Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024

Það er ekki létt að velja frambjóðanda til embættis forseta Íslands

Laugardaginn 1 júní n.k. verður gengið til kosninga til embættis forseta Íslands. Allir frambjóðendur, sem eru 12 talsins, hafa keppst við að koma á framfæri eigin ágæti og þekkingu. Það er raunar alveg frábært að 12 manns séu að keppa um sætið. Vísast á fólk mismunandi mikið erindi í þá vegferð, sem framboð til forseta er. Sumir hafa reynslu, þroska og fjölmarga aðra kosti, aðrir kannski síður. En það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að væntanlegur forseti lýðveldisins verður líkast til með um fjórðung atkvæða. Það er rauna óþolandi að þetta hafi ekki verið lagað með breytingu á allra æðstu lögum landsins. En einn þessara frambjóðanda hefur í fyrri störfum sínum, annað hvort með því að fara ekki í breytingar á stjórnarskrá, sem hún hafði aðstöðu til, eða með því að gera ekkert í málinu, orðið til þess að staðan er eins og hún er.

Það hefur verið fróðlegt að horfa á viðtöl við frambjóðendur og kappræður í fjölmiðlum þar sem þeir hafa meðal annars, verið spurðir um hlutverk forseta og hvernig þeir muni koma að gagni í embætti forseta. Frambjóðendur hafa vopnast allskonar orðfærum sem þeir telja að kjósendur vilji heyra, hvort sem það sé í valdi forseta eða ekki að beita þeim. Þá telja þeir upp allskonar góða hluti um sig sjálfa, sem þeir líka eiga von á að kjósendum falli í geð. Málið er að forsetaembættið hefur afar fáum, en þó mikilvægum hlutverkum að gegna, þar sem einungis fáar fyrirhugaðar aðgerðir frambjóðenda passa inn.

Fjölmiðlar spyrja sífellt sömu spurninga og frambjóðendur hafa ætíð svipuð svör á takteinum. Svörin þróast vitanlega eftir því sem tíminn líður, en samt er fátt nýtt að gerast. Ég tek ofan fyrir frambjóðendum fyrir að nenna að standa í þessu fjölmiðlastappi, en vitanlega er það liður í að afla fylgis. Það hefur ekki farið mikið fyrir því að fjölmiðlar spyrji kjósendur um æskilega eiginleika forseta. Ég var að vonast til að geta kosið einstakling með mikla og víðtæka reynslu,  góða framkomu og þannig persóna að á hann verði hlustað. Það á að vera hægt að bera virðingu fyrir þessum aðila og hann má ekki hafa of margar beinagrindur í skápnum sínum.

Til að finna frambjóðanda sem ég treysti fyrir húsbóndavaldinu á Bessastöðum notaði ég útilokunaraðferðina. Þegar ég hafði farið tvisvar í gegnum hópinn og útilokað alla, fannst mér eins og að fleiri hefðu mátt bjóða sig fram. Ég velti fyrir mér að kjósa taktiskt í þessu kosningum, en það gengur ekki heldur, því ég veit ekkert hvað það þýðir að kjósa taktískt. Þá er hægt að kjósa strategiskt, með fótunum og með veskinu. Þær aðferðir eru mér framandi líka.

Eins og skoðanakannanir standa nú eru tvær eða þrjár efstar og hníf jafnar, hvað varðar stuðning. Ég vil alls ekki tvær þeirra en sætti mig við þá þriðju. Vitanlega sætti ég mig við þann frambjóðanda sem fær flest atkvæði, en ég hef samt raðað þeim upp frá þeim frambjóðanda sem mér finnst minnst koma til greina til þess ég hef minnst á móti. Þó verð ég að viðurkenna að þetta er fremur lítið aðlaðandi aðferð, en leiðir ef til vill til þess að ég skila ekki auðu.

Sem betur fer búum við í lýðræðis samfélagi þannig að hver sem er getur einhvern tímann á æfinni boðið sig fram til forseta. Skilyrðin eru ekki mörg til að geta tekið þátt. Það virðist vera vaxandi sá fjöldi landa í kringum okkur þar sem þessi mál eru ekki svona einföld. Í afar stóru ríki í austri, voru tveir í framboði fyrir skömmu. Einum íslenskum fjölmiðli fannst annar þeirra frekar sigurstranglegur, og viti menn, hann vann svo kallaðar kosningar í því risastóra landi. Því ber að fagna að við búum í lýðræðisríki þar sem íbúar hafa mjög mikið frelsi. Ég vil þó hafna öllu hjali um lýðræðisveislu, sem að mínu viti er oftast um að ræða lokað partí í húsi við Háaleitisbraut á bakvið Kauphöllina.

Kjósendur hafa orðið varir við stressaða framkomu stuðningsmanna nokkurra frambjóðenda. Það kann að vera eðlilegt í hita leiksins, en kjósendur þurfa að fara varlega í að trúa öllu sem þeir lesa. Það eru samt atriði sem mætti upplýsa kjósendur um, eins og hver fjármagnar kosningabaráttuna fyrir hvern og einn frambjóðanda. Það virðist vera mjög mismunandi hvað frambjóðendur leggja í baráttu sína og getur verið um talsvert háar fjárhæðir að ræða. Þetta þurfa kjósendur að vita og eins hvort það séu hagsmunaaðilar á bakvið baráttu frambjóðenda. Það er næsta víst að frambjóðendur fara eftir lögum og reglum, en það geta verið þarna á ferðinn öfl sem kjósendum finnst ekki endilega í lagi að séu að sameinast um einn aðila.

Ég óska hverjum þeirra sem hlýtur kjör til embættis forseta Íslands á laugardaginn, góðs gengis og farsældar í embættinu. Vonandi fylkja sér allir landsmenn að baki nýs forseta.                


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband