Nýsköpunarlandið Ísland, ekki lúxus heldur nauðsyn.
11.10.2019 | 12:02
Ráðuneyti nýsköpunarmála hefur nú birt stefnumótun sína í nýsköpunarmálum. Því ber að fagna, en í þessari stefnu kennir margra grasa. Sumt skynsamlegt og áhugavert annað síður. Það vekur athygli að tekið er fram að nýsköpun sé ekki lúxus heldur nauðsyn. Þetta er fremur furðuleg yfirlýsing og gefur vonandi ekki tóninn fyrir innihaldinu.
Að birta nýsköpunarstefnu er mikilvægt fyrir hvert land. Þó Ísland sé fremur seint á ferðinni að móta stefnu um þetta viðfangsefni sem hefur þó verið markvisst unnið að í yfir þrjátíu ár. En lengur ef miðað er við skipulagða vinnu fyrirtækja til að bæta afurðir sínar og ferla. Mælingar á nýsköpunarstarfi byrjuðu árið 1991 og hefur verið í gangi síðan. Mælingar á rannsókna- og þróunarstafi byrjaði um 1980 en tölur eru til frá 6. áratugnum.
Fullyrt er að hugvit einstaklinga sé mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. Það er vitanlega rétt enda er nýsköpun mannanna verk en hvar er þessi uppspretta virk. Er það í bílskúrnum eða einhversstaðar annarsstaðar, málið er að nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er það nýsköpunarstarf sem skila hvað mestu til samfélagsins. Nýsköpun sem byrjar sem hugmynd einstaklinga getur vissulega skipt máli en brottfall í því starfi er mikil og einungis um 10% fyrirtækja sem sprottin eru frá hugmynd einstaklinga vaxa sem fyrirtæki.
Í stýrihópnum sem stendur að baki stefnu Íslands í nýsköpunarmálum er valinn maður í hverju rúmi. Þar er að finna fólk frá umhverfi nýsköpunar, menntakerfinu og úr stjórnmálunum. Formaðurinn er frumkvöðull sem gefur hópunum aukið vægi. Það hefði ef til vill mátt virkja íslenska frumkvöðla sem sem hafa af reynslu af því að vinna frá grunni með nýsköpunarhugmynd og vita hvar skóinn kreppir. Vonandi rata fleiri frumkvöðlar inn í nýsköpunar- og frumkvöðlaráð verði það sett á stofn. Það er skaði af því að Rannsóknarmiðstöð Íslands hafi verið breytt í sjóðastofnun og skilið eftir stórt skarð þar sem stjórnsýsla vísinda, tækni og nýsköpunar er nú í skötulíki. Það er útilokað að ráðuneytin sem sinna þjónustu við Vísinda- og tækniráðs geti gert það að einhverju viti, miðað við það álag sem er á ráðuneytisfólki.
Annar stór ágalli við nýsköpunarkerfið eins og það er í dag er mikill skortur á öflun gagna og greining á þeim. Hagstofan safnar gögnum fyrir samræmda gagnaöflun um nýsköpun á EES svæðinu. Í árlegri skýrslu ESB sem kallast European Innovation Scoreboard eru birt gögn frá öllum EES löndunum, þar með talið frá Ísalandi. Nýjast skýrslan gefur til kynna að Ísland sé verulega að dragast aftur úr öðrum löndum hvað varðar nýsköpun. Sennilega er þessi þróun til komin vegna þess að önnur lönd eru að sýna aukinn árangur ár frá ári á meðan Ísland stendur í stað. Það er frekar óþægileg þróun og gæti haft verulegar afleiðingar fyrir samkeppni og efnahag landsins.
Þar sem ekki fylgir framkvæmdaplan fyrir stefnumótun í nýsköpun, er ekki hægt að ætlast til að hugtök og forgangsröðun viðfangsefna séu nákvæmlega skilgreind. En þungamiðjan í stefnunni eru viðfangsefnin a) fjórða iðnbyltingin, b) umhverfismál og c) lýðfræðilegar áskoranir. Hér eru nokkur viðfangsefni á ferðinni sem er góð byrjun en fleiri þættir þurfa að koma til, svo sem hvað varðar þjálfun. Í fyrsta lagi hvað er átt við með nýsköpun? Þetta þarf að skýra þannig að sem flestir lesendur séu með sama skilning á hugtakinu. Það mætti rekja í stuttu máli þróun á hugtakinu frá því að vera línulegt kerfi, yfir í ólínulegt og nú skilningurinn á að nýsköpunarstarf hafi víðfermar afleiðingar og áhrif. Þá er skilningur á hugtakinu fjórða iðnbyltingin afar mismunandi. Sumir sjá í þessu hugtaki að vélar séu að taka við af fólkinu. Þetta má vera rétt en það kemur meira til. Það mætti skýra þessa mikilvægu þróun betur í ljósi fyrri þróunar frá því línulegt kerfi var skilgreint þar til í dag að þriðja kynslóð nýsköpunar hefur komið fram.
OECD segir að svokölluð fjórða iðnbylting muni breyta ekki aðeins hvað við gerum heldur líka hver við erum. Hún mun hafa áhrif á sjálfsmynd og allt sem hana varðar, svo sem friðhelgi einkalífsins, skilning okkar á eignarhaldi, neysluvenjur, tíma sem við verjum í vinnu, frístundum og hvernig við þróum starfsferla, þekkingarsköpun, samskipti og fleira svo sem til að nefna eina nálgun.
Umhverfismálin eru afar mikilvægur þáttur fyrir íslendinga að skilja og vinna að. Þetta skiljum við nokkurn veginn þó umhverfismál séu afar umfangsmikill málaflokkur og er okkur frekar hugleikinn. Þegar kemur að lýðfræðilegum áskorunum eru nefndar til sögunnar aldursamsetning þjóðarinnar og nýjar lausnir í heilbrigðis og velferðarmálum. Hér er skautað frjálst yfir fjölda viðfangsefna til að nefna dæmi:
- Heilbrigðismál, öldrun, lýðfræðilegar breytingar og velferð
- Fæðuöryggi, sjálfbær landbúnaður og lífrænu efnahagskerfi
- Trygg, hrein og skilvirk orka
- Snjallir, grænir og samþættir flutningar
- Loftslagsbreytingar og skilvirk nýting gæða, þar með talin hráefni
- Öryggi og nýsköpun í samheldnu samfélag
Lýðfræðilegar áskoranir eru jafnan þannig gerðar að ekkert eitt land hefur burði til þess að finna lausnir gagnvart þeim. Mikil áhersla er lögð á að lönd vinni saman að þessum málum enda stærð þeirra mjög mikil. Norðurlöndin eru þegar vel á veg komin með að undirbúa samstarf um þessi mál meðal annars í samstarfi innan NordForsk.
Fullyrt er í stefnunni að vilji til nýsköpunar sé innbyggður í samfélag, menningu og atvinnulíf landsmanna. Þetta er trúlega rétt. Almenningur er jákvæður í garð nýsköpunar. Vandamálið er ekki í viðhorfi fólks heldur möguleikum fólks til að stunda nýsköpun. Þar kemur fyrst fram afar takmarkað fé til nýsköpunar, brotakennt kerfi og síðan að einhverju leiti skortur á þekkingu á viðfangsefni nýsköpunarinnar ásamt stuðningskerfi við frumkvöðla og er þá átt við aðgengi að þekkingu til nýsköpunar sem frumkvöðlar gætu sótt stuðning og þekkingu.
Það skal ekki vanþakkað að stjórnvöld hafa næstum alltaf stutt við rannsókna- og nýsköpunarsjóði. Jafnvel á hrunárunum voru þessir sjóðir að einhverju leiti verndaðir fyrir miklum niðurskurði. Eitthvað virðast þessi mál þó eiga undir högg að sækja nú. Vandamálið er ekki viðhorf og áhugi heldur að sjóðir eins og Tækniþróunarsjóður eru mjög litlir. Sjóðurinn hefur stækkað hressilega á síðustu árum og áratugum en hann er enn of lítill til að geta skipt verulegu máli. Þetta þýðir að fjölmörg áhugaverð verkefni fá ekki framgang. Þar eru fyrstu merki um þrengri samkeppnisstöðu Íslenskra nýsköpunarfyrirtækja miðað við erlend fyrirtæki.
Þá eru fjárfestingarsjóðir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum mjög fljótir að fjárfesta öllu sínu fé í áhugaverðum fyrirtækju. Þar er líka um að ræða ávöxtunarkröfu sem aðeins reyndari og eldri nýsköpunarfyrirtæki geta mögulega uppfyllt. Það er ekki til mikils að reka sjóði sem geta ekki fjárfest í einu verkefni fyrr en annað fer út úr sjóðunum.
Stefnan gerir ráð fyrir að til staðar sé þroskað umhverfi fyrir fjármögnun nýsköpunar. Um þetta má deila. Fjármögnun á þekkingarstarfsemi er svolítið í skötulíki á Íslandi. Mest opinbert fé sem merkt er nýsköpun fer til stofnana á fjárlögum og þeim er nokkuð í sjálfsvald sett hvernig þær nota það. Rannsóknastofnanir og háskólar eru, eða ættu að vera, mikilvægur þáttur í nýsköpunarstarfi, en þá er mikilvægt að þessar stofnanir séu í betri tengslum við atvinnulífið og þarfir til nýsköpunar. En þar sem litlar sem engar kröfur eru settar á þessar stofnanir hættir þeim til að byggja upp óþarfa yfirbyggingu.
Það er jákvætt í stefnunni hve mikil áhersla er lögð á þátttöku íslendinga í erlendum verkefnum. Þetta er alls ekki sjálfgefið og einungis á færi þeirra sem hafa aðgang að fólki sem þekkir til umsóknaferla í erlendum sjóðum að vænta árangurs. Það er mikil vinna að gera hæfa umsókn t.d. í rammaáætlanir ESB og þurfa umsækjendur að hafa tíma, þekkingu, tengsl og fé til að sækja um fé. Þetta ferli mætti bæta en dæmi eru um að erlendir aðilar hjálpi íslenskum fyrirtækjum til að sækja um í erlenda sjóði. Þessa þekkingu þarf að byggja upp hér á landi með tilheyrandi tengslum. Svo eru það ekki bara fjármagn sem þarf að vera aðgangur að það þarf mikil tengsl og þekkingu á umfangi og eðli þeirra verkefna sem sækja skal í. Áhersla á fjármagn eitt og sér er alls ekki nóg, meira þarf til.
Íslenskt regluverk varðandi nýsköpun er hugsanlega ekki eins fullkomið og stefnuskýrslan heldur fram. Víða eru brestir í kerfinu. Stutt er síðan hlutverk rannsóknaráðs var minnkað niður í einungis rekstur sjóða og því þyrfti að endurskoða hlutverk rannsóknaráðs með tilliti til aukinnar áherslu á nýsköpun samkvæmt nýútgefinni skýrslu ,,Nýsköpunarlandið Ísland.. Sjóðirnir sem jafnan hafa notið stuðnings stjórnvalda eru mjög litlir og kröfurnar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að sækja um og gera grein fyrir styrkjum til nýsköpunar eru óhóflegar. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að gera góða grein fyrir nýtingu opinbers fjár frá skattgreiðendum. En að leggja síbreytilegar kröfur, oft óskrifaðar, á lítil fyrirtæki er engum til góðs. Það eru allmörg mannár nýsköpunarfyrirtækja sem fara í umsóknir á styrkjum sem oft eru litlir og stór hluti fer aftur til ríkisins í formi skatta.
Stefnan kallar á að gagnaöflun og greining á stöðu nýsköpunarumhverfisins verði hluti að mælaborði stjórnalda og við hagstjórn. Þetta er hressandi yfirlýsing og þörf því hingað til hefur gagnaöflun og greining verið allt of lítil síðastliðinn ár. Fyrir um tíu árum var gagnaöflun takmörkuð en þó regluleg og greining var gerð í samstarfi við bæði Norðurlöndin og erlendar stofnanir sem gaf okkur við mið. Þetta var ekki nægileg vinna þá, en er enn minni nú og sennilega engin. Hagstofan gerir samræmdar kannanir um nýsköpun, en þessar niðurstöður eru ekki nýttar í neina greiningu hér á landi sem er þó mikilvæg til að meta stöðu og þörf. Sem betur fer er greining gerið á vettvangi ESB í svo kölluðum Eruopean innovation scorboard. Þar eru í raun fyrstu vísbendingar um að Ísland er að dragast afturúr öðrum löndum hvað varðar nýsköpun. Þetta kallast á við nýjustu niðurstöður frá World Economic forum sem nýlega hefur greint frá því að samkeppnisstaða Íslands fer versnandi.
Stefnuplaggið ,,Nýsköpunarlandið Ísland er gott framlag í umræðuna um þróun nýsköpunar á Íslandi. Talsvert af innihaldinu byggist þó ekki á greiningarvinnu og sumstaðar um að ræða hreina óskhyggju. Vonast er til þess í framhaldi að stefnunni fylgi einhverskonar framkvæmdaáætlun þar sem tekist er á við í fyrsta lagi þá vankanta sem er að finna á umhverfi og skipulagi nýsköpunarkerfisins. Þá þarf að samræma aðgengi að fé til þessara mála, en til er fjöldi lítilla sjóða sem eru svo sem ekki til neins, nema þá að veita viðurkenningu fyrir góða umsókn. Það þarf að afla tölulegra gagna um starfsemi nýsköpunar, sem segja okkur til um umfang og leiðir, og byggja síðan stefnu á þeim greiningum sem gerðar verða á þeim gögnum. Skattayfirvöld þurfa að opna gagnagrunna sína fyrir aðgengi að gögnum um fyrirtæki, svo sem flokkun á starfsemi þeirra, mannafla og fleira, en þar er að finna fjársjóð upplýsingar sem ekkert nýtast.
Að lokum mætti benda á að það er í lagi að hafa forgangsröðun á nýsköpunarstarfi og þróun nýsköpunarumhverfis hér á landi. Skynsamleg nýting fjár er eitt, samstarf um samfélagslegar ögranir er annað. Það þarf að taka til í kerfinu og skipuleggja í anda nýrra hugmynda um stöðu og þróun nýsköpunar.
Meginflokkur: Rannsóknir og nýsköpun | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.