Aukin færni til nýsköpunar eykur hagvöxt
6.9.2013 | 10:19
"Nýsköpunarfyrirtæki verða að hafa aðgang að einstaklingum með færni til að stunda nýsköpun en hagvöxtur og samkeppni byggjast á nýsköpunargetu þeirra."
Það þarf að marka stefnu um það efnahagskerfi og atvinnulíf sem landsmenn vilja búa við. Hvort við viljum hálauna eða láglauna samfélag. Þetta kallar á forgangsröðun á áherslum í atvinnulífinu þar sem verðmætasköpun ætti ætíð að vera í brennidepli. Þó má geta þess að ómögulegt er að segja fyrir um hverskonar fyrirtæki muni vaxa í framtíðinni. Heildarsýn á málefni nýsköpunar í fyrirtækjum er mikilvæg fremur en þröngar lausnir sem jafnan eru til skamms tíma og oft ómarkvissar.
Færni til nýsköpunar er flókið fyrirbæri en menntun ein og sér nægir ekki til að skilgreina hugtakið nægilega. Færni er þróuð af starfsfólki við það að leysa tæknileg og framleiðslutengd vandamál sem hvetur það til að prófa, framleiða og markaðssetja nýjar framleiðsluafurðir og ferla. Að þróa færni byggist ekki aðeins á gæðum þeirrar menntunar sem einstaklingur býr yfir heldur einnig á besta skipulagi vinnuumhverfis svo sem varðandi frumkvöðlamenningu, markvissri sí- og endurmenntun ásamt jákvæðni í garð nýsköpunar. Það skiptir máli að byggja upp reynslu á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Án reynslu, sem er annar mikilvægur þáttur í færni, er erfitt að byggja upp fyrirtæki og atvinnugreinar.
Mikið rót komst á atvinnu- og efnahagslíf landsmanna við efnahagshrunið. Stór fjöldi fólks varð án atvinnu og eftirspurn eftir hverskonar fjárfestingar- og neysluafurðum minnkaði. Atvinnuleysi er enn meira en það var fyrir hrun og fjöldi fyrirtækja stendur frammi fyrir endurskipulagningu. Ný störf hafa skapast á undanförnum árum þar sem kallað er á aukna færni og þekkingu. Þá hafa verið gerðar kannanir á þörf fyrirtækja fyrir starfsfólk og hvernig mæta eigi þeirri þörf. Niðurstaðan er venjulega sú að atvinnulífið gerir kröfu um aukna færni fólks á mörgum sviðum, ekki síst færni til nýsköpunar.
Til að mæta færniþörfum atvinnulífsins fyrir nýsköpun þurfa allir sem málið varðar að leggjast á eitt til að koma skilyrðum til atvinnurekstrar í gott horf og skal þá miðað við það besta sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það er ein mikilvæg forsenda þess að atvinnulífið geti skapað þau verðmæti sem liggja til grundvallar nauðsynlegum hagvexti í landinu. Til að skapa þessi verðmæti þurfa fyrirtækin aðgang að fjármagni, jákvæðu umhverfi og réttum mannauði. Tryggja verður að á komandi árum verði hér fjöldi vel menntaðra og þjálfaðra einstaklinga með færni sem þörf er á til að efla þekkingarfyrirtæki og atvinnulífið í heild.
Umræðan um framtíðarþörf fyrirtækja fyrir færni er orðin sýnileg en þó vantar að skilgreina betur hvað felst í hugtakinu og í hvaða samhengi það er sett. Einstaklingur sem hyggst leggja fyrir sig háskólanám á sviði tækni eða raungreina er líklegur til að undirbúa það nám með vali á námsgreinum strax í framhaldsskóla. Með þessu er átt við að erfitt er að beina fólki á vissar námsbrautir og breyta áherslum í námi á skömmum tíma. Ljóst er að ætli stjórnvöld og atvinnulíf að leggja til áherslur í námsvali tekur það mjög langan tíma. Skammtímalausnir í námsframboði eru ekki líklegar til að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir fólk með færni til nýsköpunar. Því má fagna starfi aðila eins og Samtaka iðnaðarins um eflingu menntunar á fyrri stigum og samstarfi samtakanna við menntakerfið um að auka aðgang að færni til lengri tíma litið.
Þá má ekki gleyma því að menntun og færniþróun getur ekki farið eingöngu fram í skólakerfinu. Margt annað kemur þar til greina. Hér hafa fyrirtækin hlutverki að gegna. Vita má að færniþróun varðandi nýsköpun í atvinnulífi landsmanna er einnig afar mikilvæg úr sjónarhorni samkeppni.
Þar sem helsta markmið atvinnulífsins er að skapa verðmæti er það varla viðunandi staða að nýta ekki þá starfskrafta sem til eru í landinu. Þörf er á að gera fólki kleift að stofna fyrirtæki og að þau hafi aðgang að færum starfsmönnum. Gera þarf frumkvöðlafyrirtækjum kleift að vaxa hraðar en dæmi eru til um hér. Upplýsingar frá greiningaraðilum segja að 6 frumkvöðlafyrirtæki sem höfðu vaxið hvað hraðast árin fyrir og í byrjun efnahagshrunsins hafi skapað um 130 ný störf frá árinu 2006 til 2009. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Nýsköpunarmiðstöð Norðurlanda gaf út í janúar síðastliðnum. Það gefur til kynna þá gagnsemi sem ný fyrirtæki sem byggjast á þekkingu hafa fyrir atvinnulífið. Einnig er mikilvægt að stoðkerfi nýsköpunar fái að víkka áherslur sínar frá stuðningi við hugmyndastig fyrirtækis þannig að það nái til þess tíma sem fyrirtækið fari að vaxa og dafna og festa sig í sessi á markaði. Ný frumkvöðlafyrirtæki skipta mjög miklu fyrir hagvöxt en nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er líklegust til að skila meiri árangri til lengri og skemmri tíma.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1456122/?item_num=1&searchid=9476388cc79e0b77beb0b1e0395b1c33951adb10
Flokkur: Rannsóknir og nýsköpun | Breytt 18.12.2015 kl. 08:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.