Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Höfum við efni á að reka samfélagið?

Það er ávallt gaman að hlusta á þá félaga á bítinu á Bylgjunni ekki minnst þegar Gissur slæst í hópinn. Venjulega er þetta á léttu nótunum hjá þeim. Þó koma stundum upp mál sem maður verður hugsi yfir. Þeir veltu upp spurningunni, í morgun 22. janúar, um það hvort við höfum við efni á að reka vestrænt samfélag, það virðist allt vera í uppnámi, stofnanir sveltar og hópar í samfélaginu í ýmiskonar klemmu. Á meðan hafa aðrir hópar komið sér vel fyrir þétt upp við kjötkatlana.

Það virðist nokkuð ljóst að strúktúr efnahagslífsins hefur breyst verulega á síðari árum. Landið sýnir afar jákvæða útkomu í öllum hagmælingum, sem við á annað borð nennum að taka þátt í. Á hinn bóginn getum við tæplega rekið heilbrigðisþjónustu og hvað þá séð um eldri borgarana okkar á mannsæmandi hátt.

Líklega hafa flestir séð að þessu tvö mál sem við nefnum eru mál sem hlaupa ekkert frá okkur. Okkur fjölgar bæði með fjölgun fæðinga og síðan kemur til aukinn fjöldi nýbúa. Það er í sjálfu sér öfundsverð staða þegar aðrar vestrænar þjóðir standa frammi fyrir fækkun fólks, eða að minnsta kosti afar hægri fjölgun.

Í þessu samfélagi koma æ alvarlegri raddir úr heilbrigðisgeiranum um að það kerfi sé komið að þolmörkum. En einhvernvegin gerist ekkert. Tækjabúnaður spítalana er að miklu leiti til kominn vegna fólks og samtaka sem safna fé fyrir þessum tækjum og gefa þau spítölunum.

Það hefur oft verið bent á það að íbúar landsins séu að eldast. Þeir verða vísast flestir hraustari og við betri heilsu en áður þó hefur verið bent á að heilbrigðiskerfið og öldrunarþjónustan þurfi að bregðast við þessari þróun. Pólitíkin er greinilega ekki mikið að fást við þessi mál, það eru önnur viðráðanlegri mál sem eiga hug þeirra. Fjörug umræða á sér síðan stað þar sem hver hæstvirt höndin er uppá móti annarri. Það má velta því fyrir sér hvort nokkur gengisfelling hafir verið stærri en sú sem hefur átt sér stað á hugtakinu hæstvirtur. Áður var það tákn um gagnkvæma virðingu á meðan nú virðist meiningin vera þveröfug.

En spurningin hvort við höfum efni á að reka þetta land er auðvitað mikið mikilvægari en allt annað. Vonandi fer af stað umræða um hana og tillögur um hvað sé til bragðs að taka. Við erum afar lítil þjóð með allar stofnanir sem er að finna hjá frjálsri og fullvalda þjóð. Sem betur fer erum við þó ekki með her sem við þurfum að greiða kostnað við. En hagkvæmin stærðar er líklega hlutur sem við munum aldrei kynnast. Til dæmi erum við með einn forseta að hverju sinni. Kostnaður við hann er eflaust viðráðanlegur. En hlutfallseiga ættu t.d. Bandaríkin að vera með eitt þúsund forseta. Til að halda áfram þessum samanburði ætti þeir að hafa 60 þúsund þingmenn og um 10 þúsund ráðherra. Ættum við kannski að átta okkur á þessu með smæðina og fara varlega í að byggja minnisvarða um ástkæra stjórnmálamenn og aðra velunnara þjóðarinnar. Ekki skal hér lagt til að gera ekkert, við erum í mörgu nokkuð dugleg. Við eigum duglegt íþróttafólk, sérfræðinga ýmsum sviðum, fræðimenn og margt fleira. Endilega gerum öllu þessu hæfileikafólki mögulegt að stunda sín störf og áhugamál.

Það væri áhugavert ef fleiri tækju undir spurningu þeirra félaga í Bítinu á Bylgjunni og leituðu svara við því hvort við höfum efni á að reka samfélagið okkar svo að allir þegnar landsins, ungir og gamlir, njóti virðingar.


Málefni aldraðra mættu fá meiri umræðu fyrir kosningar. Sjálfstæðisflokkur með skynsamar tillögur í málefnum aldraðra.

Fjárfestingar sem varða aldraða virðast ekki vaxa í takt við fjölgun þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eru Íslendingar á aldrinum 65 til 95 ára rúmlega 40 þúsund í fyrra. Samkvæmt mannaflaspám er áætlað að þessi hópur verði kominn upp í rúmlega 52 þúsunda árið 2020 eða meðalfjölgun um fimmtán hundruð á ári frá 2012. Hópurinn verður kominn í tæplega 62 þúsund árið 2025 en fjölgun á ári eru tæplega sautján hundruð manns frá því í fyrra. Það má því búast við að fjölgun einstaklinga á þessu aldursbili verði um 54% frá 2012 til 2025.

 

Ef erfitt er fyrir hið opinbera til að sjá öldruðum einstaklingum fyrir vistunarrými í dag má búast við miklum vandræðagangi eftir því sem tíminn líður. Stefnan er sú að reynt er að búa svo um fyrir að aldraðir geti verið heima hjá sér sem lengst og eru heilbrigðiskerfið og sveitarfélög með þjónustu í formi aðgengi að mat, dagvistun, heilbrigðisstarfsmönnum og fleira. En þegar tími er kominn til að komast í endanlegt vistunarrými, hefst mikil samkeppni. Þá er gjaldtaka ekki mjög gagnsæ en þeir einstaklingar sem eiga fé þurfa að greiða talsvert háar upphæðir til að fá inni í það vistunarrými sem er fyrir hendi.

Í málefnavinnu Sjálfstæðisflokksins á Landsfundi 2013 kemur meðal annars fram að stefnt sé að því að aldraðir hafi fjárhagslegt sjálfstæði og að skerðingar sem þeir hafi orðið fyrir hverfi. Þá er gert ráð fyrir að þeir fái þá vistun sem þeir þurfa en njóti þjónystu heima sé það kostur. Þá verði „vasapeningafyrirkomulagið“ afnumið að tafarlaust verði að hækkaðar þær greiðslur, sem einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafa til ráðstöfunar í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga. En um leið er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að það sé mögulegt og eftirsóknarvert fyrir aldraða að vera lengur úti á vinnumarkaðnum. Með því móti verða lífsgæði þeirra meiri. Fleiri mikilvægar tillögur koma fram í ályktuninni.

 

Það er mikilvægt fyrir fólkið í landinu og ekki minnst þá sem hafa náð háum aldri að valkostir séu fyrir hendi hvað varðar búsetu, atvinnumöguleika og fjárhag einstaklinga. Mikilvægt er að skapa grundvöll fyrir þessa valkosti með fjárfestingu í þeim innviðum sem tryggja öldruðum mikil lífsgæði. Þessi mál hafa of lengi verið í skugga annarra mikilvægra mála sem stjórnvöld þurfa að vinna bót á.

 


Stefna í menntamálum fyrir kosningar 2013

Af almennri umræðu um þessar mundir má ráða að áhersla á menntun hefur vaxið. Í kjölfar efnahagshrunsins töpuðust fjölmörg störf en þau störf sem eru að koma til baka eru ekki endilega þau sömu og töpuðust. Þörf er á að líta á menntamál sem langtíma fjárfestingu einstaklinga og samfélagsins sem á að skila sér með arði. Hvort sem sá arður er í formi efnahagslegra gæða, aukinnar þekkingar, menningar og lista eða annarra þátta sem auka velsæld og hagsæld.

 

 Íslendingar eiga nokkuð í land að standa jafnfætis þeim þjóðum sem standa fremst hvað varðar menntun. Þessu þarf að breyta og skal tekið tillit til allra þeirra aðila sem láta sig málið varða. Íslenskt atvinnulíf kallar eftir starfsfólki með tiltekna menntun. Ekki er í öllum tilfellum til fólk sem uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru fram. Þetta er þó misjafnt á milli fræðagreina. Segja má að aðgangur að fólki með félags- og hugvísindamenntun sé nokkuð betri en þeirra sem vinna að tæknimálum og viðfangsefnum sem byggja á menntun í raunvísindum.

 

 Lausnin liggur ekki endilega í að laða fólk í ákveðnar námsgreinar. Einstaklingar eru venjulega löngu búnir að marka sér framtíð áður en þeir standa frammi fyrir vali á námsbraut eða viðfangsefni. Það virkar ekki lofandi að lokka námsmanninn sem ætlar að verða sagnfræðingur inn í verkfræði þegar hann mætir uppí háskóla. Hann er búinn að undirbúa sig um árabil og verður líklegast ekki haggað. Það þarf að bjóða fólki valkosti í menntamálum með löngum fyrirvara. Þetta er ekki fjarri þeim boðskap sem Samtök iðnaðarins nefna í sínum málflutningi um menntamál.

 

 Í stefnu sinni um menntun og menningu tekur Sjálfstæðisflokkurinn fram að sveigjanleiki, fjölbreytni, ábyrgð og valfrelsi þurfi að fá að njóta sín í öllu menntakerfinu. Að nemendur þurfi raunverulegt val um skóla, einkarekinn eða á vegum hins opinbera enda fylgi fjárframlög nemandanum í gegnum öll skólastig. Þá er lagt til að sveitarfélög geti rekið framhaldsskóla enda passar það ágætlega inn í hvernig námsmenn flæða milli skóla. Hér er valfrelsi og gegnsæi í brennidepli enda líklegast til árangurs.

 

 En námsframboð þarf að taka mið af framtíðaþörf atvinnulífsins, hvort sem um er að ræða fyrirtæki landsins eða opinberar stofnanir sem hafa skilgreint hlutverk í efnahagslífi landsmanna. Menntakerfið þarf að sjá fyrirtækjum og stofnunum fyrir þeim starfskröftum sem kallað er eftir innan nokkurra ára. Breytingar á þörf fyrirtækja og stofnana fyrir starfsfólk með rétta færni,ermjög hröð. Því þarf að huga að réttu námsframboði með góðum fyrirvara.

 Það tekur vísast tíu til fimmtán ár að koma málefnum menntamála í mjög gott horf. Því er best að byrja á að endurskipuleggja menntunar og þjálfunarmál hið fyrsta. Það skal vissulega gætt að því að halda í það sem vel er gert nú og stíga varlega til jarðar við endurskoðun á menntakerfinu.


Atvinnumálastefna Sjálfstæðisflokksins, fyrir kosningar 2013

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins á þessu ári kom fram að „Sjálfstæðismenn vita að öflugt og gott atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins.  grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins er að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum“.

Atvinnulífá Íslandi hefur liðið verulega á tímabilinu frá hruni, en fyrir þann tíma höfðu ýmsar hindranir staðið í vegi fyrir starfsemi fyrirtækja. Má þar nefna óstöðugt efnahagslíf með háu vaxtastigi svo að eitthvað sé nefnt. Skattar höfðu verið lækkaðir verulega í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins en þeir hafa hækkað á síðustu árum. Forsendur atvinnurekstrar hafa þó ekki verið í öllu slæmar þar sem reglugerðarumhverfi og aðrir ytri þættir hafa verið í þokkalegu lagi.

 

 Í stefnu Sjálfstæðisflokksins eru jákvæðar hugmyndir um að bæta umhverfi og rekstrarskilyrði atvinnulífsins. Þar ber raunar hæst afnám gjaldeyrishafta sem hafa sett verulega strik í reikninginn varðandi alþjóðaviðskipti, en þau eru raunar forsenda fyrir því að atvinnulíf geti þrifist. Lækkun skatta og gjalda er hugmynd sem hefur mjög oft komið fram og kallar á skjótar aðgerðir. Það er kominn tími til þess að draga til baka hækkanir síðustu ára enda er atvinnulífið til þess fallið að skapa samfélaginu meiri arð með kröftugri starfsemi. Þá er efling einkaframtaks og nýsköpunar á stefnu flokksins. Hér hefur verið pottur brotinn varðandi nýliðun í atvinnuflóru landsmanna. Stoðkerfi nýsköpunar er nokkuð vel skipulagt og kemur mörgum nýjum fyrirtækjum til góða. Áherslan hefur þó verið allt of mikil á að hvetja til að nýjar hugmyndir verði að fyrirtækjum, frekar en að hvetja til þess að góðar hugmyndir verði að fyrirtækjum. Stoðkerfið nær alls ekki til allra fyrirtækja heldur eru valin út fyrirtæki eftir staðsetningu, starfsemi eða hver stendur að stofnun þess.

 

Að lokum má nefna hér stöðugt umhverfi fyrir atvinnulíf. Segja má að atvinnulíf hafi ekki notið stöðugleika í efnahags- eða stjórnmálalegu tilliti um áratuga skeið. Því er afar mikilvægt að þetta takist. Vitanlega þarf að taka margt með í reikninginn í þessum málum, svo sem þætti sem varða ytri skilyrði. Þetta kallar því á að þar þarf að sækja fram á öllum sviðum atvinnulífsins.


Tillögur Sjálfstæðisflokksins til að bæta hag lánþega húsnæðislána

Flestir, ef ekki allir flokkar hafa á stefnuskrá sinni, einhverskonar leiðréttingu hinna stökkbreyttu húsnæðislána. Eðlilega er þetta eitt af helstu málefnum heimilanna eftirefnahagshrunið sem leiddi meðal annars til óeðlilega mikillar hækkunar þessara lána. Vitanlega hefur verðtrygging lána verið umdeild enda hefur hún komið mjög misjafnlega niður á fólki um leið og lán þess hafa hækkað verulega án þess að það hafi sjálft haft nokkra möguleika til að sporna við því.

Ekki skal farið mörgum orðum um tillögur ólíkra framboða en flest byggja þau á að kröfuhafar hinna föllnu banka skuli verða af hluta hagnaðar sem rekja má til hrunsins. Ekki er óeðlilegt að kröfuhafarnir þurfi að gefa eftir eins og allir aðrir enda er um mjög háar upphæðir að ræða sem ekki er létt að sjá fyrir hvernig þeir ættu að leysa til sín.

Að leysa skuldavanda heimilanna með þessu móti virðist nokkur einföldun á flóknu máli. Til að efnahagslíf landsmanna, þar með talin skuldavandi og eignauppbygging, komist í viðunandi horf þarf margt að koma til. Undirstaðan af því að koma á eðlilegu ástandi er að byggja upp arðbært atvinnulíf. Þúsundir starfa hurfu í hruninu og koma aldrei til baka aftur. Það gerast hinsvegar önnur störf sem kalla á fjárfestingu, aðgang að starfsfólki með rétta færni, stöðugleiki í efnahagslífi og heppilegar forsendur til atvinnurekstrar. Önnur mál varða menntun og þjálfun fólks, eðlileg alþjóðaviðskipti, skattamál, nýtingu náttúruauðlinda á skynsaman hátt, til að nefna einhver dæmi.

Tillögur sjálfstæðismanna til að leysa skuldavandann og auka eignamyndun fólks og þar með sparnað, virðast um margt skynsamlegar. Þessar tillögur eru í meginatriðum í tveimur liðum: 1) lækkun á höfuðstól með skattaafslætti og 2) lækkun höfuðstóls lána með séreignarsparnaði. Hér er um að ræða í fyrra tilfellinu að allt að 40 þúsund króna á mánuði komi fólki til góða með sérstökum skattaafslætti sem allir hafa rétt á að fá. Þetta er um 480 þúsund krónur á ári sem er talsverð upphæð þó vísast megi deila um hvort þetta sé hin rétta upphæð. Hinsvegar má nota séreignasparnað til að greiða niður höfuðstól láns. Þetta er einnig skattfrjáls ráðstöfun fjár. Því má segja að um 4% launa fari inn á höfuðstól húsnæðisláns í kerfi sem stendur öllum opið.

Eins og staðan er nú er úttekt á séreignarsparnaði skattlögð.  Í staðinn fyrir að borga skatta af sparnaðinum nýtist hann beinlínis til að varðveita sparnaðinn áfram í formi eignar í fasteign. Þetta virðist ákjósanleg leið til að auka sparnað og einnig ráðstöfunarfé einstaklinga.

 


Innihald ræðu sem var flutt á framboðsfundi í Flataskóla í Garðabæ 4. Febrúar 2010

Það er ánægjulegt að sjá svo mikið af fólki hér í kvöld, en það segir mér að áhugi á prófkjörinu sé mikill. Við höfum séð dræma þátttöku í prófkjörum síðustu daga bæði í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem þátttakan var um þriðjungur. Við skulum vona að það verði ekki raunin hjá okkur.

Það skiptir miklu máli fyrir íbúa bæjarins að hafa áhrif á hvaða einstaklingar sjái um stjórnun bæjarmála á næsta kjörtímabili. Í prófkjörinu nú eru 12 einstaklingar 7 karlar og 5 konur og eftir að hafa kynnt mér áhugamál og áherslur meðframbjóðenda minna  og málflutning þeirra hér í kvöld er það nokkuð ljóst að valið getur bara tekist vel.

Frambjóðendur hafa greinilega notað stutta kosningabaráttu vel og lagt metnað í kynningarmál. Við sjáum þó greinilega að kostnaði við prófkjörsbaráttuna hefur verið stillt í hóf, enda tímanna tákn að fara varlega með fé.

Ástæðan fyrir því að ég bíð mig fram í þessu prófkjöri er einlægur vilji til að  takast á við þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir í dag. Efnahagsmálin varða okkur öll hafa tekið mjög miklum breytingum þannig að mikið og samstillt átak allra þarf að koma til. Þau mál sem eru til úrlausnar kalla á þátttöku allra, ekki bara örfárra manna og kvenna eins og landstjórnin er að reyna. Það er líka mikilvægt að fólk tali sama yfir flokkslínurnar eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt ítrekað á síðust dögum. En það þurfa auðvitað allir að vera á sama máli.

Ég hef í tvígang gert grein fyrir því hjá OECD hvað á okkur hefur dunið og tekið svo þátt í umræðum þar á bæ um hvernig atvinnulífið geti tekið sem best á við sífellt erfiðara rekstrarumhverfi með því að auka áherslu á rannsóknir og nýsköpun. En OECD hefur unnið mikið að málefnum efnahagsörðuleika í hruninu meðal aðildarlanda sinna.

Fyrst og fremst þurfum við að huga að fólkinu hvernig því gengur og  bregðast við því sem á bjátar. Garðabær þarf síðan að huga að atvinnuuppbyggingu sem tekur mið af skipulagi og umhverfi bæjarins. Eðlilegt er að vinna að uppbyggingu á og aðkomu fyrirtækja að einskonar nýsköpunarþorpi hér í bænum. Í Svíþjóð eru nokkur slík þorp til dæmis í Íslendingabænum Lundi í suður Svíþjóð þar sem háskólar og þekkingarfyrirtæki reka nýsköpunarþorpið Ideon.

Slík atvinnuþróun kallar á aðkomu sveitarfélagsins við að koma á hentugu umhverfi þar sem þörfum einstakra fyrirtækja og stofnana er þjónað. Með þessu móti er hægt að koma á öflugri atvinnustarfsemi sem er í góðri sátt við íbúa í bænum. Þar með má koma á sjálfbærri íbúaþróun og stöðugleika við góð skilyrði.

Þessháttar atvinnuþróun er  svo sem ekki alveg ný á nálinni. Þegar kraginn kringum Kaupmannahöfn var í uppbyggingu var hugað sérstaklega að sérstöðu bæjanna í þessum kraga. Þessir kragabæir, hvor sem þeir hétu Tostrup eða Lyngby og fleiri bæir eru raunar kallaðir Fingur Kaupmanahafnar hafa mjög sterka atvinnuþróunarstefnu sem miðar að því að fyrirtæki, skólar og íbúar séu í góðu jafnvægi og stuðli að iðandi mannlífi. Hér getum við lært eitt og annað.

Önnur áhugamál sem ég hef kynnt í þessari prófkjörsbaráttu eru skilvirk stjórnsýsla, ákvarðanataka bæjarbúa í mikilvægum málum og öryggi bæjarbúa.

Með skilvirkri stjórnsýslu á ég við að bærinn vinni opið að málefnum íbúana og hafi að leiðarljósi sparnað, markmið og vandvirkni. Garðabær er í fremstu röð hvað varðar góðan rekstur. Það þarf að leggja áherslu á að gera enn betur. Ekki má þó hvika frá þeirri grunnþjónustu sem bærinn veitir hvort sem um er að ræða unga eða aldna bæjarbúa. Það má geta þess að vefur bæjarins er umtalaður sem góð upplýsingaveita.

Ákvarðanataka bæjarbúa í mikilvægum málum, er svo sem snarlíkt því sem nokkrir aðrir frambjóðendur hafa í kvöld kallað „Íbúa lýðræði". Ég er svolítið var um mig hvað varðar það hugtak, en hugmyndin að baki því er góð. En á því sviði er Garðabær einnig í fremstu röð með því að vinna nú að stefnumótun á því sviði. Það er ekki stefnan sem ég hef áhyggjur af heldur framkvæmd hennar. Það vill stundum bregða við að skekkja læðist inn í þær skoðanir sem koma frá íbúum ef ekki er vandað sérstaklega til mála. Hér hef ég bæði áhuga og reynslu til að koma að málum.

Öryggi bæjarbúa er málefni sem mér er sérstaklega hugleikið. Hvort sem um er að ræða umferðarmál, löggæslumál, heilbrigðismál eða hvað það nú er sem getur leikið okkur grátt. Hér þurfa bæjarbúar og yfirvöld í bænum að vinna saman að því að gera bæinn þann öruggasta sem til er. Gott samstarf getur leyst mörg vandamál.


Þorvaldur Finnbjörnsson sækist eftir 4. sæti í prófkjörinu 6. febrúar

Þorvaldur Finnbjörnsson (f. 1952) flutti fyrst í Garðabæ árið 1965 ásamt systkinum og foreldrum þeim Finnbirni Þorvaldssyni og Theódóru Steffensen. Að loknu háskólanámi í Svíþjóð flutti hann aftur í Garðabæ og hefur búið þar síðan. Þorvaldur er giftur Önnu Árnadóttur  og eiga þau 4 börn og 6 barnabörn.

Þorvaldur vinnur hjá RANNÍS sem sviðstjóri Greiningarsviðs. Þar hefur hann unnið að málefnum rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Hann hefur setið í stjórn ýmissa verkefna og sjóða sem styðja við rannsóknir og nýsköpunarstarf. Þá hefur hann tekið þátt í samstarfi á norrænum og evrópskum vettvangi um atvinnuþróun.

Þorvaldur býður sig fram til setu í bæjarstjórn í fyrsta sinn. Hann hefur brennandi áhuga á málefnum sem varða íbúa bæjarins og bæjarfélagsins og þá sérstaklega atvinnuþróun. Einnig  eru skilvirk stjórnsýsla, þátttaka íbúa í ákvarðanatöku og öryggismál íbúa sveitarfélaga sérstök áhugamál.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband