Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Samfélagslegar áskoranir minna í umræðunni hér en í Evrópu.

Þegar rætt er um Samfélagslegar áskoranir (Grand Societal Challenges) er jafnan verið að vísa til þeirra vandamála sem mannkynið mun mæta í framtíðinni eða eru jafnvel komin á dagskrá fólks nú þegar. Þessar áskoranir varða mál svo sem heilbrigðismál, matvælaöryggi, orkumál, samskipti og flutninga, loftslagsmál, samfélagið og öryggi þegnanna. Þessi upptalning er svo sem þekkt en ef skoðaðar eru þær forsendur sem liggja að baki hverrar um sig sjáum við að víða þarf að taka til hendinni.

Nýlega er afstaðin umfangsmesta loftslagsráðstefna sem nokkurn tímann hefur átt sér stað, í París. Talið er að vel hafi gengið að fá þjóðir heims til að sjá og vilja takast á við þann vanda sem augljós er í loftslagsmálum. Ekki voru allir sammála um ágæti niðurstaðna ráðstefnunnar enda ljóst að ef bregðast á við af fullum krafti kæmi það niður á lífsgæðum fólks eins og þau eru metin, að minnsta kosti til skamms tíma. Ég held ekki að það sé með vilja að ráðamenn landa heimsins séu að fresta lausn þeirra Samfélagslegu áskorana sem standa fyrir dyrum, þangað til börnin okkar og barnabörn fara að stjórna.

Þá eru málefni aldraðra í umræðunni þessa dagana í tengslum við birtingu fjárlaga fyrir árið 2016. Sú umræða er enn líklega á fremur lágum loga. En þrátt fyrir ágætis framreikninga Hagstofunnar virðist ráðamönnum ekki ljóst að eftir nokkur ár verður aldursuppbygging samfélagsins talsvert breytt frá því sem var. Það kemur okkur sjálfsagt öllum á óvart eftir nokkur ár að mjög stór hluti þjóðarinnar er kominn á eftirlaun og einungis lítill hluti er að skapa verðmæti fyrir samfélagið svo það geti þróast og dafnað þannig að íbúar landsins finnist þeir búa við öryggi og lífsgæði. Andstætt þeim þjóðum sem huga vel að málefnum aldraðra, virðist svo að við getum bara ekki hugsað til langs tíma, alveg örugglega ekki fram yfir næstu kosningar.  Spurning hvort það sé besta leiðin að binda aldrað fólk í fátækragildru sem er svo vel girt af að fólk á ekki séns. Málið er að ef það er rétt að eldra fólk sé þrátt fyrir allt að verða hraustara með hverju ár þá ætti að leyfa því að taka þátt í verðmætasköpun velsældar samfélagsins. Þetta má gera til dæmis með því að aflétta tekjutenginu á þennan hóp.

Orkumál hafa einnig verið töluvert í umræðunni hér en Ísland býr að mjög mikilli hreinni og endurnýjanlegri orku. Talið hefur verið hagkvæmt að breyta  þessari orku í létta málma sem hafa skapað verðmæti hér á landi, að minnsta kosti á meðan verðmæti þeirra er gott. Nú lækkar verið á málminum og um leið á rafmagninu. Spurning er hvort þetta sé þróun sem heldur áfram til langs tíma. Það væri ekki hagkvæmt, að minnsta kosti ekki á meðan við erum að byggja fleiri verksmiðjur til að framleiða þessa málma. Spurning er hvort við ættum bara að leggja slöngu til Bretlands og dæla orkunni þangað. Menn eru ekki á eitt sáttir og skal ekkert sagt um það hér hvort þetta sé góð leið. Hér þarf einnig að hugsa til langs tíma um það hvort eftirspurn eftir hreinni endurnýjanlegri orku fari vaxandi í kjölfar umræðu um loftslagsmál.

Langtímahugsun í þeim málum sem varða Samfélagslegar áskoranir er mikilvæg. Ákvörðun í dag hefur vísast áhrif eftir mörg ár. Þess vegna hafa þjóðir heims sett af stað rannsókna og þróunar áætlanir til að takast á við þær.  Evrópusambandið hefur gert þessum málum góð skil í rannsóknasjóðum sem kallast nú Horizon 2020. Það er nokkuð samdóma álit að engin ein þjóð eða lítill fjöldi þjóða hafi burði til að takast á við þær Samfélagslegu áskoranir sem að okkur steðja, einar og sér. Því þurfa þjóðir heims að taka sig saman og vinna að því að takast á við þessar áskoranir áður en ástandið versnar meira og meira. Það sjást ekki mörg merki um að hér á landi að þessar áskoranir séu framarlega á viðfangsefna listanum. En það mun koma að því fyrr eða síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband