Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Aukin færni til nýsköpunar eykur hagvöxt

"Nýsköpunarfyrirtæki verða að hafa aðgang að einstaklingum með færni til að stunda nýsköpun en hagvöxtur og samkeppni byggjast á nýsköpunargetu þeirra."

Skortur á færni til nýsköpunar stendur fyrirtækjum fyrir þrifum og takmarkar möguleika þeirra til að vaxa. Atvinnulífið þarf á að halda starfsfólki sem býr yfir færni til að leysa flókin verkefni nýsköpunar. Ný frumkvöðlafyrirtæki ná of sjaldan að vaxa vegna skorts frumkvöðla á nauðsynlegri færni. Þetta á jafnt við um færni í stjórnun og rekstri sem og í tækni og raungreinum.

Það þarf að marka stefnu um það efnahagskerfi og atvinnulíf sem landsmenn vilja búa við. Hvort við viljum hálauna eða láglauna samfélag. Þetta kallar á forgangsröðun á áherslum í atvinnulífinu þar sem verðmætasköpun ætti ætíð að vera í brennidepli. Þó má geta þess að ómögulegt er að segja fyrir um hverskonar fyrirtæki muni vaxa í framtíðinni. Heildarsýn á málefni nýsköpunar í fyrirtækjum er mikilvæg fremur en þröngar lausnir sem jafnan eru til skamms tíma og oft ómarkvissar.

Færni til nýsköpunar er flókið fyrirbæri en menntun ein og sér nægir ekki til að skilgreina hugtakið nægilega. Færni er þróuð af starfsfólki við það að leysa tæknileg og framleiðslutengd vandamál sem hvetur það til að prófa, framleiða og markaðssetja nýjar framleiðsluafurðir og ferla. Að þróa færni byggist ekki aðeins á gæðum þeirrar menntunar sem einstaklingur býr yfir heldur einnig á besta skipulagi vinnuumhverfis svo sem varðandi frumkvöðlamenningu, markvissri sí- og endurmenntun ásamt jákvæðni í garð nýsköpunar. Það skiptir máli að byggja upp reynslu á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Án reynslu, sem er annar mikilvægur þáttur í færni, er erfitt að byggja upp fyrirtæki og atvinnugreinar.

Mikið rót komst á atvinnu- og efnahagslíf landsmanna við efnahagshrunið. Stór fjöldi fólks varð án atvinnu og eftirspurn eftir hverskonar fjárfestingar- og neysluafurðum minnkaði. Atvinnuleysi er enn meira en það var fyrir hrun og fjöldi fyrirtækja stendur frammi fyrir endurskipulagningu. Ný störf hafa skapast á undanförnum árum þar sem kallað er á aukna færni og þekkingu. Þá hafa verið gerðar kannanir á þörf fyrirtækja fyrir starfsfólk og hvernig mæta eigi þeirri þörf. Niðurstaðan er venjulega sú að atvinnulífið gerir kröfu um aukna færni fólks á mörgum sviðum, ekki síst færni til nýsköpunar.

Til að mæta færniþörfum atvinnulífsins fyrir nýsköpun þurfa allir sem málið varðar að leggjast á eitt til að koma skilyrðum til atvinnurekstrar í gott horf og skal þá miðað við það besta sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það er ein mikilvæg forsenda þess að atvinnulífið geti skapað þau verðmæti sem liggja til grundvallar nauðsynlegum hagvexti í landinu. Til að skapa þessi verðmæti þurfa fyrirtækin aðgang að fjármagni, jákvæðu umhverfi og réttum mannauði. Tryggja verður að á komandi árum verði hér fjöldi vel menntaðra og þjálfaðra einstaklinga með færni sem þörf er á til að efla þekkingarfyrirtæki og atvinnulífið í heild.

Umræðan um framtíðarþörf fyrirtækja fyrir færni er orðin sýnileg en þó vantar að skilgreina betur hvað felst í hugtakinu og í hvaða samhengi það er sett. Einstaklingur sem hyggst leggja fyrir sig háskólanám á sviði tækni eða raungreina er líklegur til að undirbúa það nám með vali á námsgreinum strax í framhaldsskóla. Með þessu er átt við að erfitt er að beina fólki á vissar námsbrautir og breyta áherslum í námi á skömmum tíma. Ljóst er að ætli stjórnvöld og atvinnulíf að leggja til áherslur í námsvali tekur það mjög langan tíma. Skammtímalausnir í námsframboði eru ekki líklegar til að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir fólk með færni til nýsköpunar. Því má fagna starfi aðila eins og Samtaka iðnaðarins um eflingu menntunar á fyrri stigum og samstarfi samtakanna við menntakerfið um að auka aðgang að færni til lengri tíma litið.

Þá má ekki gleyma því að menntun og færniþróun getur ekki farið eingöngu fram í skólakerfinu. Margt annað kemur þar til greina. Hér hafa fyrirtækin hlutverki að gegna. Vita má að færniþróun varðandi nýsköpun í atvinnulífi landsmanna er einnig afar mikilvæg úr sjónarhorni samkeppni.

Þar sem helsta markmið atvinnulífsins er að skapa verðmæti er það varla viðunandi staða að nýta ekki þá starfskrafta sem til eru í landinu. Þörf er á að gera fólki kleift að stofna fyrirtæki og að þau hafi aðgang að færum starfsmönnum. Gera þarf frumkvöðlafyrirtækjum kleift að vaxa hraðar en dæmi eru til um hér. Upplýsingar frá greiningaraðilum segja að 6 frumkvöðlafyrirtæki sem höfðu vaxið hvað hraðast árin fyrir og í byrjun efnahagshrunsins hafi skapað um 130 ný störf frá árinu 2006 til 2009. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Nýsköpunarmiðstöð Norðurlanda gaf út í janúar síðastliðnum. Það gefur til kynna þá gagnsemi sem ný fyrirtæki sem byggjast á þekkingu hafa fyrir atvinnulífið. Einnig er mikilvægt að stoðkerfi nýsköpunar fái að víkka áherslur sínar frá stuðningi við hugmyndastig fyrirtækis þannig að það nái til þess tíma sem fyrirtækið fari að vaxa og dafna og festa sig í sessi á markaði. Ný frumkvöðlafyrirtæki skipta mjög miklu fyrir hagvöxt en nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er líklegust til að skila meiri árangri til lengri og skemmri tíma.

 

 

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1456122/?item_num=1&searchid=9476388cc79e0b77beb0b1e0395b1c33951adb10 


Færni til nýsköpunar kallar á samstarf og stuðning

"Stuðningur við nýsköpun í atvinnulífinu er meðal annars til þess gerður að jafna samkeppnisaðstöðu atvinnulífs í ólíkum löndum."
Færni til að koma á nýsköpun í fyrirtækjum og leysa flókin vandamál henni tengd, er ein mikilvægasta forsenda þess að nýsköpunarfyrirtæki nái að vaxa. Einnig að atvinnulíf landsins þróist og nái árangri. Færni til nýsköpunar er getan til að leysa öll þau flóknu mál sem koma upp við að koma nýrri eða breyttri afurð á markað. Til þessa þurfa nýsköpunarfyrirtæki oft stuðning frá opinberum aðilum. Lítil fyrirtæki eru jafnan ekki í stakk búin til að leysa öll vandamál sjálf. Stuðningur við nýsköpun í atvinnulífinu er meðal annars til þess gerður að jafna samkeppnisaðstöðu atvinnulífs í ólíkum löndum. Íslenskt stuðningskerfi við nýsköpun virðist vera nokkuð skilvirkt í þessu sambandi. Eitthvað vantar þó á að fyrirtæki fái sama stuðning við nýsköpun og best gerist í nágrannalöndunum. Það má viðurkenna það sem vel er gert en þó mætti taka á málum þar sem stuðning vantar. Að öðrum kosti eykst hætta á að íslenskt atvinnulíf dragist aftur úr í samkeppni um að koma afurðum sínum á alþjóðamarkað.

Í tengslum við efnahagshrunið var settur á stofn fjöldi áhugaverðra frumkvöðlaverkefna þar sem einstaklingar voru hvattir til að koma fram með viðskiptahugmyndir með það að markmiði að þeir gætu síðan stofnað fyrirtæki um hugmynd sína. Þetta var jákvætt átak og er áhugavert að sjá hvort eftir 8-10 ár verði hægt að sjá árangur af þessum átaksverkefnum. Sennilega mun það taka þann tíma fyrir fyrirtækin að komast á legg hafi þau til þess burði. Hafi fyrirtækjum fjölgað í framhaldi af átaksverkefnunum má segja að vel hafi tekist til. Ef ekki, þá var að minnsta kosti reynt. Vandamálið er að fyrirtæki á Íslandi vaxa hægar en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Það liggja fyrir rannsóknir sem sýna að vöxtur nýsköpunarfyrirtækja er fremur hægur. Það má því leiða líkur að því að færni frumkvöðla sé ekki nægilega mikil og að stoðkerfi nýsköpunar sé ekki alltaf í stakk búið til að sjá til þess að bæta úr þar sem þörfin er mest.

Stoðkerfið þarf að vinna með fyrirtækjunum í því að finna hvaða flöskuhálsar standa í vegi fyrir því að nýsköpunarfyrirtæki í landinu nái að vaxa og dafna. Mikilvægt er að leita leiða til að sjá fyrirtækjum fyrir réttri og viðeigandi færni. Hluti af þessu er að bæta menntun landsmanna í þeim greinum sem líklegt er að nýtist til framtíðar. Það nægir ekki að kalla eftir fólki með tækni- eða raunvísindamenntun. Þetta er stærra en svo og kallar á samstarf fyrirtækja og aðila í menntakerfinu og nákvæma skilgreiningu á þörfinni fyrir færni. Þetta á einnig við hvað varðar þjálfun og þróun á færni fólks. Að sjá atvinnulífinu fyrir viðeigandi færni er ferli sem varðar allt samfélagið, menntakerfið eins og það leggur sig. Þá þarf almennt umhverfi sem er jákvætt í garð frumkvöðla, nýsköpunar og færniþróunar.

Stoðkerfið leggur áherslu á fjárstuðning við nýsköpunarfyrirtæki en þó má segja að skortur á fjármagni sé oft það sem stendur nýsköpunarstarfi fyrirtækja fyrst fyrir þrifum. Nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndum búa við auðveldara aðgengi að fé, bæði til rannsókna og nýsköpunar. Þar er einnig reynt að fylgja peningunum eftir með góðum ráðum. En segja má að þar sé um að ræða „snjalla peninga“. Ekki skal gert lítið úr því fé sem varið er til nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi enda eru ótal dæmi þess að þetta sé forsenda þess að fyrirtæki nái að vaxa. Frumkvöðullinn leggur oft af stað með áhugaverða tæknilega hugmynd en skortir þekkingu til að láta hana verða að arðbærri afurð. Það má segja að fjármögnun fyrirtækja með snjöllum peningum færi þeim aukna færni sem losi þar með um ýmsa flöskuhálsa.

Tímaþátturinn er mikilvægur í þróun færni en atvinnulífið og menntakerfið þurfa að sameinast um aðgerðir sérstaklega til langs tíma. Það er ekki skilvirkt að fyrirtæki og menntakerfi einblíni á þörf dagsins í dag eftir færni. Þegar mennta- og stuðningskerfi koma með lausn dagsins í dag er liðinn svo langur tími að allt önnur vandamál hafa komið fram og þarfnast lausna. Til að gagnast atvinnulífinu best þarf að sjá því fyrir réttri færni á réttum tíma. Færni er ekki bara fólgin í menntun enda koma mjög margir aðrir þættir til greina. Skoða þarf atriði eins og reynslu, menningu, rekstrarumhverfi svo að fátt eitt sé nefnt. Að þróa færni til nýsköpunar er því langhlaup sem kallar á þátttöku mjög margra.

Nýsköpun verður ekki til nema fyrir tilstuðlan markaðarins. Góð hugmynd sem markaðurinn hafnar er ekki nýsköpun heldur tómstundagaman. Færni á sviði markaðar og stjórnunar ýmiskonar er ekki síður mikilvæg fyrir nýsköpun en hin tæknilega færni. Stjórnun nýsköpunar og innfærsla á markað er ekki síður mikilvæg en hin tæknilega hugmynd. Hér er það áherslan á sterkar hliðar í landinu sem gildir. Leggja skal áherslu á það sem landsmenn kunna vel en hika þó ekki við að taka inn nýjar greinar. Það skal þó gert meðvitað, ekki endilega með því að leggja mikið fé og mannskap í verkefni sem ekki er þaulhugsað og sem passar hugsanlega ekki vel inn í efnahagslífið.

 

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1475177/?item_num=0&searchid=9476388cc79e0b77beb0b1e0395b1c33951adb10 


Opinber fjármögnun rannsókna og þróunar

Ríkisframlag til rannsókna og þróunar í ríkjum OECD er um 30% af allri fjármögnun þessara mála. Á Íslandi er þetta hlutfall um 40% í Bandaríkjunum um 30%. Hið opinbera í ríkjum OECD fjármagnar að meðaltali um 9% af útgjöldum fyrirtækja til rannsókna og þróunar. Á Íslandi er þetta hlutfall tæp 6% en í Bandaríkjunum, vöggu einkaframtaksins, um 14%. Hvers vegna fjármagna bandaríkjamenn svo mikið af rannsóknastarfsemi í landinu með opinberu fé, gæti maður spurt sig. Fyrst má setja þessi mál í annað samhengi. Í ríkjum OECD fjármagnar hið opinbera rannsóknir og þróun sem svarar 0,73%  af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall fyrir Ísland er um 1,03% en í Bandaríkjunum um 0,91% og gefur það upphæðir sem eru mjög háar, svo ekki sé meira sagt. Raunar hafa upphæðir hins opinbera í Bandaríkjunum dregist saman nýlega.

Íslensk stjórnvöld hafa jafnan verið fremur höll undir að rannsóknir og nýsköpun fái notið sýn enda er framtíða hagsæld í hverju landi háð rannsóknum og þróun en einnig að geta fært sér í nyt þekkingu frá öðrum. Þetta hefur skilað sér í að birtingar í ritrýndum tímaritum er með því hæsta sem gerist miðað við íbúafjölda. Það er ekki bara fjöldi greina sem ber vott um að rannsóknastarf sé framarlega hér á landi, það er talsvert mikið vísað til þessara greina. Því má segja að gæði íslenskra rannsókna og þróunar og áhrif þess starfs sé töluvert.

Hvernig sjáum við síðan ameríska skattpeninga sem varið er til rannsókna og þróunar nýtast við að auka hagvöxt og hagsæld. Til dæmis hefur fyrirtækið Apple fengið opinbert fé til að koma á framfæri áhugaverðri nýsköpun. Dæmi um þetta eru tilkoma músarinnar, viðmót notenda og snertiskjáir. Þessi nýsköpun hefur vaxið fram vegna opinberra framlaga, a.m.k. að einhverju leiti. Fyrirtækið Google þróaði, eins og kunnugt er, öfluga leitarmaskínu. Til þess fékk fyrirtækið um 4,5 milljóna styrk frá National Science foundation.

Það má nefna fleiri dæmi eins og laser, tansistorinn, hálfleiðara, míkróofna, samskipta gervitungl, farsímakerfi og intenetið. Bandaríkin hafa jafnan verið með einhverja nýsköpunarstefnu í gangi allt frá því Kennedy  lagði áherslu á geimferðir, Regan kom á hinu víðfræga kerfi um smáfyrirtækjastuðning (Small Business Innovation Research) sem síðan hefur verið tekið upp í fleiri löndum. Það má leiða líkur að því að ríkjum sé hollt að koma á stefnu um nýsköpun án þess þó að þau stjórni flæði fjár til nýsköpunar of mikið eða velji sigurvegara. Hinsvegar er það vissulega spurning hvort ríki ættu ekki að vinna að sömu markmiðum, t.d. þar sem þau eru sterk fyrir.

Ísland er með sterkan vísindagrunn en slakan hátækni grunn. Það virðist vera mjög lítil tengsl á milli vísinda og nýsköpunar. Hér þurfa menn að taka höndum saman og byggja hagkerfið á því sem við kunnum en ekki dreifa kröftunum og mikið. Það væri ekki vænleg framtíð að standa í vegi fyrir áhugaverðri nýsköpun og byggja framtíð okkar á greinum eins og ferðamennsku. Þegar nýsköpunarstefna og framkvæmd hennar í formi opinberra fjárveitinga er skoðuð ætti að veita þeim greinum brautargengi sem geta aukið verðmætasköpun í landinu. Við höfum séð of mikla áherslu á greinar sem skapa störf, oft til skamms tíma, í stað verðmætaskapandi nýsköpunar. Við skulum hafa í huga að opinber framlög til rannsókna og nýsköpunar eru ekki bara styrkir til tæknilegra úrlausna heldur samkeppnismál fyrst og fremst.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband