Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Það er ánægjulegt að sjá svo mikið af fólki hér í kvöld, en það segir mér að áhugi á prófkjörinu sé mikill. Við höfum séð dræma þátttöku í prófkjörum síðustu daga bæði í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem þátttakan var um þriðjungur. Við skulum vona að það verði ekki raunin hjá okkur.
Það skiptir miklu máli fyrir íbúa bæjarins að hafa áhrif á hvaða einstaklingar sjái um stjórnun bæjarmála á næsta kjörtímabili. Í prófkjörinu nú eru 12 einstaklingar 7 karlar og 5 konur og eftir að hafa kynnt mér áhugamál og áherslur meðframbjóðenda minna og málflutning þeirra hér í kvöld er það nokkuð ljóst að valið getur bara tekist vel.
Frambjóðendur hafa greinilega notað stutta kosningabaráttu vel og lagt metnað í kynningarmál. Við sjáum þó greinilega að kostnaði við prófkjörsbaráttuna hefur verið stillt í hóf, enda tímanna tákn að fara varlega með fé.
Ástæðan fyrir því að ég bíð mig fram í þessu prófkjöri er einlægur vilji til að takast á við þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir í dag. Efnahagsmálin varða okkur öll hafa tekið mjög miklum breytingum þannig að mikið og samstillt átak allra þarf að koma til. Þau mál sem eru til úrlausnar kalla á þátttöku allra, ekki bara örfárra manna og kvenna eins og landstjórnin er að reyna. Það er líka mikilvægt að fólk tali sama yfir flokkslínurnar eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt ítrekað á síðust dögum. En það þurfa auðvitað allir að vera á sama máli.
Ég hef í tvígang gert grein fyrir því hjá OECD hvað á okkur hefur dunið og tekið svo þátt í umræðum þar á bæ um hvernig atvinnulífið geti tekið sem best á við sífellt erfiðara rekstrarumhverfi með því að auka áherslu á rannsóknir og nýsköpun. En OECD hefur unnið mikið að málefnum efnahagsörðuleika í hruninu meðal aðildarlanda sinna.
Fyrst og fremst þurfum við að huga að fólkinu hvernig því gengur og bregðast við því sem á bjátar. Garðabær þarf síðan að huga að atvinnuuppbyggingu sem tekur mið af skipulagi og umhverfi bæjarins. Eðlilegt er að vinna að uppbyggingu á og aðkomu fyrirtækja að einskonar nýsköpunarþorpi hér í bænum. Í Svíþjóð eru nokkur slík þorp til dæmis í Íslendingabænum Lundi í suður Svíþjóð þar sem háskólar og þekkingarfyrirtæki reka nýsköpunarþorpið Ideon.
Slík atvinnuþróun kallar á aðkomu sveitarfélagsins við að koma á hentugu umhverfi þar sem þörfum einstakra fyrirtækja og stofnana er þjónað. Með þessu móti er hægt að koma á öflugri atvinnustarfsemi sem er í góðri sátt við íbúa í bænum. Þar með má koma á sjálfbærri íbúaþróun og stöðugleika við góð skilyrði.
Þessháttar atvinnuþróun er svo sem ekki alveg ný á nálinni. Þegar kraginn kringum Kaupmannahöfn var í uppbyggingu var hugað sérstaklega að sérstöðu bæjanna í þessum kraga. Þessir kragabæir, hvor sem þeir hétu Tostrup eða Lyngby og fleiri bæir eru raunar kallaðir Fingur Kaupmanahafnar hafa mjög sterka atvinnuþróunarstefnu sem miðar að því að fyrirtæki, skólar og íbúar séu í góðu jafnvægi og stuðli að iðandi mannlífi. Hér getum við lært eitt og annað.
Önnur áhugamál sem ég hef kynnt í þessari prófkjörsbaráttu eru skilvirk stjórnsýsla, ákvarðanataka bæjarbúa í mikilvægum málum og öryggi bæjarbúa.
Með skilvirkri stjórnsýslu á ég við að bærinn vinni opið að málefnum íbúana og hafi að leiðarljósi sparnað, markmið og vandvirkni. Garðabær er í fremstu röð hvað varðar góðan rekstur. Það þarf að leggja áherslu á að gera enn betur. Ekki má þó hvika frá þeirri grunnþjónustu sem bærinn veitir hvort sem um er að ræða unga eða aldna bæjarbúa. Það má geta þess að vefur bæjarins er umtalaður sem góð upplýsingaveita.
Ákvarðanataka bæjarbúa í mikilvægum málum, er svo sem snarlíkt því sem nokkrir aðrir frambjóðendur hafa í kvöld kallað Íbúa lýðræði". Ég er svolítið var um mig hvað varðar það hugtak, en hugmyndin að baki því er góð. En á því sviði er Garðabær einnig í fremstu röð með því að vinna nú að stefnumótun á því sviði. Það er ekki stefnan sem ég hef áhyggjur af heldur framkvæmd hennar. Það vill stundum bregða við að skekkja læðist inn í þær skoðanir sem koma frá íbúum ef ekki er vandað sérstaklega til mála. Hér hef ég bæði áhuga og reynslu til að koma að málum.
Öryggi bæjarbúa er málefni sem mér er sérstaklega hugleikið. Hvort sem um er að ræða umferðarmál, löggæslumál, heilbrigðismál eða hvað það nú er sem getur leikið okkur grátt. Hér þurfa bæjarbúar og yfirvöld í bænum að vinna saman að því að gera bæinn þann öruggasta sem til er. Gott samstarf getur leyst mörg vandamál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2015 kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)