Stefna í menntamálum fyrir kosningar 2013

Af almennri umræðu um þessar mundir má ráða að áhersla á menntun hefur vaxið. Í kjölfar efnahagshrunsins töpuðust fjölmörg störf en þau störf sem eru að koma til baka eru ekki endilega þau sömu og töpuðust. Þörf er á að líta á menntamál sem langtíma fjárfestingu einstaklinga og samfélagsins sem á að skila sér með arði. Hvort sem sá arður er í formi efnahagslegra gæða, aukinnar þekkingar, menningar og lista eða annarra þátta sem auka velsæld og hagsæld.

 

 Íslendingar eiga nokkuð í land að standa jafnfætis þeim þjóðum sem standa fremst hvað varðar menntun. Þessu þarf að breyta og skal tekið tillit til allra þeirra aðila sem láta sig málið varða. Íslenskt atvinnulíf kallar eftir starfsfólki með tiltekna menntun. Ekki er í öllum tilfellum til fólk sem uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru fram. Þetta er þó misjafnt á milli fræðagreina. Segja má að aðgangur að fólki með félags- og hugvísindamenntun sé nokkuð betri en þeirra sem vinna að tæknimálum og viðfangsefnum sem byggja á menntun í raunvísindum.

 

 Lausnin liggur ekki endilega í að laða fólk í ákveðnar námsgreinar. Einstaklingar eru venjulega löngu búnir að marka sér framtíð áður en þeir standa frammi fyrir vali á námsbraut eða viðfangsefni. Það virkar ekki lofandi að lokka námsmanninn sem ætlar að verða sagnfræðingur inn í verkfræði þegar hann mætir uppí háskóla. Hann er búinn að undirbúa sig um árabil og verður líklegast ekki haggað. Það þarf að bjóða fólki valkosti í menntamálum með löngum fyrirvara. Þetta er ekki fjarri þeim boðskap sem Samtök iðnaðarins nefna í sínum málflutningi um menntamál.

 

 Í stefnu sinni um menntun og menningu tekur Sjálfstæðisflokkurinn fram að sveigjanleiki, fjölbreytni, ábyrgð og valfrelsi þurfi að fá að njóta sín í öllu menntakerfinu. Að nemendur þurfi raunverulegt val um skóla, einkarekinn eða á vegum hins opinbera enda fylgi fjárframlög nemandanum í gegnum öll skólastig. Þá er lagt til að sveitarfélög geti rekið framhaldsskóla enda passar það ágætlega inn í hvernig námsmenn flæða milli skóla. Hér er valfrelsi og gegnsæi í brennidepli enda líklegast til árangurs.

 

 En námsframboð þarf að taka mið af framtíðaþörf atvinnulífsins, hvort sem um er að ræða fyrirtæki landsins eða opinberar stofnanir sem hafa skilgreint hlutverk í efnahagslífi landsmanna. Menntakerfið þarf að sjá fyrirtækjum og stofnunum fyrir þeim starfskröftum sem kallað er eftir innan nokkurra ára. Breytingar á þörf fyrirtækja og stofnana fyrir starfsfólk með rétta færni,ermjög hröð. Því þarf að huga að réttu námsframboði með góðum fyrirvara.

 Það tekur vísast tíu til fimmtán ár að koma málefnum menntamála í mjög gott horf. Því er best að byrja á að endurskipuleggja menntunar og þjálfunarmál hið fyrsta. Það skal vissulega gætt að því að halda í það sem vel er gert nú og stíga varlega til jarðar við endurskoðun á menntakerfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband