Færsluflokkur: Ferðalög

Viðspyrna fyrir ferðaþjónustuna

Ríkisstjórnin kynnti nýverið Viðspyrnu fyrir Ísland þar sem ýmiskonar efnahagsaðgerðir vegna Covid-19 eru kynntar. Hér er um að ræða stóran pakka þar sem tekið er á fjölda mála. Almennt má segja að þarna séu góðar tillögur lagðar fram sem vísast verða til gagns á þessum erfiðu tímum. Hvort þetta nægi til að minnka þann skell sem er fyrirséður í efnahagsmálum landsmanna skal ósagt látið. Það er þó ein aðgerð sem kann að vekja upp spurning. En það er stafræna gjafabréfið sem allir eldir en 18 ára fá, að upphæð fimm þúsund krónur.

Þetta eru samtals 1,5 milljarðar sem eiga að fara í ferðaþjónustuna. Það má segja að heildin nýtist vel en að sama skapi duga 5 eða 20 þúsund krónur skammt sem hvatning til ferðalaga innanlands. Útfærslan liggur svo sem ekki fyrir en það mætti velta fyrir sér hvernig hægt er að láta ferðaþjónustuna fá þetta fé án milliliða. Þess má geta að ferðalög innanlands eru mjög dýr og varla á allra færi að stunda þau, jafnvel með smá upphæð frá ríkinu. Það má velta því fyrir sér hvort það séu ekki bara þeir sem hafa efni á svona ferðum sem fara í þær. Þeir sem hafa ekki efni á rándýru ferðalagi innanlands fara þá ekki og þá hvor raftékkurinn verði þá ef til vill ekki notaður.


Greining á ferðavenjum ferðamanna, innlendra líka.

Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands sagði að "Engin almennileg gögn eru til í ferðaþjónustunni hér á landi svo hægt sé að gera marktækar áætlanir og bregðast við áföllum í greininni.

Það er nánast á hverjum degi að fjölmiðlar koma fram með mis vel undirbúnar skýringar á þróun ferðamála og fjölda ferðamanna og hversvegna sú þróun er á þennan veginn og hinn. Gerðar hafa verið skýrslur um hver þróun ferðamanna er og þar sýnist sitt hverjum. Ein vinsælasta skýringin er fall WoW flugfélagsins, sem leiða má líkum að sé rétt af einhverju leit. Það má vel vera að einhver hafi rétt fyrir sér. Af hverju vitum við ekki eitthvað um áhrif af falli WoW til skemmri og lengri tíma? Hvað sem því líður er umræðan afskaplega ómarkviss á allan hátt. Að telja ferðamenn á ýmsum stöðum og frá ýmsum stöðum og athuga hvað þeir hafa eytt miklu fé er fremur takmörkuð greining. Minni áhersla er lögð á að kanna eiginleika og afstöðu þeirra sem kjósa að sækja okkur heim. 

Fáir eru að gefa gaum af því að íslenskum ferðamönnum í eigin landi virðist vera að fækka. Þá er skýringin helst gefin sú að við íslendingar viljum ekki vera innan um stóran fjölda erlendra ferðamanna. Þarna er þáttur sem þarf að greina almennilega. Hversvegna er landinn að draga úr ferðum innanlands? 

Ef ég á að gerast eins mann könnun á ferðavenjum íslendinga í eigin landi, þá get ég upplýst að nokkrir þættir hafa áhrif á mínar ferðavenju. Í fyrsta lagi er það gengdarlaus okur á öllu verðlagi sem við innlendir og erlendir ferðamenn verðum fyrir. Hvort um sé að ræða eldsneyti á bíla, kostnaði á tjaldstæðum, kostnaður við veitingar svo eitthvað sé talið. Ég hef ekkert á móti frjálsu verðlagi í sjálfu sér, en það er orðið aðeins of frjálst. Án þess að fara að telja upp lista af vörum og þjónustu sem ferðamenn kaupa, þá held ég að stutt ferð til útlanda gæfi meira verðgildi fyrir peningana.

Í öðru lagi er það blessað veðrið sem hefur áhrif á ferðavenjur mínar. Þar get ég ekki kennt neinum um nema náttúruöflunum, en þeim breytum við ekki. Þó við séum alltaf að reyna með því að bjóða náttúrunni ýmiskonar mengun og sóðaskap. Þá er bara að velja stað til að heimsækja og búast má við þokkalegu veðri. Það er ekki alltaf létt fyrir okkur hjólhýsafólkið að keyra mikið á milli landhluta. Ef við gerum það þá eru tjaldstæðin, sem eru misjafnlega vel skipulögð og rekin, tilbúin að rukka um vænar fjárhæðir fyrir gistingu og fyrir rafmagn. Það væri fróðlegt að sjá hve miklu rafmagni venjulegt hjólhýsi, fellihýsi eða hvað það nú kann að vera, eyðir á sólahring. En verðið á rafmagni er allt að tveimur þúsundum. 

Tjaldstæði eru svolítið sérstök. Þar er hægt að fá ýmsa þjónustu svo sem aðgang að salernum, vatni og góð ráð hjá fullorðnum tjaldvörðum. En oftast er eina þjónustan fólgin í að ungmenni koma og rukka tjaldbúa um stæði fyrir ferðahýsi og rafmagn. Stundum er þetta eina þjónustan sem veitt er. Þá er ekki hægt að panta tjaldstæðin a netinu og gera upp þar. Það er víðast hvar alvarlegur skortur á þjónustu tjaldstæða og framkvæmdir við þau eru oftast í skötu líki. Sveitarfélög hafa þó vel búna sveit rukkara á tjaldstæðum sínum. Gjaldtaka er vel þróað fyrirbæri en oft lítil þjónusta á bak við gjöldin.

Sem áður sagði eru erlendir ferðamenn ekkert fyrir mér. Vera má að erfitt sé að fá bílastæði á vinsælum ferðamannastöðum. En bílastæði eru víða til vandræða. Erlendir ferðamenn eru ekki alltaf á sömu stöðum og innlendir. Til dæmis á tjaldstæðum eru þeir venjulega á afmörkuðum stöðum með kúlutjöldin sín. 

Ég skal viðurkenna að það eru á hinum vanbúnu vegum okkar sem ég passa mig á erlendum ferðamönnum. Að mæta litlum Jaris eða Kúkú car, eða hvað þeir nú kallast vinsælustu ferðabílarnir, á ofsahraða þá verður mér ekki um sel. Hér held ég að framkvæmdavaldið mætti efna fleiri loforð um viðhald og breytingar á þjóðvegum. Löggan gerir sitt besta en alvarlegar afleiðingar ofsaaksturs hafa verið átakanlegar.  

Því er bent á að það mætti greina ferðavenjur innlendra og erlendra ferðamanna mun betur en gert er og haga verðlagi eins og við séum í virkri samkeppni um bæði innlenda og erlenda ferðamann. Þá mætti ræða málefni ferðamanna á breiðum grundvelli. Ekki láta gjaldtöku á hinum ýmsu ferðamannastöðum leiða umræðuna. 

 


Íslenskir ferðamenn í eigin landi – gjaldtaka og annar kostnaður

Fjöldi íslendinga sem ferðast um landið sitt hefur verið að aukast ár frá ári. Fólk hefur verið að kaupa hjólhúsi, fellihýsi og ýmiskonar vagna til að ferðast með. Þetta er í raun ágætis ferðamáti. Fólk keyrir frá einu tjaldstæði til næsta, ferð í gönguferðir, ferðir inn á hálendið eða almennt gera sér ýmislegt til skemmtunar. Akstur um landið kostar mjög mikið í bæði eldsneytiskostnað og uppihald. Þá er stopp á tjaldstæðum ekki ódýrt. Tjaldstæði reyna að hafa ákveðna lágmarksþjónustu á staðnum fyrir alla ferðamenn. Þó má segja að metnaður sveitarfélaga er afar misjafn hvað varðar framboð af þjónustu og kostnað við hana. Það er önnur saga sem mætti segja.

Íslenskir ferðamenn í eigin landi hafa alltaf verið til staðar en til viðbótar höfum við stóran fjölda erlendra ferðamanna sem allir deila hræðilegu vegakerfi landsins. Það er stórhættulegt að keyra um landið á þröngum, meira og minna ónýtum vegum, með  mismundandi góðum bílstjórum. Slysum hefur fjölgað en það hefur í för með sér mikinn kostnað og enn meiri vanlíðan.

Á ferðum okkar verjum við stórum hluta eldsneytiskostnaðar í uppbyggingu vegakerfisins.  Á vefsíður FIB segir „Af um 80 milljarða króna sköttum sem áætlað er að bílar og umferð skili á næsta ári eiga 29 milljarðar að fara til vegaframkvæmda og vegaþjónustu. Rúmlega 50 milljarðar fara í önnur ríkisútgjöld. Fram hefur komið að vegatollar eigi að skila 10 milljörðum króna til viðbótar á ári. Bílaskattar verða þá komnir í 90 milljarða króna.“ Að bjóða ökumönnum almennt uppá að rúmlega 60% af sköttunum sem á að fara í vegaframkvæmdir séu setta í hítina stóru er fremur óhentugt.

Það er því mjög kostnaðarsamt fyrir íslenska ferðamenn á Íslandi að ferðast um landið sitt. Það er stórhættulegt og rán dýrt. Þegar ferðamaðurinn hefur tankað fullan tank af rándýru eldsneyti fer hann í sjoppuna og fær sér hamborgara og kók. Þetta kostar hátt á þriðja þúsund. Hann fer síðan á tjaldstæðið að gera klárt fyrir nóttina og fær þá, í boði viðkomandi sveitarfélags að borga frá 1.500 á mann og frá 1.000 fyrir rafmagn. Stundum eru einkaaðilar með tjaldstæðin en það virðist ekki breyta miklu. Allir borga smá upphæð í gistináttagjald, kostnað við gistingu og rafmagn. Það er því aðeins á færi hinna efnameiri að ferðast um eigið land.

Umræða um gjaldtöku á hinum ýmsu ferðamannastöðum hefur farið hátt. Menn vilja byrja á að setja á gjaldtöku fyrir hina ýmsu þætti ferðaþjónustu en oft hefur ekkert verið gert til þess að réttlæta þessa gjaldtöku. Það er tæplega rétt að rukka fólk fyrir þjónustuna sem ferðamenn næsta árs munu njóta. Ferðaþjónusta virðist gang út á gjaldtöku ekki það að veita þjónustu geng eðlilegu gjaldi. Það er eitthvað verið að gefa vitlaust hérna.

Íslenskir ferðamenn í eignin landi eru orðnir langþreyttir á þessum hörmulegu aðstæðum sem boðið er uppá. Það er dýrt og hættulegt að fara um okkar fallega land. Margir hafa lagt í talsverða fjárfestingu til að geta ferðast um landið, ekki alltaf meðvitaðir um aðstæður og þjónustu.

Líklega er ekki svo vitlaust að selja hjólhýsið og fara bara til Tene, það er líklega talsvert ódýrara, þjónustan byggir á að ferðamaður fái verðgildir fyrir peningana sína og hættan er talsvert minni.


Hveragerðis kappaksturinn

Árlegur kappakstur milli Rauðavatns og Hveragerðis átti sér stað síðastliðið sumar á hverjum degi frá svona 1. maí til 30. september, eins og venjulega. Keppendur voru næstum allir bílar sem áttu leið þarna um. Sérstaka umbun fengu bílar með hverskyns vagna, hjólhýsi eða annað sem hægir á hraða bíla. Veittir eru punktar fyrir framúrakstur, að halda bílum fyrir aftan sig og sem mestan hraðamismun þar sem er ein akrein og tvær eða fleiri akreinar mætast.

Kappaksturinn hefst á rólegu nótunum við hringtorgið hjá Rauðavatni. Smá núningar geta myndast þegar úr hringtorginu er komið þar sem eru tvær akreinar á stuttu bili. En þaðan og að Lögbergs brekku  eru bílstjórar að hugsa um hvaða strategíu þeir eigi að nota á leið uppá og yfir Sandskeið. Um leið og bílar koma á tvær akreinar byrjar hraðaksturinn. Nú þarf að ná í sem besta stöðu áður en akreinum fækkar aftur í eina og hraðinn lækkar niðurfyrir hámarkshraða. Hér gildir að halda öllum fyrir aftan sig og gefa síðan hressilega í og vonast til að vera fyrstur að næstu þrengingu á veginum. Þeir sem á eftir koma út úr einnar akreinar stöðunni þurfa nú að fara enn hraðar en sá sem stjórnaði áður. Þegar kemur að næstu þrengingu gildir að nota hvern þumlung af akreinunum tveimur. Það er hér sem flutningabílar eða bílar með aftanívagna hverskonar, fá flesta punkta. Nái svoleiðis farartæki að komast inn á einnar akreinar þrengingu eru margir punktar í boði.

Hjá Litlu kaffistofunni ná ákafir bílstjórar að komast fram hjá þeim sem réðu ferðinni þegar um eina akrein var að ræða. Á leið upp brekkuna er brennt álíka mikið af gúmmí og af bensíni. Nú ná alvöru bílstjórar aftur tökum á keppninni, en þeir töpuðu punktum á meðan þeir voru í biðröð á einni akrein. En punktarnir eru ekki í að vera í kappakstri þar sem eru tvær akreinar en þar leggja menn línurnar fyrir næstu þrengingu. Í þriðju meiriháttar brekkunni er enn hægt að ná hraða eftir erfiða þrengingu í hrauninu þar á undan. Næsta þrenging er fyrir ofan Skíðaskálann þá gildir að vera með góða staðsetningu því loka hrinan er svo kappaksturinn niður Kambana þar sem tvær mjög víðar akreinar eru alla leiðina niður að þrengingu sem nær að hringtorginu við Hveragerði. Hér gildir að aka eins og sjálfasti Schumacher í misvíðum beygjum. Við þrenginguna neðst í brekkuna þarf að leggja allt undir. Það þarf ekki nema um hálfan meter af akrein til að komast fram úr ef maður fer bara nógu hratt. Þarna ráðast úrslitin því akreinin að hringtorginu í Hveragerði er bara til að hrósa happi eða harma skort á áræði.

Það ber að þakka yfirvöldum vegamála að leggja svona krefjandi kappakstursbraut og hanna hana fyrir allar gerðir bíla. Það er til dæmis hund leiðinlegt að keyra til Keflavíkur á tveimur akreinum alla leið. Þar keyra menn mest á leyfilegum hraða. En á leiðinni til Hveragerðis þarf maður að beita öllum úrræðum sem standa til boða til að keyra misjafnlega hratt, alltaf hægt á einni akrein en eins og andsetinn á tveimur.

Vonandi fara yfirvöld umferðamála ekki að leggja tveggja akreina vegi um allar trissur. Þar væri hættan talsvert minni og akstur minna krefjandi. Það mætti fjölga frekar leiðum með eina og tvær akreinar til skiptis, kannski ef til vill setja einbreiðar brýr hér og þar. Það væri bæði hættulegra og krefðist þess að menn væru mun áræðnari á vegum úti.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband