OECD gefur út árangur í vísindum, tækni og atvinnulífi 2017.
7.12.2017 | 09:40
OECD birti í nóvember skýrslu um Vísindi, tækni og atvinnulíf (Science, Technology and Industry Scoreboard) fyrir árið 2017. Í sérstöku yfirliti um Ísland koma í ljós ýmsar upplýsingar um vísindi, tækni og nýsköpun sem einkennir Ísland.
Á Íslandi stunda lítil og meðalstór fyrirtæki um 90% af rannsókna og þróunarvinnu á Íslandi. Því má segja að stór fyrirtæki, eða þau sem hafa fleiri en 250 starfsmenn, verja um 3,2 milljörðum til rannsókna og þróunar. Í flestum löndum OECD eru það einmitt stór fyrirtæki sem stunda hvað mestar rannsóknir og er þá spurt hvort stóru rannsókna og þróunarfyrirtækin okkar svo sem Marel, Össur, Íslensk erfðagreining séu ekki að reiknast hærra. Hagstofan gefur engar skýringar á vefsíðu sinni, enda stundar stofnunin almennt ekki greiningu á gögnum sínum. Þetta er verulega umhugsunarvert og kallar á gegnsæi í birtingu gagna.
Tæp 80% af rannsóknum og þróun eiga sér stað í þjónustugeiranum. Á Íslandi eru það einmitt þjónustufyrirtæki sem eru hvað mest áberandi í þekkingargeiranum. Atvinnulíf á Íslandi er verulega háð erlendri eftirspurn. Tæp 60% af störfum í einkageiranum eru í greinum þar sem afgerandi er erlend eftirspurn. Þar má vísast telja að ferðaiðnaður sé mjög áberandi. Á sama tíma er framleiðni vinnuafls fremur lág og er tekið dæmi af því að í upplýsingatækni er framleiðni lægri en í öðrum iðngreinum. Þetta vekur upp margar spurningar, sem vísast fást engin svör við. Það verður að vera hægt að segja þegnum þessa lands hvað er vel gert og hvað miður vel og hvað veldur.
En Íslendingar eru framarlega þegar talað er um notkun á internetinu. Nánast allir Íslendingar (98%) nota internetið. Þá eru Íslendingar öflugir að nota netið í samskiptum við hið opinbera og eru þar fremstir í flokki með Dönum. Þá vekur athygli sá árangur sem íslenskir vísindamenn hafa náð, mælt í samstarfi við erlenda vísindamenn um skrif á vísindagreinum og þar með um samstarf í vísindum. Íslenskt vísindakerfi er fremur lítið og leit að samstarfsaðilum leiðir vísindamenn oftast fljótt til útlanda. Auk þess eru allmargir vísindamenn menntaðir í útlöndum og því með góð tengsl þegar heim er komið.
Það má því segja að það gangi vel og miður vel í málefnum vísinda, tækni og atvinnulífs á Íslandi. Vonandi er að ný ríkisstjórn, sem leggur áherslur á þessi máli, leggi í þá vinnu að greina stöðu og þróun þessara mála en láta sér ekki nægja þá skýringu að hlutirnir séu bara svona.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.