Kosningaloforð, hverjar hafa verið efndir þeirra.

Nú styttist í kosningar og flokkarnir birta metnaðarfull loforð um hvað þeir ætlast fyrir á komandi kjörtímabili. Stundum er þetta í formi stefnu flokkana, oft svolítið óskýrrar stefnu þó þeir séu vísast allir að vinna almenningi til heilla.

Þó vitað sé að kosningaloforð eiga ekki alltaf greiða leið inn í stjórnarsáttmála þeirra flokka sem ná að mynda ríkisstjórn. Þannig er að ef þú kýst einn flokk, færðu að minnsta kosti tvo i kaupbæti. Flokka sem þú kannski vildir ekki með að gera. Þegar þessir þrír eða fleiri fara að prjóna saman aðgerðaáætlun fyrir næstu fjögur árin verða kosningaloforðin eftir í kassa uppi í hillu á skrifstofum flokkanna til að nota aftur fyrir næstu kosningar.

Einhvern veginn virkar kosningabaráttan vera svolítið í skötu líki að þessu sinni. Nóg er auglýst og auglýsingastofur hafa verið á fullum snúningi að búa til upphrópanir sem ættu að falla sem flestum í geð. Allir eða að minnsta kosti flestir flokkarnir hreiðra um sig í miðjunni á skala stjórnmálanna. Auðvitað eru flokkar sem telja sig vera félagslega sinnaðir að hnýta í markaðsinnaða flokka. Þó er erfitt að skilja af hverju það eru 10 flokkar í framboði að lofa næstum því sama. En þetta er að þakka að við búum við lýðræði þar sem réttur fólks er öllu meiri en fólk víða um lönd má búa við. Ég vil ekki ganga svo langt að tala um lýðræðisveislu eins og feluleikjaflokkarnir.

En fínt er að fá stefnu stjórnmálaflokkanna í gegnum allskonar miðla. Það má telja næsta víst að ef ekki væru loforð og stefnur hefðu stjórnmálaflokkar ekki annað að gera en að níða skóinn hver af öðrum, eins og þeir gera vissulega alltaf. Minna fer fyrir að skoða hvað flokkarnir hafa EKKI verið að gera. Hvers vegna þeir ræða ekki sum mál eða svara með einhverskonar útúrsnúningi, eins og: „Íslandi er betur borgið utan Evrópusambandsins en innan“ eða „eldri borgarar hafa fengið mjög mikla hækkun á sínum lífeyri“. Svo er okkur bent á skattalækkunarreiknivél 20% flokksins. Slá inn laun og fjölda barna. Pæng „skattar þínir hafa lækkað um 50% frá 2013. Engar forsendur, ekkert hvað lækkaði, hvað það var og hvernig það verður, bara pæng. Er e.t.v. verið að kenna kjósendum ógagnrýna hugsun. Það þarf ekki því gagnrýnin hugsun er hluti af lífinu í lýðræðisríki.

Það eru mál sem flokkarnir ættu að hafa á stefnuskrá sinni eins og opið Ísland,  burt með fákeppnina, í hafsauga með hagsmunahópa og samtök, og margt fleira. Það má mynda sér skoðun á því hvað stjórnarflokkarnir hafa gert og hvað þeir hafa ekki gert. Líka hvað þeir hefðu átt að hafa gert. Það ætti ekki vera leyfilegt að slá ryki í augun á kjósendum og fela menn og málefni á bak við trúnað. Einhver vitur maður sagði einu sinni: „gæti ekki verið að Ísland væri enn betur statt ef við tækjum upp annan gjaldmiðil eða festum þann gamla við alvöru pening“.

Það er nefnilega málið, það eru aldrei gerðar úttektir á til dæmis stofnunum, málefnum og viðfangsefnum. Stjórnmálamenn vita allt um þessi mál, enda endanlegar klárt fólk á ferðinni. Hér þarf að bæta úr. Það er hægt að svara mörgum spurningum um efnahagsmál, félagsmál og allskonar mál með því að gera úttektir. Það er meira að segja ekki alveg víst að Persónunefnd væri á móti því. Vitaskuld eru gerðar úttektir í einhverju litlu mæli. Eflaust koma einhverjar fyrir augu almennings á meðan öðrum er stungið niður í skúffur.

Svo eru það stjórnmálamennirnir okkar, en þar kennir margra grasa. Þeir birtast á fjögurra ára fresti, oft skemur, með bros á vör, hoppandi út um víðan völl, jafnvel í loftkastölum og sýna að þeir eru fjölskyldufólk með áhugamál eins og aðrir. Þeir ættu að geta stundað mörg áhugamál enda hafa þeir fengið góða launahækkun á kjörtímabilinu og flokkar þeirra stórar upphæðir að reka starfsemi sína. Líklega eru þessar hækkanir launa og framlaga, ekki fjármunir sem gætu leyst vandann til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Spurning en bara hvort þingmenn og flokkar þeirra eiga þessa viðbótar peninga skilið. Það má vel efast um það. Hugsanlega mætti draga úr fátækt í landinu, auka úrræði fyrir börn og unglinga með geðraskanir, eða bara borga niður skuldir. Það er ekki hugmyndin að leggja drög að næstu fjárlögum hér en rétt væri að staldra við og hugleiða hvort alltaf sé rétt gefið og hverjum. Nú er bara spurning hvort næsta stjórn eða stjórnarandstaða útbýr mælaborð þar sem verður stöðug eftirfylgni með kosningaloforðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband