rekstur sem getur farið illa með nýsköpunarfyrirtækin.

Almennt er talað um að sprotar eða sprotafyrirtæki sé hugtak sem er sameiginleg með nýsköpunarfyrirtæki. En þarna er alls ekki um sama hlut að ræða. Sprotafyrirtæki eru skilgreind á sérstakan, nokkuð þröngan hátt á meðan nýsköpunarfyrirtæki eru með nokkuð víðari skilgreiningu.

Sprotafyrirtæki eru venjulega sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Gengið er út frá því viðmiði að árlegur þ róunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu. Fyrirtæki hættir að teljast sprotafyrirtæki þegar þ að hefur verið skráð í kaup höll sem öflugt tæknifyrirtæki eða náð árlegri veltu sem nemur einum milljarði íslenskra króna

Heimild: http://www.si.is/media/sportafyrirtaeki/Sproti2005-future.pdf  glæra 5/49

Nýsköpunarfyrirtæki eru jafnan talin þau sem vinna að því að koma með nýja eða verulega breytta afurð, fyrir fyrirtækið sjálft eða markaðinn sem það vinnur á, starfar á nýjan hátt, hefur skipulagt starfsemi sýna á nýjan hátt eða gert eitthvað nýtt.

Það skiptir vísast ekki öllu máli hvort fyrirtæki heitir sproti eða nýsköpunarfyrirtæki eða eitthvað annað, ef það er að skila arði eða líklegt að svo verði í náinni framtíð. Það þarf bara að aðlaga umhverfð að því að ný fyrirtæki sem oft eru með litla fjárhagslega eða þekkingarlega burði eru að vaxa úr grasi. Nýsköpunarumhverfi á Íslandi er almennt talið jákvætt. Undantekningin er reyndar sú að aðgengi að fjármagni er enn af frekar skornum skammti, þó mikið hafi gerst á því sviði. Markaðurinn sem þessi nýju fyrirtæki hafa til að ná árangri á er oft mjög lítill þannig að þau þurfa að fara fremur fljótt í útrás.  Það er svo sem ekki mjög mikill munur á þeirri stöðu og fyrirtæki í litlum löndum standa frammi fyrir þó vissulega sé smá stigs munur á. Þetta á nefnilega líka við norsk og dönsk fyrirtæki. Þó markaður þeirra sé mörgum sinnum stærri er hann oft fljótur að mettast.

Þó er það sjálfsagt að kalla hlutina réttum nöfnum, ekki minnst þar sem verið er að byggja upp innviði og stoðkerfi sem er aðlagað er að ungum fyrirtækjum með sérstök einkenni, svo sem hvað varðar tæknistig, markað, þekkingar- og færniþörf og fleira. Stuðningur við sprotafyrirtæki passar vísast ekki fyrirtækjum í greinum með lægra þekkingar- og færnistig en stuðninginn þarf að laga að öllum fyrirtækjum sem talin eru eiga erindi á markað án tillits til í hvaða flokk þau falla.


European Innovation Scoreboard 2016 er komið út - Ísland í 13. sæti

Framkvæmdstjórn ESB hefur gefið út hina árlegu skýrslu um nýsköpun, "European Innovation Scoreboard 2016". Af Evrópuþjóðum er Ísland í 13. sæti.

http://ec.europa.eu/growth/industry/innovation/facts-figures/scoreboards_en

http://europa.eu/rapid/press-release_IP-16-2486_en.htm

Enn eru það birtingar vísindarita og samstarf um það sem vegur hátt hjá Íslandi en því miður er Ísland nokkuð að baki þeim þjóðum sem við helst berum okkur saman við.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

World Economic forum er með mikið af upplýsingum sem þarf að skoða.

Íslendingar njóta góðs af umfangsmiklu starfi World Economic Forum. Nýlega birti stofnunin mjög mikið af upplýsingum og jafnframt greiningu á stöðu mála í aðildarríkum. Íslendingar eru afar lítið uppteknir af því að greina stöðu mála og því kjörið að líta í sarp WEF manna. Hér eru nokkur dæmi um greinar á vegum WEF sem gaman er að skoða:

What are the 10 biggest global challenges?

Perkele! Sverige är bara näst bäst i världen på tekniska innovationer
ekki alveg WEF grein en passar vel samt

Infographics and Shareables (um túrista)

These 2 maps will change the way you understand population (mannfjöldi í heiminum)

Which countries have the highest proportion of internet users? (notkun á interneti)

The world’s population mapped by who is online (mannfjöldi á netinu)

Are you too obsessed with your productivity? (stjórnmálamenn hafa lært hugtakið framleiðni, þá gleymist allt annað)

How being genuine affects your career success (Emotional intellegence (tilfinningagreind) er afgerandi um afköst í starfi?)

How would you fare at the global negotiating table? (hvernig gengur þjóðum við samningaborðið?)(samningatækni)

Which degree will get you hired? (hve mikla og hverskonar menntun þarf maður til að fá starfið sem maður vill?)

Which degrees give the best financial return? (Hvaða menntun gefur bestan af menntuninni? Mjög breytilegt)

The 4 skills you need to become a global leader

What one of the world’s longest studies tells us about happiness

Why do you make bad decisions? (Hvað veistu um sjálfa/n þig? Kannski ekkert)

How can we make international travel easier? (Góður!)

 

 

 


Samfélagslegar áskoranir minna í umræðunni hér en í Evrópu.

Þegar rætt er um Samfélagslegar áskoranir (Grand Societal Challenges) er jafnan verið að vísa til þeirra vandamála sem mannkynið mun mæta í framtíðinni eða eru jafnvel komin á dagskrá fólks nú þegar. Þessar áskoranir varða mál svo sem heilbrigðismál, matvælaöryggi, orkumál, samskipti og flutninga, loftslagsmál, samfélagið og öryggi þegnanna. Þessi upptalning er svo sem þekkt en ef skoðaðar eru þær forsendur sem liggja að baki hverrar um sig sjáum við að víða þarf að taka til hendinni.

Nýlega er afstaðin umfangsmesta loftslagsráðstefna sem nokkurn tímann hefur átt sér stað, í París. Talið er að vel hafi gengið að fá þjóðir heims til að sjá og vilja takast á við þann vanda sem augljós er í loftslagsmálum. Ekki voru allir sammála um ágæti niðurstaðna ráðstefnunnar enda ljóst að ef bregðast á við af fullum krafti kæmi það niður á lífsgæðum fólks eins og þau eru metin, að minnsta kosti til skamms tíma. Ég held ekki að það sé með vilja að ráðamenn landa heimsins séu að fresta lausn þeirra Samfélagslegu áskorana sem standa fyrir dyrum, þangað til börnin okkar og barnabörn fara að stjórna.

Þá eru málefni aldraðra í umræðunni þessa dagana í tengslum við birtingu fjárlaga fyrir árið 2016. Sú umræða er enn líklega á fremur lágum loga. En þrátt fyrir ágætis framreikninga Hagstofunnar virðist ráðamönnum ekki ljóst að eftir nokkur ár verður aldursuppbygging samfélagsins talsvert breytt frá því sem var. Það kemur okkur sjálfsagt öllum á óvart eftir nokkur ár að mjög stór hluti þjóðarinnar er kominn á eftirlaun og einungis lítill hluti er að skapa verðmæti fyrir samfélagið svo það geti þróast og dafnað þannig að íbúar landsins finnist þeir búa við öryggi og lífsgæði. Andstætt þeim þjóðum sem huga vel að málefnum aldraðra, virðist svo að við getum bara ekki hugsað til langs tíma, alveg örugglega ekki fram yfir næstu kosningar.  Spurning hvort það sé besta leiðin að binda aldrað fólk í fátækragildru sem er svo vel girt af að fólk á ekki séns. Málið er að ef það er rétt að eldra fólk sé þrátt fyrir allt að verða hraustara með hverju ár þá ætti að leyfa því að taka þátt í verðmætasköpun velsældar samfélagsins. Þetta má gera til dæmis með því að aflétta tekjutenginu á þennan hóp.

Orkumál hafa einnig verið töluvert í umræðunni hér en Ísland býr að mjög mikilli hreinni og endurnýjanlegri orku. Talið hefur verið hagkvæmt að breyta  þessari orku í létta málma sem hafa skapað verðmæti hér á landi, að minnsta kosti á meðan verðmæti þeirra er gott. Nú lækkar verið á málminum og um leið á rafmagninu. Spurning er hvort þetta sé þróun sem heldur áfram til langs tíma. Það væri ekki hagkvæmt, að minnsta kosti ekki á meðan við erum að byggja fleiri verksmiðjur til að framleiða þessa málma. Spurning er hvort við ættum bara að leggja slöngu til Bretlands og dæla orkunni þangað. Menn eru ekki á eitt sáttir og skal ekkert sagt um það hér hvort þetta sé góð leið. Hér þarf einnig að hugsa til langs tíma um það hvort eftirspurn eftir hreinni endurnýjanlegri orku fari vaxandi í kjölfar umræðu um loftslagsmál.

Langtímahugsun í þeim málum sem varða Samfélagslegar áskoranir er mikilvæg. Ákvörðun í dag hefur vísast áhrif eftir mörg ár. Þess vegna hafa þjóðir heims sett af stað rannsókna og þróunar áætlanir til að takast á við þær.  Evrópusambandið hefur gert þessum málum góð skil í rannsóknasjóðum sem kallast nú Horizon 2020. Það er nokkuð samdóma álit að engin ein þjóð eða lítill fjöldi þjóða hafi burði til að takast á við þær Samfélagslegu áskoranir sem að okkur steðja, einar og sér. Því þurfa þjóðir heims að taka sig saman og vinna að því að takast á við þessar áskoranir áður en ástandið versnar meira og meira. Það sjást ekki mörg merki um að hér á landi að þessar áskoranir séu framarlega á viðfangsefna listanum. En það mun koma að því fyrr eða síðar.


Kynning á tengslum á virkni vísindastarfs og birtingum í Óslo

Í byrjun október hélt Nordisk institutt of studier af innovasjon, forskning og utdannig ásamt NordForsk ráðstefnu um virkni vísinda. Heiti ráðstefnunnar var "20. norræna ráðstefnan um bibliometrics og rannsóknastefnu". Á ráðstefnunni voru um 70 sérfræðingar frá 12 löndum og voru fluttar um 30 fyrirlestrar um viðfangsefni sem tengjast viðfangsefni ráðstefnunnar.

Framkvæmdastjóri Greiningarstofu nýsköpunar flutti erindi um tengsl útgjalda til rannsókna og þróunar hjá opinberum aðilum við fjölda birtinga ritrýndra vísindagreina. Niðurstaðan var að þróun þessara stærða hélst í hendur frá 2000 til 2009 en þá virðist eitthvað hafa gerst. Rannsóknaútgjöld í opinbera geiranum hríðféllu en birtingar virtust nánast halda sínu striki. Miðað við að svo virðist sem breytingar í útgjöldum til rannsókna og þróunar í opinbera geiranum leiði til breytinga í fjölda birtinga 2 til 4 árum seinna. Hægt var því að sjá örlitla fækkun birtra greina eftir 2009 sem tengja má við niðurskurð til opinberra aðila í efnahagshruninu.

Haldi svo áfram sem horfir að útgjöld opinberra aðila til rannsókna og þróunar hafi lækkað verulega má búast við að fjöldi vísindagreina verði einnig minni á næstu árum. Þetta mun hafa mikil áhrif á vísindasamfélagið ef rétt reynist. Búast má við að dragi úr samstarfi við erlenda aðila og þar með tekjum frá erlendum sjóðum. Það kann þó að vera hugsanlegt að Hagstofa Íslands hafi vanmetið útgjöld opinberra aðila til rannsókna og þróunar á síðustu árum. En framlög hins opinbera til þessara stofnana virðist ekki styðja þá þróun sem stofnunin dregur fram.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband