Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023

Er stanslaus vaxtahækkun leiðin?

Eftir tólf vaxtahækkanir i röð á stuttum tíma eru margir farnir að sjá að ríkisstjórn landsins er fremur snauð af hugmyndum um aðgerðir til að lækka verðbólgu. Vextir af lánum á Íslandi eru mjög háir, ekki síst sé tekið mið af öðrum löndum þar sem verðbólga er líka fremur há. Vextir í Bretlandi eru um 4,25%, Noregi 3%, BNA 4,75% svo dæmi séu tekin. En innlánsvextir virðast hafa gleymst í öllu þessu, eru mjög lágir, nema því meiri binding sé til staðar. Það er því að ske tilflutningur fjár frá þeim sem skulda húsnæðislán og þeirra sem eiga sparnað annars vegar og til lánastofnana hinsvegar.

Peningar eru teknir frá fólki og þeir gefnir bönkum og öðrum lánastofnunum í þágu lækkunar á verðbólgu sem þessir aðilar eiga lítinn þátt í að hafa skapað.

Það má teljast vera beinlínis mannvonska að taka sífellt meira fé af, sérstaklega ungu fólki, sem er að koma undir sig fótunum og gefa bönkum og öðrum lánveitendum. Líklega er fjármálaráðherra ekki endilega bara að seilast í vasa skuldara af mannvonsku einni, honum er kannski bara alveg sama. Árangurinn sem bent er á er að húsnæðismarkaðurinn sé í hjöðnun, þó líklega megi segja að hann sé botnfrosinn. Þetta er ekkert sniðugt þegar eftirspurn er fyrir hendi, eftirspurn sem bara frestast og á vísast eftir að springa út. Virkar ekki sérlega góð stefna.

Það eru til ýmsar leiðir til að vinna bug á verðbólgu. Dæmin hér á eftir hefur verið skrifað um, rætt um og aðferðir stundaðar um árabil. Hér er ekki verið að finna upp hjólið aftur, bara benda á fleiri valkosti en að níðast á þeim sem geta illa svarað fyrir sig og hirða af þeim fé.

Með peningastefnu getur Seðlabankinn notað tæki eins og vaxtaaðlögun, bindiskyldu og  aðgerðir á markaði til að hafa áhrif á peningamagn í umferð til að vinna bug á verðbólgu. Með því að hækka vexti getur Seðlabankinn dregið úr peningamagni í umferð, gert það dýrara fyrir fyrirtæki og neytendur að taka lán og eyða og lækka þannig eftirspurn og verð. Þetta þekkjum við bara allt of vel. Fjármálaráðherra sem fer með peningamál í landinu hefur ákveðið að ein stofnun, Seðlabankinn, skuli vinna bug á verðbólgu. Ráðherrann hefur heimilað bankanum að nota eitt verkfæri, breytingar á vöxtum, til þessa. Seðlabankastjóri veit að þetta er ekki besta leiðin, en hann er samt látinn taka á sig ábyrgðina af öllum þeim vandamálum sem skapast. Ráðherrann er ekki ráðherra af því að hann er ráðalaus. Hann virðist sleppa frá allri ábyrgð.

Með fjármálastefnu getur ríkisstjórnin notað ríkisfjármálin til að vinna á verðbólgu. Dæmi eru að draga úr ríkisútgjöldum eða hækka skatta. Með því að draga úr ríkisútgjöldum getur ríkið dregið úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu í hagkerfinu og þar með minnkað verðbólgu. Á sama hátt getur hið opinbera með því að hækka skatta minnkað ráðstöfunartekjur einstaklinga sem getur minnkað bæði eftirspurn og verð. Þetta hefur okkar ríkisstjórn ekki notað. Það er allt á blússandi fullu og hækkanir á þjónustu og sköttum rífa verðbólguna enn meira upp. Spurning er þegar hvort sem er sé verið að taka peninga af fólki hvort það sé ekki ill skárra að það renni í ríkissjóð sem gæti minnkað sínar skuldir og þar með vaxtagreiðslur, frekar en að afhenda þetta bönkum. Enginn kostur er þó góður.

Á framboðshliðinni getur ríkisstjórnin innleitt aukið framboð á vörum og þjónustu í hagkerfinu, sem getur lækkað verð. Þetta getur falið í sér fjárfestingu í nýrri tækni, menntun og innviðum, sem og að draga úr regluverkinu og draga úr aðgangshindrunum. Þetta gæti tekið tíma en mætti byrja á strax til að það skilaði sér til lengri tíma. Tækni, menntun og innviðir eru tískuorð í samfélaginu en sennilega ekki mikið meira en það. Það skal þó ekki gert lítið úr starfi fyrirtækja á sviði nýsköpunar. Sú starfsemi hefur oft skilað mjög miklu.

Með launa- og verðlagseftirliti geta stjórnvöld beitt launa- og verðlagseftirlit til að takmarka getu fyrirtækja til að hækka verð og starfsmanna til að krefjast hærri launa. Þó að þetta geti skilað árangri til skamms tíma má gera fastlega ráð fyrir að langtíma afleiðingar verði frekar neikvæðar. Þetta gæti alveg eins dregið úr hvata fyrirtækja til að fjárfesta í og stunda nýsköpun. Þetta er líkleg ekki hentug leið þar sem búast mætti við að aðilar vinnumarkaðarins tækju þessu ekki vel. En sennilega er það vinnumarkaðskerfi sem við búum við algjör steypa. Laun hækka langt fram yfir hagvöxt en stjórnvöld snúa á launþega með að leyfa verðbólgu að vaða uppi en lappa svo uppá vesalings krónuna svona rétt á meðan.

Ríkisstjórnin getur beitt gengismálum til að stjórna verðbólgu með því að aðlaga verðmæti aumingja krónunnar að öðrum gjaldmiðlum. Með því að fella krónuna má bæta samkeppnishæfni útflutnings og gera innflutning dýrari. Það gæti dregið úr eftirspurn eftir innfluttum vörum og þjónustu og aukið eftirspurn eftir innlendri vöru og þjónustu og þar með dregið úr verðbólgu. Gengisbreytingar hafa verið notaðar gegnum tíðina til að auka í og draga úr getu útflutningsgreina og innflutnings greina. Ríkisstjórnir hafa í gegnum tíðina varið tilvist krónunnar til að gera einmitt þetta.  

Fáir hafa minnst á gamla góða aðferð sem gæti dregið úr verðbólgu án þess að peningar séu teknir af fólki og afhentir lánastofnunum sem hafa ekkert til saka unnið en að þurfa að taka á móti öllu þessu ókeypis fé. Það er að hvetja fólk, eða öllu heldur „skylda“ það til að spara. Sparnaður er svo sem étinn upp af verðbólgu. Líklegt er að fólk vilji frekar leggja í skyldusparnað sem rýrnar svolítið, heldur en að tapa peningum á einu bretti. Formaður VR hefur nefnt þetta sem dæmi um leið til að vinna á verðbólgu.

Það veit auðvitað hver hugsandi maður að engin ein aðferð getur unnið á verðbólgu, eins og dæmin sýna, heldur þarf að beita fleiri aðferðum samtímis til að ná fram lækkun. En það er vissulega ekki líklegt til árangurs að hækka vexti endalaust enda sést það að verðbólgan er ekkert að lækka, nema síður sé.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband