Er Ísland verst í bekknum varðandi aldur ráðherra?

OECD hefur birt upplýsingar um meðalaldur ráðherra í ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Lægstur meðalaldur er um 45 ár á Íslandi, vel rúmlega 60 ára í Japan en meðalaldurráðherra í OECD er um 53 ár. Á meðan Íslendingar fagna fjölbreytileikanum er einnig þörf á að fagna þátttöku ungs fólks í áhrifastöðum. Þetta unga fólk þarf ekki endilega að byrja á toppi í upphafi ferlis síns. Þess í stað mætti reyna að fá einhverskonar þverskurð af þjóðinni til að standa við stýrið. Konur eru að nálgast 40% af þingmönnum og 46% kvenna sitja ráðherrastólum,  eins er líklegt að þeim fari fjölgandi eftir komandi kosningar og því ber að fagna. En þingmenn eru vitanlega einstaklingar með mismunandi eiginleika, skoðanir og áhugamál.

Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um það hverjir séu kostir og gallar við mismunandi aldur ráðamanna eins og ráðherra. En þá staldrar maður við hvað felst í meðalaldri, en meðalaldur er samanlagður aldur deilt með fjölda. Því segir meðalaldur elsta og yngsta ráðherrans svo sem ekkert um raunverulegan aldur og hvaða ályktanir megi draga að reynslu viðkomandi og hæfileika.

Almennt er sagt að til að ná tökum á flóknu starfi taki það viðkomandi nokkur ár. Því skýtur svolítið skökku við að til eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem eru rétt um þrítugt. Einstaklingar í ráðherrastólum á þessum aldri hafa sýnt það og sannað að reynsla þeirra þvælist ekki mikið fyrir þeim því orð þeirra og athafnir benda til hvatvísi og steigurlætis. Það vekur furðu að afar litlar kröfur eru gerðar til fólks sem hefur öll þessi völd.  Þessir einstaklingar eru æðstu stjórnendur í sínum stjórnmálaflokki sem veldur mörgum áhyggjum, í ljósi reynsluleysis þeirra.

Eldri og reyndari ráðherrar sýna ekki endilega að með reynslu sinni og þekkingu á málefnum liðandi stundar standi þeir sig svo sem mikið betur. En þeir kunna á kerfið á þann hátt að kvíðvænlegt er að sjá. Því þeir geta haldið málum í heljargreipum ár eftir ár þannig að þau komast ekki í umræðu, sýnist þeim svo. Dæmi um svona mál eru,  fiskveiðistjórnunarmál, Evrópuaðild, gjaldmiðillinn, stjórnarskráin og heilbrigðismáli, hvað sem fólki kann að finnast um þau mál.

Niðurstaðan af þessu er því að best er að velja fólk til setu í ríkisstjórn sem líkist einhverskonar þverskurði af þjóðinni sem  hefur samt ekki setið of lengi. Einnig að mjög ungt fólk hefur ekki öðlast yfirsýn eða reynslu til að taka þátt í ríkisstjórn, enda er sú stofnun ekki hentug til uppeldis fyrir stjórnmálamenn. Til þess eru aðrar stofnanir heppilegri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband