Færsluflokkur: Bílar og akstur
Hveragerðis kappaksturinn
13.10.2017 | 09:17
Árlegur kappakstur milli Rauðavatns og Hveragerðis átti sér stað síðastliðið sumar á hverjum degi frá svona 1. maí til 30. september, eins og venjulega. Keppendur voru næstum allir bílar sem áttu leið þarna um. Sérstaka umbun fengu bílar með hverskyns vagna, hjólhýsi eða annað sem hægir á hraða bíla. Veittir eru punktar fyrir framúrakstur, að halda bílum fyrir aftan sig og sem mestan hraðamismun þar sem er ein akrein og tvær eða fleiri akreinar mætast.
Kappaksturinn hefst á rólegu nótunum við hringtorgið hjá Rauðavatni. Smá núningar geta myndast þegar úr hringtorginu er komið þar sem eru tvær akreinar á stuttu bili. En þaðan og að Lögbergs brekku eru bílstjórar að hugsa um hvaða strategíu þeir eigi að nota á leið uppá og yfir Sandskeið. Um leið og bílar koma á tvær akreinar byrjar hraðaksturinn. Nú þarf að ná í sem besta stöðu áður en akreinum fækkar aftur í eina og hraðinn lækkar niðurfyrir hámarkshraða. Hér gildir að halda öllum fyrir aftan sig og gefa síðan hressilega í og vonast til að vera fyrstur að næstu þrengingu á veginum. Þeir sem á eftir koma út úr einnar akreinar stöðunni þurfa nú að fara enn hraðar en sá sem stjórnaði áður. Þegar kemur að næstu þrengingu gildir að nota hvern þumlung af akreinunum tveimur. Það er hér sem flutningabílar eða bílar með aftanívagna hverskonar, fá flesta punkta. Nái svoleiðis farartæki að komast inn á einnar akreinar þrengingu eru margir punktar í boði.
Hjá Litlu kaffistofunni ná ákafir bílstjórar að komast fram hjá þeim sem réðu ferðinni þegar um eina akrein var að ræða. Á leið upp brekkuna er brennt álíka mikið af gúmmí og af bensíni. Nú ná alvöru bílstjórar aftur tökum á keppninni, en þeir töpuðu punktum á meðan þeir voru í biðröð á einni akrein. En punktarnir eru ekki í að vera í kappakstri þar sem eru tvær akreinar en þar leggja menn línurnar fyrir næstu þrengingu. Í þriðju meiriháttar brekkunni er enn hægt að ná hraða eftir erfiða þrengingu í hrauninu þar á undan. Næsta þrenging er fyrir ofan Skíðaskálann þá gildir að vera með góða staðsetningu því loka hrinan er svo kappaksturinn niður Kambana þar sem tvær mjög víðar akreinar eru alla leiðina niður að þrengingu sem nær að hringtorginu við Hveragerði. Hér gildir að aka eins og sjálfasti Schumacher í misvíðum beygjum. Við þrenginguna neðst í brekkuna þarf að leggja allt undir. Það þarf ekki nema um hálfan meter af akrein til að komast fram úr ef maður fer bara nógu hratt. Þarna ráðast úrslitin því akreinin að hringtorginu í Hveragerði er bara til að hrósa happi eða harma skort á áræði.
Það ber að þakka yfirvöldum vegamála að leggja svona krefjandi kappakstursbraut og hanna hana fyrir allar gerðir bíla. Það er til dæmis hund leiðinlegt að keyra til Keflavíkur á tveimur akreinum alla leið. Þar keyra menn mest á leyfilegum hraða. En á leiðinni til Hveragerðis þarf maður að beita öllum úrræðum sem standa til boða til að keyra misjafnlega hratt, alltaf hægt á einni akrein en eins og andsetinn á tveimur.
Vonandi fara yfirvöld umferðamála ekki að leggja tveggja akreina vegi um allar trissur. Þar væri hættan talsvert minni og akstur minna krefjandi. Það mætti fjölga frekar leiðum með eina og tvær akreinar til skiptis, kannski ef til vill setja einbreiðar brýr hér og þar. Það væri bæði hættulegra og krefðist þess að menn væru mun áræðnari á vegum úti.