Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019

Nýsköpunarvog fyrir EES löndin 2019

Ísland telst til landa sem eru Sterk í nýsköpun. En það eru lönd sem mælast með 90-120% af meðaltalsárangri EES landanna hvert ár.

Sterkustu svið nýsköpunar á Íslandi eru Umhverfi sem er jákvætt í garð nýsköpunar, Tengslamyndun í nýsköpunarstarfi og Aðlaðandi rannsóknakerfi. Ísland sýnir sérstakan árangur varðandi samstarf fyrirtækja og stofnana í birtingum vísindagreina, Alþjóðlegu samstarfi um birtingar og símenntun. Samtímis eru Áhrif af sölu sem tengist nýsköpun og Þekkingarverðmæti meðal þeirra þátta þar sem Ísland á nokkuð í land. Þar sem skóinn virkilega kreppir eru þættir eins og Útflutningur afurða á há- og meðal tækni, Sala á nýja markaði og Sala á afurðum sem eru nýjar hjá fyrirtækjunum ásamt Hönnun nýrra afurða.

Það vekur athygli að Ísland mælist hátt þar sem um er að ræða forsendur og umhverfi nýsköpunar ásamt þekkingu vísindasamfélagsins. Hins vegar þegar kemur að sjálfri nýsköpuninni, að koma fram með nýjar eða verulega breyttar afurðir í einhverju formi, þá er minna að ske. Þess ber að geta að Ísland er nánast alltaf á botni í samanburði um útflutning á nýsköpunarafurðum. Dæmi um það er mynd 1 á vefsíðu Eurostat. Skýringin á þessu er líklega sú að grunnur atvinnulífs er fremur þröngur á Íslandi og afar fáar afurðir framleiddar þar teljast til hátækni. Til hátækni teljast afurðir í lyfjaiðnaði, raftækjaiðnaði og flugför. En skilgreining á tæknistigi er venjulega: 1) hátækni, 2) meðal hátækni, 3) meðal lágtækni og 4) lágtækni.

Mismunur á samanteknum árangri miðað við meðaltals árangur á EES svæðinu er nokkuð mikill, Íslandi í hag. Ísland hefur verið með um 20 prósentustig umfram meðalárangur á EES svæðinu. Þó hefur þessi árangur farið lækkandi síðustu árin. Árangur sem borinn er saman milli þessara svæða var um 20% ofar árangri EES landanna fyrir árið 2011. Einnig er borinn saman árangur ársins 2018 og Ísland einungis um 9% hærra. Þetta er talsvert mikið áhyggjuefni að sjá hvað EES svæðið í heild er komið nálægt Íslandi í árangri við nýsköpun. Þegar skoðaðir eru þættir eins og VLF á mann, Árlegur vöxtur á VLF ásamt Útgjöldum fyrirtækja til rannsókna og þróunar miðað við fólksfjölda eru talsvert fyrir ofan meðaltal EES landanna. Þá er hlutfall starfa við framleiðslu í hátækni og meðal tækni og nettó innflæði erlendrar fjárfestingar talsvert undir meðaltali EES landanna.

Það vekur athygli að útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar hafa hækkað talsvert og eru um 1,35% af VLF og eru á svipuðu reki og 2010. Þegar Hagstofa tók við mælingunum lækkuðu þessi útgjöld verulega en hafa síðan vaxið með furðulega hröðum takti til 2017. Það er annars vandamál hve mikið af mælikvörðum vantar í nýsköpunarvog EES svæðisins fyrir Ísland, einhver er ekki að gera vinnuna sína, að minnsta kosti ekki mjög vel.

Í skjalinu sem er viðfest þennan texta kemur fram árangur á ýmsum sviðum nýsköpunar en einnig samanburður á ýmsum hagstærðum milli Íslands og ESB landanna.

Í meðfylgjandi skjali sést samanburður á milli Íslands og Meðaltals árangurs á öllu EES svæðinu fyrir árin 2011 og 2018. Það sést á litunum í töflunni hvar Ísland stendur sig vel. Dökk grænt sýnir hvar Ísland er með meira en 20% árangur. Grænt þar sem það er undir 20%. Gult sýnir hvar Ísland nær ekki 90% af meðaltalsárangri og appelsínugult þar sem Ísland er ekki hálfdrættingur. Það er áhyggjuefni að sjá þessa appelsínugulu kafla í töflunni. Þeir gefa til kynna að lítil gróska sé í sölu afurða á hátækni og meðal hátækni sviðinu. Minna er að marka fjölda útskrifaðra doktora, en sem kunnugt er útskrifast stór fjöldi Íslendinga með doktorsgráðu frá öðrum löndum, en mælingar ná ekki til þess. Dökk grænu sviðin eru flest í tengslum við mannauð og kerfi. Ljósgrænu sviðin eru í tengslum við stuðning við nýsköpun og rannsóknastarf. Gulir reitir varða þekkingarverðmæti.

Af þessum dæmum er ljóst að Ísland mætti gera betur í nýsköpunarmálum. Það þarf að vera öllum ljóst að nýsköpun er forsenda hagvaxtar. Raunar hefur hagvöxtur undanfarinna ára verið talsverður og umfram flest önnur lönd, þó eitthvað sé að draga úr. En það er ekki nýsköpun sem dregur áfram þennan hagvöxt heldur orkuframleiðsla og stóriðja ásamt þjónustu við ferðamenn, en þar má koma til talsverð nýsköpun.

Heyrst hefur talað um komandi nýsköpunarstefnu stjórnvalda sem eitthvað hefur seinkað. En til þessa hefur Vísinda og tækniráð gefið út stefnu sem virðist ganga nokkuð vel. Þau stefnu plögg hafa jafnan verið til þess að styrkja innviðina frekar en að auka nýsköpun. Verkfæri stjórnvalda eru svo sem ekki mjög framsækin. Jafnan er bent á að Tækniþróunarsjóður sé öflugur og er honum ætlað að fjármagna mestan hluta þeirrar nýsköpunar sem lagt er í. Ekki skal vanþakka það sem þó er gert, en vita má að Tækniþróunarsjóður, sem hefur vaxið mikið, er afskaplega lítill. Það þarf að koma meira til en eins og tölfræðin sýnir er fjármögnun nýsköpunar verulegur dragbítur á þróun hennar. Vonandi nær þessi góði hópur sem skipaður hefur verið til að ræða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland útfrá skilgreindri þörf á umbótm og leggja þar með grunninn að auknum hagvexti og velsæld í landinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband