Vísindagangan

Það var gaman að sjá fjöldann sem tók þátt í vísindagöngunni, ekki minnst á tímum þegar vísindin eru sniðgengin eins og má sjá vestan hafs. Þar ríkir „mér finnst“ viðhorfin sem aldrei fyrr. Þetta sést mjög vel á viðhorfi til umhverfis og heilbrigðismála. En sennilega eru svo kölluð „alternative truth“ ekki það besta sem hefur komið fyrir vísindin.

Það er sjaldgæft að hópur vísindamanna sýni þá samstöðu sem þarna var þar sem fjöldi vísindamanna um allan heim, gekk vísindagöngu til stuðnings þessari mikilvægu starfsemi. Það eru mörg málefni sem brenna á vísindafólki þessa dagana en hægt er að sjá nokkur af þeim viðfangsefnum sem þeim er bent á að sinna á þessari vefsíðu.  https://satellites.marchforscience.com/

Ein af leiðbeiningunum sem þarna er að finna er „reyndu að kynnast því hvernig stefnumótun vísinda gengur fyrir sig“. En meðal þess er bent á er að samskipti vísinda og stjórnvalda skipti verulegu máli. Það hjálpar svo sem ekki að hvorugur hópurinn skilur hinn en það er annað mál. En oft er þó skilning að finna á vísindum meðal opinberra aðila. Hér á landi eru fjöldi vísindamanna sem eru í fremstu röð í sínum fræðum aðilar að Vísinda- og tækniráði. En það er hópur sem ætti að tengja saman vísindi og stefnumótun og framkvæmd stefnu. Maður verður hugsi yfir því að hópur fólks með þekkingu á vísindum og situr í skjóli stjórnvalda í slíku ráði hafi ekki áhuga eða getu til þess að vinna að stefnumótun. Nú þegar líður að miðju ársins 2017 fær hinn óinnvígði aðeins að sjá Stefnu og aðgerðaáætlun 2014 til 2016 en það geta verið ótal skýringar á því hvers vegna engin stefna hefur verið gefin út fyrir yfirstandandi tímabil. Sennilega er þó engin þessara skýringa marktæk, en það eru engin stjarnvísindi að skrifa stefnupappír.

En vísindastefna hér á landi er „mér finnst“ stefna. Stjórnvöld hafa litla hugmynd um útá hvað vísindin ganga, hvað þá hvaða forsendum þau lúta og þær þarfir sem þau hafa. Þetta veit vísindafólkið enda hefur það sannað sig að þrátt fyrir stefnu (leysi) stjórnvalda í vísindamálum eru íslenskir vísindamenn oft í fremstu röð í sínum greinum. Það eru til nokkur tæki, ekki þó mjög mörg eða góð, til að sá árangur íslenskra vísindamanna í gegnum tíðina. Nægir hér að nefna að íslenskir vísindamenn hafa birt ritrýndar vísindagreinar í miklu magni og má sjá gæði þessara greina með háu hlutfalli tilvitnana í þær. Það er ekki nóg að skrifa fjölda greina ef enginn tileinkar sér innihald þeirra sem sést til dæmis með að vitna í þær. En íslenskir vísindamenn eru öðrum fremri í að vinna með vísindamönnum annarra landa. Þetta hefur líka verið mælt, en vitanlega bara af erlendum sérfræðingum. „Okkur finnst“ ekki mikil þörf á að mæla svona. Við-vitum-þetta-allt. Reyndar er Hagstofan að mæla aðföng til vísinda sem ekki skal vanmetið, nema hvað að Hagstofan mælir bara hvað er undir ljósastaurnum. Þetta er vísast vegna þess að Hagstofan er mjög góð í að mæla hluti, en bara hluti sem hún skilur.

Þá hafa íslenskir vísindamenn, sjálfir án afskipta stjórnvalda, landað fjölda erlendra rannsóknastyrkja, svo að eftir því er tekið. Þá er sókn í innlenda styrki líka nokkuð mikil. Það eina sem stjórnvöld hafa heyrt þegar vísindamenn tala er „meiri pening“ og þar hafa stjórnvöld raunar staðið rausnarlega við bakið á vísindum á Íslandi. Sjóðir sem styrkja vísindi, tækni og nýsköpun hafa vaxið með ári hverju um langa hríð. Aukningin er mikil á milli ára. Þetta hrósa stjórnvöld sér af við hátíðleg tækifæri og gleðjast yfir framsýni sinni. En íslensk stjórnvöld hafa raunar verið meðal þeirra sem leggja hvað mest til vísindastarfa í hinum vestræna heimi. En ekki með samkeppni um peninga, heldur beinum framlögum til stofnana. Það er síðan stofnanna að skipta fé á milli vísinda og rekstrar. Þetta virkar ekki sérlega skilvirk aðferð en afar þægileg. Nú er raunar skorið verulega í þetta framlag og mun það eflaust leiða til minni virkni vísinda. Það er ekki eins og stofnanir séu teknar út og lagt mat á starfsemi þeirra til að sjá hvar megi skera af, nei það er er best að nota ostaskerann í svona niðurskurð.

Margar þjóðir tengja saman vísindastarf og stefnu viðkomandi ríkisstjórna. Þannig eru veittir styrkir til vísindamanna og hópa um verkefni á þeim sviðum sem viðkomandi lönd eru að leggja áherslu á. Vitanlega eru ýmsar aðrar leiðir sem notaðar eru en að leysa mál þeirrar þjóðar sem styrkir vísindi ætti ekki að vera annað en jákvætt. Er þá ekki verið að atast í margumtöluðu frelsi vísindanna. Þetta gera íslensk stjórnvöld ekki. Þau auglýsa bara eftir verkefnum, einhverjum verkefnum. Það getur verið að á skorti skilvirkni í slíkum aðferðum hjá litlum löndum. 

En nú er göngunni lokið og er því spurt: „hvað svo“. Kannski að komist á samtal milli stjórnvalda og vísinda. Eða ættum við kannski bara að láta Ævar og Villa vísindamenn sjá um að tengja vísindin við alla hina, en þeir eru þeir einu sem hafa gert eitthvað í því af viti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband