Bloggfærslur mánaðarins, september 2015
Ritrýndar vísindagreinar gefa mynd af virkni vísindastarfs.
18.9.2015 | 09:17
Norrænir sérfræðingar í málefnum vísinda hafa á síðustu árum gefið út fjórar skýrslur um virkni vísinda í löndunum. Á ráðstefnu í fyrrahaust héldu þessir aðilar vinnufund í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem farið var yfir virkni vísindastarf og mælingar því tengdu. Frá því Ísland dró úr mælingum á virkni rannsókna og þróunar er erfitt að gera sér grein fyrir því mikla starfi sem unnið er á þessu sviði. En þó gefa upplýsingar um útgáfu vísindagreina einhverja mynd af þessu máli.
Á árunum 2000 til 2012 gáfu íslenskir vísindamenn út um 3.100 greinar sem birtar hafa verið í ritrýndum ritum. Þetta er um 0,025% af öllum vísindagreinum sem gefnar eru út í heiminum á þessum tíma. Þetta er mun hærra hlutfall en sem nemur fjölda íslendinga í heiminum. Árlegur vöxtur í útgáfu á hverju ári er um 9% sem er einsdæmi. Meðaltals árleg aukning á öllum Norðurlöndunum er um 3% svo að mikil gróska er í vísindastarfi á Íslandi, sé tekið mið af þessum tölum.
Þegar sérfræðingar telja 3.100 greinar frá Íslandi er átt við framlag íslenskra vísindamanna. Til dæmis ef íslenskur vísindamaður er einn af þremur höfundum greinar ásamt tveimur erlendum vísindamönnum, telst einungis 1/3 greinarinnar vera íslensk. Það þarf því talsverða virkni í vísindum til að ná þessum árangri. Þessi aðferð er kölluð hlutdeildartalning.
Um þriðjungur vísindagreina á tímabilinu eru á sviði heilbrigðisvísinda, en það er svipað hlutfall og á öðrum Norðurlöndum. Nokkur vísindasvið eru með um 10% af heildinni en þar má telja líflæknisfræði, verkfræði, jarðfræði, eðlisfræði og félag og hugvísindi. Önnur vísindasvið eru með lægra hlutfall.
Þess má geta að fjöldi greina er ekki eina vísbendingin um virkni í vísindastarfi. Fjöldi tilvitnana annarra vísindamanna í þessar greinar gefa til kynna gæði þessara greina og áhrif þeirra. Hlutfallslegur tilvitnunarstuðull vísindagreina frá háskólum og háskólasjúkrahúsum á Íslandi var á bilinu 1,05 til 1,11 á tímabilinu 2004 til 2012 en þá er miðað við tilvísunarstuðul allra vísindagreina í heiminum sem fá þá gildið 1,00.
Fulltrúar Greiningarstofu nýsköpunar og Landspítala hafa tekið þátt í starfi norræna sérfræðingahópsins og hafa skrifað úrdrátt úr skýrslunum fjórum sem gefnar hafa verið út. Þessi stutti úrdráttur er viðhengi með þessum skrifum hér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)