Tillögur Sjálfstæðisflokksins til að bæta hag lánþega húsnæðislána

Flestir, ef ekki allir flokkar hafa á stefnuskrá sinni, einhverskonar leiðréttingu hinna stökkbreyttu húsnæðislána. Eðlilega er þetta eitt af helstu málefnum heimilanna eftirefnahagshrunið sem leiddi meðal annars til óeðlilega mikillar hækkunar þessara lána. Vitanlega hefur verðtrygging lána verið umdeild enda hefur hún komið mjög misjafnlega niður á fólki um leið og lán þess hafa hækkað verulega án þess að það hafi sjálft haft nokkra möguleika til að sporna við því.

Ekki skal farið mörgum orðum um tillögur ólíkra framboða en flest byggja þau á að kröfuhafar hinna föllnu banka skuli verða af hluta hagnaðar sem rekja má til hrunsins. Ekki er óeðlilegt að kröfuhafarnir þurfi að gefa eftir eins og allir aðrir enda er um mjög háar upphæðir að ræða sem ekki er létt að sjá fyrir hvernig þeir ættu að leysa til sín.

Að leysa skuldavanda heimilanna með þessu móti virðist nokkur einföldun á flóknu máli. Til að efnahagslíf landsmanna, þar með talin skuldavandi og eignauppbygging, komist í viðunandi horf þarf margt að koma til. Undirstaðan af því að koma á eðlilegu ástandi er að byggja upp arðbært atvinnulíf. Þúsundir starfa hurfu í hruninu og koma aldrei til baka aftur. Það gerast hinsvegar önnur störf sem kalla á fjárfestingu, aðgang að starfsfólki með rétta færni, stöðugleiki í efnahagslífi og heppilegar forsendur til atvinnurekstrar. Önnur mál varða menntun og þjálfun fólks, eðlileg alþjóðaviðskipti, skattamál, nýtingu náttúruauðlinda á skynsaman hátt, til að nefna einhver dæmi.

Tillögur sjálfstæðismanna til að leysa skuldavandann og auka eignamyndun fólks og þar með sparnað, virðast um margt skynsamlegar. Þessar tillögur eru í meginatriðum í tveimur liðum: 1) lækkun á höfuðstól með skattaafslætti og 2) lækkun höfuðstóls lána með séreignarsparnaði. Hér er um að ræða í fyrra tilfellinu að allt að 40 þúsund króna á mánuði komi fólki til góða með sérstökum skattaafslætti sem allir hafa rétt á að fá. Þetta er um 480 þúsund krónur á ári sem er talsverð upphæð þó vísast megi deila um hvort þetta sé hin rétta upphæð. Hinsvegar má nota séreignasparnað til að greiða niður höfuðstól láns. Þetta er einnig skattfrjáls ráðstöfun fjár. Því má segja að um 4% launa fari inn á höfuðstól húsnæðisláns í kerfi sem stendur öllum opið.

Eins og staðan er nú er úttekt á séreignarsparnaði skattlögð.  Í staðinn fyrir að borga skatta af sparnaðinum nýtist hann beinlínis til að varðveita sparnaðinn áfram í formi eignar í fasteign. Þetta virðist ákjósanleg leið til að auka sparnað og einnig ráðstöfunarfé einstaklinga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Umræddar tillögur Sjálfstæðisflokksins eru fyrst og fremst óbeinn ríkisstyrkur til lánveitenda með tilfærslu á fé sem annars væru skattatekjur til ríkisins.
Einnig heldur vítisvél verðtryggingarkerfisins áfram eftir sem áður að mala gull í formi reiknaðra verðbóta á verðtryggð lán skuldaranna og hækka með því skuldir þeirra. Staða þeirra heldur því áfram að versna eins og hingað til, en þetta er aðeins lenging í hengingarólinni fyrir marga.

Kristinn Snævar Jónsson, 21.4.2013 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband