Bloggfærslur mánaðarins, maí 2019
Greining á ferðavenjum ferðamanna, innlendra líka.
15.5.2019 | 13:56
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands sagði að "Engin almennileg gögn eru til í ferðaþjónustunni hér á landi svo hægt sé að gera marktækar áætlanir og bregðast við áföllum í greininni.
Það er nánast á hverjum degi að fjölmiðlar koma fram með mis vel undirbúnar skýringar á þróun ferðamála og fjölda ferðamanna og hversvegna sú þróun er á þennan veginn og hinn. Gerðar hafa verið skýrslur um hver þróun ferðamanna er og þar sýnist sitt hverjum. Ein vinsælasta skýringin er fall WoW flugfélagsins, sem leiða má líkum að sé rétt af einhverju leit. Það má vel vera að einhver hafi rétt fyrir sér. Af hverju vitum við ekki eitthvað um áhrif af falli WoW til skemmri og lengri tíma? Hvað sem því líður er umræðan afskaplega ómarkviss á allan hátt. Að telja ferðamenn á ýmsum stöðum og frá ýmsum stöðum og athuga hvað þeir hafa eytt miklu fé er fremur takmörkuð greining. Minni áhersla er lögð á að kanna eiginleika og afstöðu þeirra sem kjósa að sækja okkur heim.
Fáir eru að gefa gaum af því að íslenskum ferðamönnum í eigin landi virðist vera að fækka. Þá er skýringin helst gefin sú að við íslendingar viljum ekki vera innan um stóran fjölda erlendra ferðamanna. Þarna er þáttur sem þarf að greina almennilega. Hversvegna er landinn að draga úr ferðum innanlands?
Ef ég á að gerast eins mann könnun á ferðavenjum íslendinga í eigin landi, þá get ég upplýst að nokkrir þættir hafa áhrif á mínar ferðavenju. Í fyrsta lagi er það gengdarlaus okur á öllu verðlagi sem við innlendir og erlendir ferðamenn verðum fyrir. Hvort um sé að ræða eldsneyti á bíla, kostnaði á tjaldstæðum, kostnaður við veitingar svo eitthvað sé talið. Ég hef ekkert á móti frjálsu verðlagi í sjálfu sér, en það er orðið aðeins of frjálst. Án þess að fara að telja upp lista af vörum og þjónustu sem ferðamenn kaupa, þá held ég að stutt ferð til útlanda gæfi meira verðgildi fyrir peningana.
Í öðru lagi er það blessað veðrið sem hefur áhrif á ferðavenjur mínar. Þar get ég ekki kennt neinum um nema náttúruöflunum, en þeim breytum við ekki. Þó við séum alltaf að reyna með því að bjóða náttúrunni ýmiskonar mengun og sóðaskap. Þá er bara að velja stað til að heimsækja og búast má við þokkalegu veðri. Það er ekki alltaf létt fyrir okkur hjólhýsafólkið að keyra mikið á milli landhluta. Ef við gerum það þá eru tjaldstæðin, sem eru misjafnlega vel skipulögð og rekin, tilbúin að rukka um vænar fjárhæðir fyrir gistingu og fyrir rafmagn. Það væri fróðlegt að sjá hve miklu rafmagni venjulegt hjólhýsi, fellihýsi eða hvað það nú kann að vera, eyðir á sólahring. En verðið á rafmagni er allt að tveimur þúsundum.
Tjaldstæði eru svolítið sérstök. Þar er hægt að fá ýmsa þjónustu svo sem aðgang að salernum, vatni og góð ráð hjá fullorðnum tjaldvörðum. En oftast er eina þjónustan fólgin í að ungmenni koma og rukka tjaldbúa um stæði fyrir ferðahýsi og rafmagn. Stundum er þetta eina þjónustan sem veitt er. Þá er ekki hægt að panta tjaldstæðin a netinu og gera upp þar. Það er víðast hvar alvarlegur skortur á þjónustu tjaldstæða og framkvæmdir við þau eru oftast í skötu líki. Sveitarfélög hafa þó vel búna sveit rukkara á tjaldstæðum sínum. Gjaldtaka er vel þróað fyrirbæri en oft lítil þjónusta á bak við gjöldin.
Sem áður sagði eru erlendir ferðamenn ekkert fyrir mér. Vera má að erfitt sé að fá bílastæði á vinsælum ferðamannastöðum. En bílastæði eru víða til vandræða. Erlendir ferðamenn eru ekki alltaf á sömu stöðum og innlendir. Til dæmis á tjaldstæðum eru þeir venjulega á afmörkuðum stöðum með kúlutjöldin sín.
Ég skal viðurkenna að það eru á hinum vanbúnu vegum okkar sem ég passa mig á erlendum ferðamönnum. Að mæta litlum Jaris eða Kúkú car, eða hvað þeir nú kallast vinsælustu ferðabílarnir, á ofsahraða þá verður mér ekki um sel. Hér held ég að framkvæmdavaldið mætti efna fleiri loforð um viðhald og breytingar á þjóðvegum. Löggan gerir sitt besta en alvarlegar afleiðingar ofsaaksturs hafa verið átakanlegar.
Því er bent á að það mætti greina ferðavenjur innlendra og erlendra ferðamanna mun betur en gert er og haga verðlagi eins og við séum í virkri samkeppni um bæði innlenda og erlenda ferðamann. Þá mætti ræða málefni ferðamanna á breiðum grundvelli. Ekki láta gjaldtöku á hinum ýmsu ferðamannastöðum leiða umræðuna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)