Aðgengi að réttri færni til nýsköpunar bætir samkeppnisgetu og arðsemi atvinnulífsins

Færni til nýsköpunar er forsenda þess að atvinnulífið nái þeirri samkeppnisstöðu og arðsemi sem því er nauðsynlegt til að standa undir hagvexti í landinu. Hagvöxtur er forsenda þeirrar endurreisnar sem þörf er á. Nefnt hefur verið til sögunnar að fjárfestingar séu í lágmarki og þurfi að vaxa til að atvinnulífið nái flugi. Það er vitanlega rétt en það skal varast að laga einn flöskuháls sem atvinnulífið hefur verið að glíma við, bara til þess að næsti flöskuháls taki við.

 

Að atvinnulíf á Íslandi nái einhverjum styrk kallar á að heildarsýn ráði aðgerðum hins opinbera og atvinnulífsins sjálfs. Það þarf að takast á við aðföng þess í formi hráefna, þjónustu, starfsfólks með rétta færni, fjármagns og annarra þeirra ytri aðstæðna sem fyrirtækin starfa í. Einn þessara þátta er framboð og eftirspurn eftir fólki með rétta færni til nýsköpunarstarfa. Á meðan tækniþekking og notkun hennar vex hröðum skrefum verður til þörf fyrir aðgengi að starfsfólki sem getur tileinkað sér þessa tækni til að stunda nýsköpun. Nýsköpun er forsenda endurnýjunar í atvinnulífinu og hefur mikil áhrif á möguleika til að bæta samkeppnisstöðu og arðsemi.

 

Sjálfstæðisflokkurinn bendir á í ályktun Landsfundar 2013 um atvinnumál að stuðla þurfi að umhveri þar sem mannauður íslensku þjóðarinnar fær notið sín. Þjóðin er framtaksöm, hugmyndarík og vel menntuð. Tryggja þarf að svo verði áfram með öflugu menntakerfi sem vinnur í samstarfi við atvinnulífið með þarfir þess að leiðarljósi.

 

Það er þó ekki bara menntakerfið sem þarf að takast á við að auka færni starfsfólks í landinu. Að þessum málum kemur fjöldi annarra aðila og má þar nefna atvinnulífið sjálft. Greining á starfsemi fyrirtækja hefur leitt í ljós að skortur er á starfsfólki með vissa menntun. Rætt er um tæknimenntun og menntun á sviði raunvísinda. Þetta er vitanlega rétt en til að geta lagt mat á þörf atvinnulífsins fyrir færni í framtíðinni verður að líta heilstætt á þessi mál. Það má raunar segja að breið nálgun á þróun menntunar er nauðsynleg enda er hagkerfi landsins fremur flókið og kallar á ýmis konar færni.

 

Í Landsfundarályktuninni er einnig fjallað um nauðsyn á að auka framleiðni hér á landi. Það er forsenda hagvaxtar að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum, opinberum rekstri og nýjum fyrirtækjum. Nýsköpun skapar atvinnu, eykur skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Nýsköpun er þróun, ekki aðeins á tæknisviði heldur víðar.

 

Ljóst er að þróa þarf kerfi sem tekst á við að auka færni starfsfólks í atvinnulífinu. Fjölmargir aðilar þurfa að leggja hönd á plóg til að af því geti orðið. Varast verður að reyna að koma atvinnulífinu á flug með lausnum á mest áberandi vandamálunum heldur skal tekið á öllum þáttum sem geta leitt til þess að betri aðgangur sé að fólki með færni til að leysa flókin mál nýsköpunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband