Hvað vill Seðlabankinn með kólnun hagkerfisins?
8.10.2025 | 16:08
Seðlabankinn hefur enn ákveðið að lækka ekki vexti. Allt á leið í rétta átt og eitthvað er hagkerfið að kólna. Maður spyr sig hvort það sé óska staða að hagvöxtur sé lítill eða enginn? Hagvöxtur í fyrra var um hálft prósent, sem varla getur talist mikið. Árið áður var hann rúm 4 prósent. Á fyrsta ársfjórðungi 2025 var hagvöxtur rúm tvö og hálft prósent en á öðrum ársfjórðungi var samdráttur tæp 2 prósent. Hver er eiginlega óska hagvöxtur að mati Seðlabanka? En til að atvinnulíf geti greitt hærri laun til almennings þarf hagvöxt til að standa straum af því.
Það eru fleiri þættir sem varða kólnun hagkerfisins til viðbótar við minnkun hagvaxtar. Dæmi um það er neysla almennings, fjárfestingu fyrirtækja og atvinnuleysi til að nefna nokkra mikilvæga þætti. Þetta á að leiða til lækkunar á verðbólgu. Þetta hefur bara ekki gengið. Í gangi er störukeppni opinberra- og einkaaðila við Seðlabankann. Hinir fyrrnefndu eru að keppast við að halda verðlagi háu og launum sömuleiðis. Við, almenningur í landinu, erum sem sé peð í þessari störukeppni og borgum brúsann af alt of háu verðlagi, vöxtum og launum. Máttlaus stjórnöld sitja aðgerðarlaus hjá og vísa á að Seðlabanki hafi það hlutverk að halda verðbólgu í skefjum. Þvílík ólukkans þolinmæði sem stjórnvöld hafa. Þau hafa það hlutverk að móta stefnu í efnahagsmálum og geta með áhrifum sínum breytt hlutverki seðlabanka. Þau hafa ekki einu sinni getu til að hafa hemil á ofurlaunastefnu stærri stofnana og jafnvel í einkageiranum. Þessi ofurlaunastefna hefur leitt til þess að Ísland er í öðru sæti hvað varðar upphæð launa, í Evrópu. Svo virðist sem stjórnendur stofnana og fyrirtækja eigi ekki alltaf skilið þessi ofurlaun, en það má auðvitað ekki hrófla við þeim. Vitað er að hagsmunahópar vaða uppi með áhugamál sín, sem ekki alltaf eru til hagsbóta fyrir almenning. Stjórnvöld geta lítið við ráðið. Ekki getur almenningur treyst á áhrif stjórnarandstöðu, sem nýtur lítils trausts almennings. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á að baki afskaplega illa heppnuð kynslóðaskipti, sem þarf líklega langan tíma til að vefja ofan af. Litli flokkurinn stendur frammi fyrir kynslóðaskiptum sem lofa ekki góðu, enda ekki víst að þurfi að hafa áhyggjur af honum eftir næstu kosningar. Flokkurinn í miðið er líklega bara til skemmtunar.
Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðu um aðildarviðræður um ESB. Hvort sem fólk er með eða á móti. Heimóttalegar umræður andstæðinga, sem oft sjá ekki í gegnum áhugamál hagsmunahópa eru stundum afar furðulegar og vísa í afturhvarf til gamalla tíma. Á meðan eru ESB sinnar stundum svo vissir um að aðild leysi öll mál að fólk slær sér á lær. Það hefur ekki verið lenska hér að ræða mál af yfirvegun heldur frekar í stríðsfréttastíl. Ekki eru margir á því að þessi umræða verði sérlega vönduð.
Það væri óskandi að þessi stjórnvöld sem almenningur er svona hrifinn af samkvæmt könnunum, taki á honum stóra sínum og fari að sinna efnahagsmálum að einhverju viti. Það er hægt að gera margt annað á því sviði en skera bara niður í heilbrigðis og menntamálum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning