Færni til nýsköpunar kallar á samstarf og stuðning
6.9.2013 | 10:18
Í tengslum við efnahagshrunið var settur á stofn fjöldi áhugaverðra frumkvöðlaverkefna þar sem einstaklingar voru hvattir til að koma fram með viðskiptahugmyndir með það að markmiði að þeir gætu síðan stofnað fyrirtæki um hugmynd sína. Þetta var jákvætt átak og er áhugavert að sjá hvort eftir 8-10 ár verði hægt að sjá árangur af þessum átaksverkefnum. Sennilega mun það taka þann tíma fyrir fyrirtækin að komast á legg hafi þau til þess burði. Hafi fyrirtækjum fjölgað í framhaldi af átaksverkefnunum má segja að vel hafi tekist til. Ef ekki, þá var að minnsta kosti reynt. Vandamálið er að fyrirtæki á Íslandi vaxa hægar en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Það liggja fyrir rannsóknir sem sýna að vöxtur nýsköpunarfyrirtækja er fremur hægur. Það má því leiða líkur að því að færni frumkvöðla sé ekki nægilega mikil og að stoðkerfi nýsköpunar sé ekki alltaf í stakk búið til að sjá til þess að bæta úr þar sem þörfin er mest.
Stoðkerfið þarf að vinna með fyrirtækjunum í því að finna hvaða flöskuhálsar standa í vegi fyrir því að nýsköpunarfyrirtæki í landinu nái að vaxa og dafna. Mikilvægt er að leita leiða til að sjá fyrirtækjum fyrir réttri og viðeigandi færni. Hluti af þessu er að bæta menntun landsmanna í þeim greinum sem líklegt er að nýtist til framtíðar. Það nægir ekki að kalla eftir fólki með tækni- eða raunvísindamenntun. Þetta er stærra en svo og kallar á samstarf fyrirtækja og aðila í menntakerfinu og nákvæma skilgreiningu á þörfinni fyrir færni. Þetta á einnig við hvað varðar þjálfun og þróun á færni fólks. Að sjá atvinnulífinu fyrir viðeigandi færni er ferli sem varðar allt samfélagið, menntakerfið eins og það leggur sig. Þá þarf almennt umhverfi sem er jákvætt í garð frumkvöðla, nýsköpunar og færniþróunar.
Stoðkerfið leggur áherslu á fjárstuðning við nýsköpunarfyrirtæki en þó má segja að skortur á fjármagni sé oft það sem stendur nýsköpunarstarfi fyrirtækja fyrst fyrir þrifum. Nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndum búa við auðveldara aðgengi að fé, bæði til rannsókna og nýsköpunar. Þar er einnig reynt að fylgja peningunum eftir með góðum ráðum. En segja má að þar sé um að ræða snjalla peninga. Ekki skal gert lítið úr því fé sem varið er til nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi enda eru ótal dæmi þess að þetta sé forsenda þess að fyrirtæki nái að vaxa. Frumkvöðullinn leggur oft af stað með áhugaverða tæknilega hugmynd en skortir þekkingu til að láta hana verða að arðbærri afurð. Það má segja að fjármögnun fyrirtækja með snjöllum peningum færi þeim aukna færni sem losi þar með um ýmsa flöskuhálsa.
Tímaþátturinn er mikilvægur í þróun færni en atvinnulífið og menntakerfið þurfa að sameinast um aðgerðir sérstaklega til langs tíma. Það er ekki skilvirkt að fyrirtæki og menntakerfi einblíni á þörf dagsins í dag eftir færni. Þegar mennta- og stuðningskerfi koma með lausn dagsins í dag er liðinn svo langur tími að allt önnur vandamál hafa komið fram og þarfnast lausna. Til að gagnast atvinnulífinu best þarf að sjá því fyrir réttri færni á réttum tíma. Færni er ekki bara fólgin í menntun enda koma mjög margir aðrir þættir til greina. Skoða þarf atriði eins og reynslu, menningu, rekstrarumhverfi svo að fátt eitt sé nefnt. Að þróa færni til nýsköpunar er því langhlaup sem kallar á þátttöku mjög margra.
Nýsköpun verður ekki til nema fyrir tilstuðlan markaðarins. Góð hugmynd sem markaðurinn hafnar er ekki nýsköpun heldur tómstundagaman. Færni á sviði markaðar og stjórnunar ýmiskonar er ekki síður mikilvæg fyrir nýsköpun en hin tæknilega færni. Stjórnun nýsköpunar og innfærsla á markað er ekki síður mikilvæg en hin tæknilega hugmynd. Hér er það áherslan á sterkar hliðar í landinu sem gildir. Leggja skal áherslu á það sem landsmenn kunna vel en hika þó ekki við að taka inn nýjar greinar. Það skal þó gert meðvitað, ekki endilega með því að leggja mikið fé og mannskap í verkefni sem ekki er þaulhugsað og sem passar hugsanlega ekki vel inn í efnahagslífið.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1475177/?item_num=0&searchid=9476388cc79e0b77beb0b1e0395b1c33951adb10
Meginflokkur: Rannsóknir og nýsköpun | Aukaflokkur: Menntun og skóli | Breytt 18.12.2015 kl. 08:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.