Breiðholtsbúar settu Íslandsmet í reipitogi
27.9.2016 | 10:48
Íbúar í Breiðholti með Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) héldu íþróttahátíð laugardaginn 24. september s.l. Þrátt fyrir rysjótt veður mættu á fimmta hundrað manns í íþróttahúsið við Austurberg. Þaðan fóru hópar fólks í gönguferð, hjólaferð og skokk. Að því loknu mættu allir í Austurberg.
Þar höfðu ÍR og fleiri skipulagt reipitog þar sem árgangar úr grunnskólunum í Breiðholt kepptu sín á milli. Auk þess kepptu foreldrar leikskólabarna í reipitogi. Skemmst er frá því að segja að um 400 manns tóku þátt í keppninni og er það hér með talið sem Íslandsmet í reypitogi.
Aðdragandinn að þessari íþróttahátíð var að nokkur samtök með ÍR í fararbroddi höfðu efnt il hlaupakeppni í hverfinu. Um 2.000 börn hlupu spretthlaup og öttu með því kappi við um 10.000 önnur börn í Portúgal, Spáni, Ítalíu, Tyrklandi og Króatíu. Ekki liggja fyrir úrslitin ennþá en þau eru til meðferðar hjá ítölsku samtökunum sem voru með í keppninni. En tekinn var tíminn af hverju barni og liggja fyrir miklar upplýsingar um árangurinn.
Hlaupið var samstarf milli Heilsueflandi Breiðholt og Feel Ewos (Fjölskyldan með í Viku íþrótta í Evrópu) en þar er markmiðið að auka hreyfingu fólks og þátttöku í íþróttum. Einnig eru heilbrigð hreyfing og rétt næring hluti af þessu. Þó íslensk börn og fullorðnir líka stundi hreyfingu eru brögð af því að fólk hreyfi sig allt of lítið og hefur það áhrif á líkamlegt atgervi fólks.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.