Mat á gagnsemi og árangri verkefna sem studd eru með opinberu fé

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt meðal annars eftirfarandi málsgrein sem hluti af áliktunum fjárlaganefndar flokksins:

"Engin útgjöld má samþykkja án greinargerðar um tilgang og markmið og skulu kostnaðargreining og tekjugreining til fimm ára fylgja lagafrumvörpum. Reglulega fari fram óháð mat á gagnsemi, hagkvæmni og árangri af fjárframlögum til viðfangsefna svo sem sjóða og verkefna". (Heimild xd.is)

Ekki er efast um að hið opinbera láti fara fram mat á gagnsemi og árangri verkefna og stofnana sem er á þess vegum. Það fer þá ekki hátt og hefur ekki svo mig reki minni til, orðið að stórum ágreiningsmálum hvort opinber verkefni eða stofnanir mættu bæta rekstur sinn, bæta árangur og sníða af óþarfa fitu.

Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar nánast öll svið þjónustu við þjóðina, hvort það eru samgöngur, heilbrigðismál, málefni eldri borgara, menntamál, eða hvað það nú kann að vera, virðist vera svelt með rekstrarfé. Það er ekki létt að stækka fjárlögin til skamms tíma nema með sköttum, sem er ekki sérlega geðfelld leið. Oft er farið í að „hagræða“ sem sé að segja upp starfsfólki á gólfinu sem venjulega er að vinna á fremur lágum launum að láta viðkomandi opinbert verkefni eða stofnun sinna lögbundnum skildum sínum.

Spurning er hvort ekki sé hægt að finna „fituna“ á opinberum stofnunum einhversstaðar annarsstaðar innan þeirra. Nú virðast opinberir stjórnendur vera farnir að fá ofurlaun eins og félagar þeirra í einkageiranum. Þeir bera vísast svo mikla ábyrgð eins og sagt er. En eru hugsanlega of margir stjórnendur á feitum launum við störf í opinberum stofnunum og við önnur opinber verkefni? Ef svo er hver er árangur af starfi þeirra? Er hægt að fækka dýrum stjórnendum og hagræða á þann hátt. Er að minnsta kosti hægt að færa inn í almenna, opinbera og gagnsæja stjórnsýslu mat á rekstri og árangri svona stofnana.

Hér er ekki verið að fullyrða að opinberar stofnanir sem reknar eru með fé skattborgarana séu fullar af fitu eða að það sé nokkur auka fita í þeim til að skera af. Vísast eru stjórnendur þeirra allir að vilja gerðir að gera vel og vinna innan sinna fjárheimilda.  En ef.....

Á meðan viðfangsefni hins opinbera eru fjársvelt mætti leita leiða til að bæta rekstur og vonandi árangur í leiðinni. Forstöðumenn ættu að þurfa að gera grein fyrir því hversvegna hinir ýmsu kostnaðarliðir, þar með talinn launakostnaður þeirra sjálfra, er nauðsynlegur fyrir land og þjóð.

Vitað er að ýmsar ágætar stofnanir samfélagsins hafa það hlutverk að fylgjast með rekstri opinberra stofnana og koma með athugasemdir ef má gera betur. Spurning er hvort stofnanir á borð við Ríkisendurskoðun geti lagt mat á rekstur og árangur allra stofnana og verkefna í landinu og séð til þess að ekki sé nein auka fita á þeim.  

Betra væri að bjóða út óháð mat á þessum stofnunum og verkefnum í anda samþykktar þess flokks sem fer með opinber fjármála landsmanna, þannig að skattborgararnir fái fullvissu um það að sú þjónusta sem þeim er veitt í formi menntunar, heilbrigðismála og annarra mikilvægra mála, sé ekki um leið aukabúgrein einhverra sem eru að hagnast á kerfinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband