Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

Höfum við efni á að reka samfélagið?

Það er ávallt gaman að hlusta á þá félaga á bítinu á Bylgjunni ekki minnst þegar Gissur slæst í hópinn. Venjulega er þetta á léttu nótunum hjá þeim. Þó koma stundum upp mál sem maður verður hugsi yfir. Þeir veltu upp spurningunni, í morgun 22. janúar, um það hvort við höfum við efni á að reka vestrænt samfélag, það virðist allt vera í uppnámi, stofnanir sveltar og hópar í samfélaginu í ýmiskonar klemmu. Á meðan hafa aðrir hópar komið sér vel fyrir þétt upp við kjötkatlana.

Það virðist nokkuð ljóst að strúktúr efnahagslífsins hefur breyst verulega á síðari árum. Landið sýnir afar jákvæða útkomu í öllum hagmælingum, sem við á annað borð nennum að taka þátt í. Á hinn bóginn getum við tæplega rekið heilbrigðisþjónustu og hvað þá séð um eldri borgarana okkar á mannsæmandi hátt.

Líklega hafa flestir séð að þessu tvö mál sem við nefnum eru mál sem hlaupa ekkert frá okkur. Okkur fjölgar bæði með fjölgun fæðinga og síðan kemur til aukinn fjöldi nýbúa. Það er í sjálfu sér öfundsverð staða þegar aðrar vestrænar þjóðir standa frammi fyrir fækkun fólks, eða að minnsta kosti afar hægri fjölgun.

Í þessu samfélagi koma æ alvarlegri raddir úr heilbrigðisgeiranum um að það kerfi sé komið að þolmörkum. En einhvernvegin gerist ekkert. Tækjabúnaður spítalana er að miklu leiti til kominn vegna fólks og samtaka sem safna fé fyrir þessum tækjum og gefa þau spítölunum.

Það hefur oft verið bent á það að íbúar landsins séu að eldast. Þeir verða vísast flestir hraustari og við betri heilsu en áður þó hefur verið bent á að heilbrigðiskerfið og öldrunarþjónustan þurfi að bregðast við þessari þróun. Pólitíkin er greinilega ekki mikið að fást við þessi mál, það eru önnur viðráðanlegri mál sem eiga hug þeirra. Fjörug umræða á sér síðan stað þar sem hver hæstvirt höndin er uppá móti annarri. Það má velta því fyrir sér hvort nokkur gengisfelling hafir verið stærri en sú sem hefur átt sér stað á hugtakinu hæstvirtur. Áður var það tákn um gagnkvæma virðingu á meðan nú virðist meiningin vera þveröfug.

En spurningin hvort við höfum efni á að reka þetta land er auðvitað mikið mikilvægari en allt annað. Vonandi fer af stað umræða um hana og tillögur um hvað sé til bragðs að taka. Við erum afar lítil þjóð með allar stofnanir sem er að finna hjá frjálsri og fullvalda þjóð. Sem betur fer erum við þó ekki með her sem við þurfum að greiða kostnað við. En hagkvæmin stærðar er líklega hlutur sem við munum aldrei kynnast. Til dæmi erum við með einn forseta að hverju sinni. Kostnaður við hann er eflaust viðráðanlegur. En hlutfallseiga ættu t.d. Bandaríkin að vera með eitt þúsund forseta. Til að halda áfram þessum samanburði ætti þeir að hafa 60 þúsund þingmenn og um 10 þúsund ráðherra. Ættum við kannski að átta okkur á þessu með smæðina og fara varlega í að byggja minnisvarða um ástkæra stjórnmálamenn og aðra velunnara þjóðarinnar. Ekki skal hér lagt til að gera ekkert, við erum í mörgu nokkuð dugleg. Við eigum duglegt íþróttafólk, sérfræðinga ýmsum sviðum, fræðimenn og margt fleira. Endilega gerum öllu þessu hæfileikafólki mögulegt að stunda sín störf og áhugamál.

Það væri áhugavert ef fleiri tækju undir spurningu þeirra félaga í Bítinu á Bylgjunni og leituðu svara við því hvort við höfum efni á að reka samfélagið okkar svo að allir þegnar landsins, ungir og gamlir, njóti virðingar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband