Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Það er ekki létt að velja frambjóðanda til embættis forseta Íslands
31.5.2024 | 10:24
Laugardaginn 1 júní n.k. verður gengið til kosninga til embættis forseta Íslands. Allir frambjóðendur, sem eru 12 talsins, hafa keppst við að koma á framfæri eigin ágæti og þekkingu. Það er raunar alveg frábært að 12 manns séu að keppa um sætið. Vísast á fólk mismunandi mikið erindi í þá vegferð, sem framboð til forseta er. Sumir hafa reynslu, þroska og fjölmarga aðra kosti, aðrir kannski síður. En það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að væntanlegur forseti lýðveldisins verður líkast til með um fjórðung atkvæða. Það er rauna óþolandi að þetta hafi ekki verið lagað með breytingu á allra æðstu lögum landsins. En einn þessara frambjóðanda hefur í fyrri störfum sínum, annað hvort með því að fara ekki í breytingar á stjórnarskrá, sem hún hafði aðstöðu til, eða með því að gera ekkert í málinu, orðið til þess að staðan er eins og hún er.
Það hefur verið fróðlegt að horfa á viðtöl við frambjóðendur og kappræður í fjölmiðlum þar sem þeir hafa meðal annars, verið spurðir um hlutverk forseta og hvernig þeir muni koma að gagni í embætti forseta. Frambjóðendur hafa vopnast allskonar orðfærum sem þeir telja að kjósendur vilji heyra, hvort sem það sé í valdi forseta eða ekki að beita þeim. Þá telja þeir upp allskonar góða hluti um sig sjálfa, sem þeir líka eiga von á að kjósendum falli í geð. Málið er að forsetaembættið hefur afar fáum, en þó mikilvægum hlutverkum að gegna, þar sem einungis fáar fyrirhugaðar aðgerðir frambjóðenda passa inn.
Fjölmiðlar spyrja sífellt sömu spurninga og frambjóðendur hafa ætíð svipuð svör á takteinum. Svörin þróast vitanlega eftir því sem tíminn líður, en samt er fátt nýtt að gerast. Ég tek ofan fyrir frambjóðendum fyrir að nenna að standa í þessu fjölmiðlastappi, en vitanlega er það liður í að afla fylgis. Það hefur ekki farið mikið fyrir því að fjölmiðlar spyrji kjósendur um æskilega eiginleika forseta. Ég var að vonast til að geta kosið einstakling með mikla og víðtæka reynslu, góða framkomu og þannig persóna að á hann verði hlustað. Það á að vera hægt að bera virðingu fyrir þessum aðila og hann má ekki hafa of margar beinagrindur í skápnum sínum.
Til að finna frambjóðanda sem ég treysti fyrir húsbóndavaldinu á Bessastöðum notaði ég útilokunaraðferðina. Þegar ég hafði farið tvisvar í gegnum hópinn og útilokað alla, fannst mér eins og að fleiri hefðu mátt bjóða sig fram. Ég velti fyrir mér að kjósa taktiskt í þessu kosningum, en það gengur ekki heldur, því ég veit ekkert hvað það þýðir að kjósa taktískt. Þá er hægt að kjósa strategiskt, með fótunum og með veskinu. Þær aðferðir eru mér framandi líka.
Eins og skoðanakannanir standa nú eru tvær eða þrjár efstar og hníf jafnar, hvað varðar stuðning. Ég vil alls ekki tvær þeirra en sætti mig við þá þriðju. Vitanlega sætti ég mig við þann frambjóðanda sem fær flest atkvæði, en ég hef samt raðað þeim upp frá þeim frambjóðanda sem mér finnst minnst koma til greina til þess ég hef minnst á móti. Þó verð ég að viðurkenna að þetta er fremur lítið aðlaðandi aðferð, en leiðir ef til vill til þess að ég skila ekki auðu.
Sem betur fer búum við í lýðræðis samfélagi þannig að hver sem er getur einhvern tímann á æfinni boðið sig fram til forseta. Skilyrðin eru ekki mörg til að geta tekið þátt. Það virðist vera vaxandi sá fjöldi landa í kringum okkur þar sem þessi mál eru ekki svona einföld. Í afar stóru ríki í austri, voru tveir í framboði fyrir skömmu. Einum íslenskum fjölmiðli fannst annar þeirra frekar sigurstranglegur, og viti menn, hann vann svo kallaðar kosningar í því risastóra landi. Því ber að fagna að við búum í lýðræðisríki þar sem íbúar hafa mjög mikið frelsi. Ég vil þó hafna öllu hjali um lýðræðisveislu, sem að mínu viti er oftast um að ræða lokað partí í húsi við Háaleitisbraut á bakvið Kauphöllina.
Kjósendur hafa orðið varir við stressaða framkomu stuðningsmanna nokkurra frambjóðenda. Það kann að vera eðlilegt í hita leiksins, en kjósendur þurfa að fara varlega í að trúa öllu sem þeir lesa. Það eru samt atriði sem mætti upplýsa kjósendur um, eins og hver fjármagnar kosningabaráttuna fyrir hvern og einn frambjóðanda. Það virðist vera mjög mismunandi hvað frambjóðendur leggja í baráttu sína og getur verið um talsvert háar fjárhæðir að ræða. Þetta þurfa kjósendur að vita og eins hvort það séu hagsmunaaðilar á bakvið baráttu frambjóðenda. Það er næsta víst að frambjóðendur fara eftir lögum og reglum, en það geta verið þarna á ferðinn öfl sem kjósendum finnst ekki endilega í lagi að séu að sameinast um einn aðila.
Ég óska hverjum þeirra sem hlýtur kjör til embættis forseta Íslands á laugardaginn, góðs gengis og farsældar í embættinu. Vonandi fylkja sér allir landsmenn að baki nýs forseta.
Hvers vegna er Ísland með hæstu verðbólgu fyrir matvæli í ríkjum OECD?
18.1.2024 | 12:06
Á vef OECD er gefin upp verðbólga fyrir matvæli í OECD löndunum, fyrir nóvember á síðasta ári. Verðbólga í öllum ríkjum OECD er 6,7% og fór niður úr 7,4% sem hún var í október í fyrra. Verðbólga í OECD og Evru löndunum er svipuð og í OECD. Verðbólga matvæla á Íslandi á sama tíma er 11,1% sem er talsvert ofar en næsta land á eftir Íslandi. Í fyrsta sæti er sem fyrr Tyrkland með rúmlega 67%.
Maður velti fyrir sér hvers vegna verðbólga fyrir matvæli er svona mikið hærri á Íslandi en annarsstaðar. Þau lönd sem eru með hvað hæsta verðbólgu matvæla eru bæði utan ESB, eins og Ísland, en það eru Bretland og Noregur. Íslenskir neytendur hafa fundið verulega fyrir hækkunum á matvælum. Íslenskar landbúnaðarvörur eru að hækka verulega á sama tíma og bændur kvarta undan lágu afurðaverði. Hvert fara peningarnir sem neytendur greiða fyrir landbúnaðarafurðir? Því bændur virðast fá mjög lágt verð. Það er eins og að einhversstaðar sé rangt gefið. Það væri ekki úr vegi að óháðir aðilar með þekkingu á matvælamarkaði segðu okkur frá því hvernig átta þúsund krónu á kílóið fyrir nautasteik skiptist.
Það er í raun óþolandi að íslenskir neytendur þurfi að borga talsvert meira fyrir matvæli en aðrar þjóðir. Það er vísast flókið kerfi á bakvið það hvers vegna verðlagið er eins og það er. Ég kalla bara eftir að þetta verði skýrt fyrir neytendum.
https://www.oecd.org/sdd/prices-ppp/consumer-prices-oecd-01-2024.pdf
https://www.facebook.com/100064873504853/posts/781636684008775/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stjórnmálamenn, nauðsynlegir óvitar eða bjargvættir þjóðar.
28.6.2023 | 13:13
Upp á síðkastið hefur dunið á stjórnmálamönnum og -konum, ýmiskonar ádeila, gagnrýni og pirringur vegna mála sem þeir gera ekki, gera illa eða gera ekki eins og fólki hentar best. Þó Seðlabankinn sjái um að hækka vexti sem gerir fjármálastofnanir stærri og sterkari en áður og skuldarar eiga erfiðara um vika að lifa af launum sínum, þá eru það ætíð stjórnmálamenn sem eru þar að baki. Jafnvel þótt þeir segir Seðlabankann sjálfstæðan og taki ákvarðanir sjálfur. Til dæmi hefur Seðlabankinn einungis eitt verkfæri til að fást við verðbólguna, en það eru vextir. Þó eru til fjölmargar aðrar leiðir sem hægt er að fara. Þarna er það stjórnmálamennirnir sem með sannfæringu sinni setja lög. Þetta er ef til vill fólk eins og við hin, en þeir ráða sem sé öllu.
En hvað knýr stjórnmálamenn áfram. Það kann stundum að vera erfitt að sjá. Sumir sjá í þeim siðleysingja aðrir bjargvætti. Þeir skipta svo um ham fyrir kosningar en leggjast þó oft annað hvort í hýði eða reyna að fremsta megni að sinna athyglisþörf sinni. Flestum líður rosa vel í umhverfi alþjóðlegra stjórnmála þar sem þeir geta faðmað og látið vel að erlendum stjórnmálamönnum fyrir framan myndavélarnar, með betri prófílinn að linsunni. Fyrir þetta hljóta þeir verskuldaðan kjánahroll samborgarana.
Stjórnmálamenn eru fólk sem sækist eftir opinberum störfum og vill hafa áhrif á opinbera stefnu. Þeir hafa oft ólíka hvata og markmið, en þeir hafa líka persónueinkenni sem segja má að sameini þá að nokkru leiti. Þessi persónueinkenni geta verið eftirfarandi:
Karakter: Þetta er hæfileikinn til að laða að og hvetja aðra með sjarma, sjálfstrausti og jafnvel framtíðarsýn. Stjórnmálamenn með karakter geta tengst kjósendum og áunnið sér traust þeirra og stuðning.
Traust: Þetta er trúin á eigin getu og gildi. Stjórnmálamenn sem sýna öryggi í fasi, sýnast hafa vald, hæfni og trúverðugleika. Þeir geta líka tekist á við gagnrýni og áskoranir án þess að missa sig.
Ákveðni: Hér er rætt um þrautseigju og þann drifkraft sem þarf til að ná markmiðum þrátt fyrir hindranir og erfiðleika. Sumir stjórnmálamenn geta sigrast á áföllum og jafnframt fylgt framtíðarsýn sinni af ástríðu og festu.
Innsæi: Þetta er hæfileikinn til að skilja sjálfan sig en líka aðra. Þetta á líka við um flóknar aðstæður og málefni. Stjórnmálamenn með innsæi geta skilið ólík sjónarhorn, séð fyrir vandamál og tækifæri og tekið skynsamlegar ákvarðanir.
Sannfæringarkraftur: Hér er til umræðu hæfileikinn til að hafa áhrif á skoðanir og gjörðir annarra með rökfræði, vísan í tilfinningar og svipað. Stjórnmálamenn með sannfæringarkraft geta sannfært fólk um að styðja stefnu þeirra, tillögur eða málstað.
Hreinskilni: Þetta er viljinn til að prófa nýja hluti og tileinka sér nýjar hugmyndir. Stjórnmálamenn sem eru með opinn huga geta lagað sig að breyttum aðstæðum, lært af endurgjöf og nýtt sér lausnir.
Samviskusemi: Hér er átt við það að vera skipulagður, ábyrgur og duglegur. Samviskusamir stjórnmálamenn geta skipulagt fram í tímann, fylgt eftir málum og skilað árangri1.
Þetta eru nokkur af þeim persónueinkennum sem geta hjálpað stjórnmálamönnum að ná árangri á ferli sínum. Hins vegar eru þessir eiginleikar ekki meðfæddir. Hægt er að þróa þá og bæta sig með tíma og með reynslu, aukinni menntun og þjálfun. Þessir eiginleikar eru þó alls ekki nægjanlegir fyrir pólitískan árangur. Aðrir þættir eins og færni, þekking, gildi, tengslanet, auðlindir, heppni og samhengi geta einnig gegnt hlutverki í mótun pólitískra niðurstaðna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er stanslaus vaxtahækkun leiðin?
24.3.2023 | 14:46
Eftir tólf vaxtahækkanir i röð á stuttum tíma eru margir farnir að sjá að ríkisstjórn landsins er fremur snauð af hugmyndum um aðgerðir til að lækka verðbólgu. Vextir af lánum á Íslandi eru mjög háir, ekki síst sé tekið mið af öðrum löndum þar sem verðbólga er líka fremur há. Vextir í Bretlandi eru um 4,25%, Noregi 3%, BNA 4,75% svo dæmi séu tekin. En innlánsvextir virðast hafa gleymst í öllu þessu, eru mjög lágir, nema því meiri binding sé til staðar. Það er því að ske tilflutningur fjár frá þeim sem skulda húsnæðislán og þeirra sem eiga sparnað annars vegar og til lánastofnana hinsvegar.
Peningar eru teknir frá fólki og þeir gefnir bönkum og öðrum lánastofnunum í þágu lækkunar á verðbólgu sem þessir aðilar eiga lítinn þátt í að hafa skapað.
Það má teljast vera beinlínis mannvonska að taka sífellt meira fé af, sérstaklega ungu fólki, sem er að koma undir sig fótunum og gefa bönkum og öðrum lánveitendum. Líklega er fjármálaráðherra ekki endilega bara að seilast í vasa skuldara af mannvonsku einni, honum er kannski bara alveg sama. Árangurinn sem bent er á er að húsnæðismarkaðurinn sé í hjöðnun, þó líklega megi segja að hann sé botnfrosinn. Þetta er ekkert sniðugt þegar eftirspurn er fyrir hendi, eftirspurn sem bara frestast og á vísast eftir að springa út. Virkar ekki sérlega góð stefna.
Það eru til ýmsar leiðir til að vinna bug á verðbólgu. Dæmin hér á eftir hefur verið skrifað um, rætt um og aðferðir stundaðar um árabil. Hér er ekki verið að finna upp hjólið aftur, bara benda á fleiri valkosti en að níðast á þeim sem geta illa svarað fyrir sig og hirða af þeim fé.
Með peningastefnu getur Seðlabankinn notað tæki eins og vaxtaaðlögun, bindiskyldu og aðgerðir á markaði til að hafa áhrif á peningamagn í umferð til að vinna bug á verðbólgu. Með því að hækka vexti getur Seðlabankinn dregið úr peningamagni í umferð, gert það dýrara fyrir fyrirtæki og neytendur að taka lán og eyða og lækka þannig eftirspurn og verð. Þetta þekkjum við bara allt of vel. Fjármálaráðherra sem fer með peningamál í landinu hefur ákveðið að ein stofnun, Seðlabankinn, skuli vinna bug á verðbólgu. Ráðherrann hefur heimilað bankanum að nota eitt verkfæri, breytingar á vöxtum, til þessa. Seðlabankastjóri veit að þetta er ekki besta leiðin, en hann er samt látinn taka á sig ábyrgðina af öllum þeim vandamálum sem skapast. Ráðherrann er ekki ráðherra af því að hann er ráðalaus. Hann virðist sleppa frá allri ábyrgð.
Með fjármálastefnu getur ríkisstjórnin notað ríkisfjármálin til að vinna á verðbólgu. Dæmi eru að draga úr ríkisútgjöldum eða hækka skatta. Með því að draga úr ríkisútgjöldum getur ríkið dregið úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu í hagkerfinu og þar með minnkað verðbólgu. Á sama hátt getur hið opinbera með því að hækka skatta minnkað ráðstöfunartekjur einstaklinga sem getur minnkað bæði eftirspurn og verð. Þetta hefur okkar ríkisstjórn ekki notað. Það er allt á blússandi fullu og hækkanir á þjónustu og sköttum rífa verðbólguna enn meira upp. Spurning er þegar hvort sem er sé verið að taka peninga af fólki hvort það sé ekki ill skárra að það renni í ríkissjóð sem gæti minnkað sínar skuldir og þar með vaxtagreiðslur, frekar en að afhenda þetta bönkum. Enginn kostur er þó góður.
Á framboðshliðinni getur ríkisstjórnin innleitt aukið framboð á vörum og þjónustu í hagkerfinu, sem getur lækkað verð. Þetta getur falið í sér fjárfestingu í nýrri tækni, menntun og innviðum, sem og að draga úr regluverkinu og draga úr aðgangshindrunum. Þetta gæti tekið tíma en mætti byrja á strax til að það skilaði sér til lengri tíma. Tækni, menntun og innviðir eru tískuorð í samfélaginu en sennilega ekki mikið meira en það. Það skal þó ekki gert lítið úr starfi fyrirtækja á sviði nýsköpunar. Sú starfsemi hefur oft skilað mjög miklu.
Með launa- og verðlagseftirliti geta stjórnvöld beitt launa- og verðlagseftirlit til að takmarka getu fyrirtækja til að hækka verð og starfsmanna til að krefjast hærri launa. Þó að þetta geti skilað árangri til skamms tíma má gera fastlega ráð fyrir að langtíma afleiðingar verði frekar neikvæðar. Þetta gæti alveg eins dregið úr hvata fyrirtækja til að fjárfesta í og stunda nýsköpun. Þetta er líkleg ekki hentug leið þar sem búast mætti við að aðilar vinnumarkaðarins tækju þessu ekki vel. En sennilega er það vinnumarkaðskerfi sem við búum við algjör steypa. Laun hækka langt fram yfir hagvöxt en stjórnvöld snúa á launþega með að leyfa verðbólgu að vaða uppi en lappa svo uppá vesalings krónuna svona rétt á meðan.
Ríkisstjórnin getur beitt gengismálum til að stjórna verðbólgu með því að aðlaga verðmæti aumingja krónunnar að öðrum gjaldmiðlum. Með því að fella krónuna má bæta samkeppnishæfni útflutnings og gera innflutning dýrari. Það gæti dregið úr eftirspurn eftir innfluttum vörum og þjónustu og aukið eftirspurn eftir innlendri vöru og þjónustu og þar með dregið úr verðbólgu. Gengisbreytingar hafa verið notaðar gegnum tíðina til að auka í og draga úr getu útflutningsgreina og innflutnings greina. Ríkisstjórnir hafa í gegnum tíðina varið tilvist krónunnar til að gera einmitt þetta.
Fáir hafa minnst á gamla góða aðferð sem gæti dregið úr verðbólgu án þess að peningar séu teknir af fólki og afhentir lánastofnunum sem hafa ekkert til saka unnið en að þurfa að taka á móti öllu þessu ókeypis fé. Það er að hvetja fólk, eða öllu heldur skylda það til að spara. Sparnaður er svo sem étinn upp af verðbólgu. Líklegt er að fólk vilji frekar leggja í skyldusparnað sem rýrnar svolítið, heldur en að tapa peningum á einu bretti. Formaður VR hefur nefnt þetta sem dæmi um leið til að vinna á verðbólgu.
Það veit auðvitað hver hugsandi maður að engin ein aðferð getur unnið á verðbólgu, eins og dæmin sýna, heldur þarf að beita fleiri aðferðum samtímis til að ná fram lækkun. En það er vissulega ekki líklegt til árangurs að hækka vexti endalaust enda sést það að verðbólgan er ekkert að lækka, nema síður sé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kosningaloforð, hverjar hafa verið efndir þeirra.
21.9.2021 | 16:25
Nú styttist í kosningar og flokkarnir birta metnaðarfull loforð um hvað þeir ætlast fyrir á komandi kjörtímabili. Stundum er þetta í formi stefnu flokkana, oft svolítið óskýrrar stefnu þó þeir séu vísast allir að vinna almenningi til heilla.
Þó vitað sé að kosningaloforð eiga ekki alltaf greiða leið inn í stjórnarsáttmála þeirra flokka sem ná að mynda ríkisstjórn. Þannig er að ef þú kýst einn flokk, færðu að minnsta kosti tvo i kaupbæti. Flokka sem þú kannski vildir ekki með að gera. Þegar þessir þrír eða fleiri fara að prjóna saman aðgerðaáætlun fyrir næstu fjögur árin verða kosningaloforðin eftir í kassa uppi í hillu á skrifstofum flokkanna til að nota aftur fyrir næstu kosningar.
Einhvern veginn virkar kosningabaráttan vera svolítið í skötu líki að þessu sinni. Nóg er auglýst og auglýsingastofur hafa verið á fullum snúningi að búa til upphrópanir sem ættu að falla sem flestum í geð. Allir eða að minnsta kosti flestir flokkarnir hreiðra um sig í miðjunni á skala stjórnmálanna. Auðvitað eru flokkar sem telja sig vera félagslega sinnaðir að hnýta í markaðsinnaða flokka. Þó er erfitt að skilja af hverju það eru 10 flokkar í framboði að lofa næstum því sama. En þetta er að þakka að við búum við lýðræði þar sem réttur fólks er öllu meiri en fólk víða um lönd má búa við. Ég vil ekki ganga svo langt að tala um lýðræðisveislu eins og feluleikjaflokkarnir.
En fínt er að fá stefnu stjórnmálaflokkanna í gegnum allskonar miðla. Það má telja næsta víst að ef ekki væru loforð og stefnur hefðu stjórnmálaflokkar ekki annað að gera en að níða skóinn hver af öðrum, eins og þeir gera vissulega alltaf. Minna fer fyrir að skoða hvað flokkarnir hafa EKKI verið að gera. Hvers vegna þeir ræða ekki sum mál eða svara með einhverskonar útúrsnúningi, eins og: Íslandi er betur borgið utan Evrópusambandsins en innan eða eldri borgarar hafa fengið mjög mikla hækkun á sínum lífeyri. Svo er okkur bent á skattalækkunarreiknivél 20% flokksins. Slá inn laun og fjölda barna. Pæng skattar þínir hafa lækkað um 50% frá 2013. Engar forsendur, ekkert hvað lækkaði, hvað það var og hvernig það verður, bara pæng. Er e.t.v. verið að kenna kjósendum ógagnrýna hugsun. Það þarf ekki því gagnrýnin hugsun er hluti af lífinu í lýðræðisríki.
Það eru mál sem flokkarnir ættu að hafa á stefnuskrá sinni eins og opið Ísland, burt með fákeppnina, í hafsauga með hagsmunahópa og samtök, og margt fleira. Það má mynda sér skoðun á því hvað stjórnarflokkarnir hafa gert og hvað þeir hafa ekki gert. Líka hvað þeir hefðu átt að hafa gert. Það ætti ekki vera leyfilegt að slá ryki í augun á kjósendum og fela menn og málefni á bak við trúnað. Einhver vitur maður sagði einu sinni: gæti ekki verið að Ísland væri enn betur statt ef við tækjum upp annan gjaldmiðil eða festum þann gamla við alvöru pening.
Það er nefnilega málið, það eru aldrei gerðar úttektir á til dæmis stofnunum, málefnum og viðfangsefnum. Stjórnmálamenn vita allt um þessi mál, enda endanlegar klárt fólk á ferðinni. Hér þarf að bæta úr. Það er hægt að svara mörgum spurningum um efnahagsmál, félagsmál og allskonar mál með því að gera úttektir. Það er meira að segja ekki alveg víst að Persónunefnd væri á móti því. Vitaskuld eru gerðar úttektir í einhverju litlu mæli. Eflaust koma einhverjar fyrir augu almennings á meðan öðrum er stungið niður í skúffur.
Svo eru það stjórnmálamennirnir okkar, en þar kennir margra grasa. Þeir birtast á fjögurra ára fresti, oft skemur, með bros á vör, hoppandi út um víðan völl, jafnvel í loftkastölum og sýna að þeir eru fjölskyldufólk með áhugamál eins og aðrir. Þeir ættu að geta stundað mörg áhugamál enda hafa þeir fengið góða launahækkun á kjörtímabilinu og flokkar þeirra stórar upphæðir að reka starfsemi sína. Líklega eru þessar hækkanir launa og framlaga, ekki fjármunir sem gætu leyst vandann til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Spurning en bara hvort þingmenn og flokkar þeirra eiga þessa viðbótar peninga skilið. Það má vel efast um það. Hugsanlega mætti draga úr fátækt í landinu, auka úrræði fyrir börn og unglinga með geðraskanir, eða bara borga niður skuldir. Það er ekki hugmyndin að leggja drög að næstu fjárlögum hér en rétt væri að staldra við og hugleiða hvort alltaf sé rétt gefið og hverjum. Nú er bara spurning hvort næsta stjórn eða stjórnarandstaða útbýr mælaborð þar sem verður stöðug eftirfylgni með kosningaloforðum.
Er Ísland verst í bekknum varðandi aldur ráðherra?
8.9.2021 | 13:45
OECD hefur birt upplýsingar um meðalaldur ráðherra í ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Lægstur meðalaldur er um 45 ár á Íslandi, vel rúmlega 60 ára í Japan en meðalaldurráðherra í OECD er um 53 ár. Á meðan Íslendingar fagna fjölbreytileikanum er einnig þörf á að fagna þátttöku ungs fólks í áhrifastöðum. Þetta unga fólk þarf ekki endilega að byrja á toppi í upphafi ferlis síns. Þess í stað mætti reyna að fá einhverskonar þverskurð af þjóðinni til að standa við stýrið. Konur eru að nálgast 40% af þingmönnum og 46% kvenna sitja ráðherrastólum, eins er líklegt að þeim fari fjölgandi eftir komandi kosningar og því ber að fagna. En þingmenn eru vitanlega einstaklingar með mismunandi eiginleika, skoðanir og áhugamál.
Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um það hverjir séu kostir og gallar við mismunandi aldur ráðamanna eins og ráðherra. En þá staldrar maður við hvað felst í meðalaldri, en meðalaldur er samanlagður aldur deilt með fjölda. Því segir meðalaldur elsta og yngsta ráðherrans svo sem ekkert um raunverulegan aldur og hvaða ályktanir megi draga að reynslu viðkomandi og hæfileika.
Almennt er sagt að til að ná tökum á flóknu starfi taki það viðkomandi nokkur ár. Því skýtur svolítið skökku við að til eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem eru rétt um þrítugt. Einstaklingar í ráðherrastólum á þessum aldri hafa sýnt það og sannað að reynsla þeirra þvælist ekki mikið fyrir þeim því orð þeirra og athafnir benda til hvatvísi og steigurlætis. Það vekur furðu að afar litlar kröfur eru gerðar til fólks sem hefur öll þessi völd. Þessir einstaklingar eru æðstu stjórnendur í sínum stjórnmálaflokki sem veldur mörgum áhyggjum, í ljósi reynsluleysis þeirra.
Eldri og reyndari ráðherrar sýna ekki endilega að með reynslu sinni og þekkingu á málefnum liðandi stundar standi þeir sig svo sem mikið betur. En þeir kunna á kerfið á þann hátt að kvíðvænlegt er að sjá. Því þeir geta haldið málum í heljargreipum ár eftir ár þannig að þau komast ekki í umræðu, sýnist þeim svo. Dæmi um svona mál eru, fiskveiðistjórnunarmál, Evrópuaðild, gjaldmiðillinn, stjórnarskráin og heilbrigðismáli, hvað sem fólki kann að finnast um þau mál.
Niðurstaðan af þessu er því að best er að velja fólk til setu í ríkisstjórn sem líkist einhverskonar þverskurði af þjóðinni sem hefur samt ekki setið of lengi. Einnig að mjög ungt fólk hefur ekki öðlast yfirsýn eða reynslu til að taka þátt í ríkisstjórn, enda er sú stofnun ekki hentug til uppeldis fyrir stjórnmálamenn. Til þess eru aðrar stofnanir heppilegri.
Stafræn opinber þjónusta ekki framsækin
21.10.2020 | 14:27
Efnahags- og framfara, samvinnu stofnunin (OECD) hefur gefið út svokallaða Starfræna vísitölu hins opinbera. Um er að ræða fyrstu tilraun OECD til að yfirfæra Stefnumótun í Stafrænni stjórnsýslu í samanburðarhæfan búning. Þetta er gert í því skyni að sjá hvernig aðildarríki hafa innleitt tillögur OECD á svið Rafrænnar opinberrar stefnu og hvernig umbætur hafa átt sér stað á þessu sviði. Upplýsingar eru fengnar úr Könnun um Stafræna stjórnsýslu og er hugmyndin að styrkja aðildarríkin í að marka stefnu á þessu sviði.
Gefin hefur við út skýrsla sem kynnir röðun landa eftir niðurstöðuna um helstu stefnumál. Þar eru einnig nákvæmar greiningar á niðurstöðum aðildarríkja um hvert og eitt af hinum sex mælivíddum sem OECD hefur kynnt á sviði starfrænnar stjórnsýslur.
Hverjar eru þá þessi sex mælivíddir?
- Stafræn hönnun er þegar stjórnun og nýting á stafrænni tækni er notuð til að endurhugsa og endurvinna almenna ferla, einfalda málsmeðferðir og til að skapa nýjar samskiptaleiðir og bæta samskipti við hagsmunaaðila
- Gagnastýring þegar metin eru gögn sem stefnumótandi og aðgengileg, með því er komið á aðgengi við stjórnun, deiling og endurnotkun bættrar ákvörðunartöku og veitta þjónustu.
- Vettvangur, en þegar honum er beitt, notast stöðlum og þjónusta til að aðstoða aðila til að einbeita sér að notkun á opinberri þjónustuhönnun og afgreiðslu hennar.
- Venjulega aðgengileg þegar gögn frá opinberum aðilum og stjórnvöldum, eru aðgengileg almenningi með takmörkunum þó innan marka gildandi laga og í jafnvægi með hagsmunum þjóðar og almennings.
- Notendastýring þegar haft er í huga þarfir fólks og aðgengi til að þróa ferla, þjónustu og stefnu, en einnig til að taka upp aðferðir sem gerir þetta mögulegt.
- Fyrirbyggjandi þegar gert er ráð fyrir þörfum fólks og bregst hratt við og forðast þörf fyrir umfangsmikið umfang þjónustu.
Niðurstöður samburðar á milli landa sýna vænlegar en þó hóflegar framfarir í átt að ö0flugum starfrænum aðferðum við stjórnun ríkja og hvetja stjórnvöld til að efla þá viðleitni að nota starfræna tækni og gögn fyrir notendastýrða opinbera þjónustu.
Öllum þessum mælivíddum er gefið gildi og á meðan Danmörk er í fjórða sæti og Noregur í 12. sæti, þá eru Finnland, Ísland og Svíþjóð í öftustu sætunum. Því er ljóst að þrátt fyrir talsverða vinnu er Ísland verst í bekknum í stafrænni opinberri þjónustu. Það mætti etv. gera betur.
http://www.oecd.org/gov/digital-government/oecd-digital-government-index-2019.htm
Baráttan um störfin
5.3.2019 | 11:48
Efnahagsstaða hverrar þjóðar byggist á því að hafa nægt framboð starfa sem standa undir góðum lífskjörum. Að skapa ný störf og og stuðla að frumkvöðlahugsun ásamt því að móta heildstæða atvinnu-, mennta- og vinnumarkaðs stefnu ætti að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda, samtaka launafólks og atvinnurekenda. Stjórnendur framhaldsskóla og háskóla þurfa einnig , með meira afgerandi hætti, að taka þátt í mótun atvinnulífs og hugsa út fyrir aðalsnámskrá. Nemendur vilja ekki bara útskrifast, þeir vilja menntun sem leiðir til atvinnutækifæra. Því er mikilvægt að yfirvöld skólamála sjái fyrir þær breytingar sem verða á kröfum atvinnulífs til færni og miði námsframboð að því.
Skýrari stefnu er þörf þegar horft er til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi. Ljóst er að efla þarf færni í raungreinum og fjölga tæknimenntuðu fólki ef íslenskt efnahagslíf á að þrífast á 21. öldinni og íslenskur markaður að vera samkeppnisfær.
Stefnan byggir meðal annars á því að við spyrjum okkur hverskonar samfélag við viljum vera. Viljum við vera hálauna eða láglaunasamfélag. Við höfum að nokkru leiti valið okkur leið sem láglaunaland á meðan áhersla á að skapa hálaunastörf hefur ekki verið fylgt eftir. Þá ber að fagna orðum forráðamanna ríkisstjórnarinnar að stefnumótun í málefnum rannsókna og nýsköpunar sé á dagskránni. Hér hefur verið slegið slöku við um árabil. Stefna í málefnum rannsókna og þróunar hefur vissulega verið mörkuð en í málefnum nýsköpunar hafa frumkvöðlar og fyrirtæki búið við lítinn skilning stjórnvalda. Bent er á að sjóðir í eigu landsmanna séu góður hvati til nýsköpunar og sköpunar verðmætra starfs. En þess má geta að þessir fáu sjóðir eru litlir og afar takmarkaður hvati í samkeppni við önnur lönd. En það er þó ekki þörf á að vanþakka það sem þó er gert. Mælingum að aðföngum til rannsókna og nýsköpunar hefur varla verið gefinn gaumur síðustu 10 árin, sem þýðir að við mælum þessa þætti í ótímabæru gorti stjórnvalda. Slakar mælingar og þar með birting upplýsinga um rannsóknir og nýsköpun standa íslenskum vísindum og nýsköpun fyrir þrifum.
Ísland er hluti af alþjóðlegu samfélagi þar sem hörð samkeppni ríkir um góð störf og sú samkeppni mun fara vaxandi ef tekið er mið af þróun atvinnutækifæra hér á landi undanfarin ár. Þegar horft er til stöðunnar á vinnumarkaði á heimsvísu kemur fram áhugaverð tölfræði. Af um það bil sjö milljörðum einstaklinga í heiminum í dag er talið að um það bil þrír milljarðar einstaklinga skapi verðmæti af einhverju tagi eða eru að leita að slíku starfi þar sem það er hægt. Vandinn felst í því að einungis eru um 1.2 milljarða heilsdagsstarfa á vinnumarkaðinum á heimsvísu sem þýðir að hugsanlega vantar 1.8 milljarða starfa fyrir atvinnubæra einstaklinga og/eða í atvinnuleit. Þetta samsvarar því að um það bil 25% af fólksfjölda jarðarinnar eru að leita sér að starfi. Barátta um störf þarfnast allra mögulegra úrræða sem hægt er að grípa til.
Á Íslandi var staðan árið 2018 sú að atvinnuþátttaka var um 76%, hlutfall starfandi 72% og atvinnuleysi 5,5,%.
Skortur á störfum, sem standa undir góðum lífskjörum, hefur löngum verið ástæða hungurs, mikilla fólksflutninga, illrar meðferðar náttúruauðlinda, öfga, og breikkandi bils á milli ríkra og fátækra. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda hvar sem er í heiminum er að taka á þessu vaxandi ójafnvægi í heiminum og takast á við nýtt verkefni þ.e. að skapa störf. Árið 2010 gerði Gallup könnun sem bar heitið; The state of global workplace: A worldwide study og employee engagement and wellbeing. Megin niðurstöður þessarar könnunar eru eftirfarandi:
- Framhaldskólar, tækniskólar og háskólar eru lykiluppspretta fyrir sköpun starfa.
- Stærsta vandamálið sem alheimurinn horfist í augu við er takmarkað framboð starfa.
- Frumkvöðlun er mikilvægari en nýsköpun.
- Brottfall í skólum er kostnaðarsamt hverju samfélagi.
- Störf verða til þar sem nýir viðskiptavinir birtast.
- Útflutningur er undirstaða velgengni.
Ef þessi samantekt er sett í samhengi við íslenskan veruleika þá er ljóst að stjórnvöld á Íslandi komast ekki hjá því að taka þátt í baráttunni um að efla atvinnutækifæri hér á landi þar sem að öðrum kosti munu lífskjör hér á landi versna í alþjóðlegum samanburði. Meiri verðmætasköpunar er þörf til að hægt sé að búa við þau lífskjör sem við teljum ásættanleg. Ljóst er að hlúa þarf að frumkvöðlum fólki sem skapar verðmætan rekstur og störf út frá hugmyndum. Hlúa þarf að þætti frumkvöðlahugsunar hjá núverandi kynslóð, börnunum okkar. Annars er nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi tilviljanakennd og jafnvel háð heppni. Ef við orðum þetta á annan hátt ,,Góðir viðskiptamenn skipta meira máli en nýjar hugmyndir. Við erum að renna út á tíma ef bíða á eftir góðu augnabliki eða heppninni. Átaks er þörf til að fjölga störfum með auknum umsvifum í atvinnulífinu. Er staðan sú að hlúð er meira að nýsköpun heldur en frumkvöðlastarfsemi?
Við þurfum öfluga leiðtoga bæði innan ríkistjórnar og í viðskiptalífinu því þeir munu hafa mótandi áhrif á atvinnulíf borga og sveitarfélaga. Hægt er að leiða hugann að tveimur borgum sem staðsettar eru í sitthvorum heimshlutanum: Singapore og Havana. Lee Kuan Yew (staða hans, þjóðarleiðtogi, stjórnmálamaður?) lagði grunnin að Singapore og Fidel Castro (þjóðarleiðtogi) lagði grunninn að Havana um það bil á sama tíma og við álíka aðstæður. Singapore er í dag eitt af framsæknustu nútímasamfélögunum með sterkt efnahagslífi og framboð á störfum. Líta má á Havana sem efnahags- og samfélagslegt slys. Ein borgin virkar en hinn virkar ekki. Munurinn á þessum borgum felst í sýn og stjórnun leiðtoga þeirra sem lögðu grunnin í upphafi.
Baráttan um störfin milli 1970-2000 breytti öllu í heiminum, við lesum ekki um það í sögubókum en við getum lært margt af þessu tímabili. Allt hófst þetta með því að í Kaliforníu söfnuðust saman frumkvöðlar sem byggðu upp tækniiðnað sem leiddi til þess að milljón starfa urðu til. Lærum af þessum tíma, hvað fór þar fram sem gerði það að verkum að milljón starfa urðu til/sköpuðust.
Það sem einkennir samkeppnishæfni ríkja er að þau nýta tækni, menntun, innviði, efnahagsstjórn og fjárfestingaumhverfi og byggja á þessum innviðum. Ein vinningsleiðin er sú að byggja á sterkum innviðum og setja meira hugvit en keppinautarnir í það sem búið er til í hverju landi.
Íslenskt atvinnulíf þarf að búa til fleiri og betri störf og til þess eru margir möguleikar. Sækja þarf enn betur fram á sviði iðnar og tækni og mennta og útskrifa einstaklinga sem geta nýtt þau tækifæri sem þegar eru fyrir hendi og skapað enn fleiri tækifæri. Því miður er það svo í dag að sá algengi misskilningur er fyrir hendi að iðn- og tækni menntun sé ekki álitin nægilega góð menntun og því sækja of fáir hæfileikaríkir einstaklingar í nám á þessu sviði. Þessu viðhorfi þarf að breyta. Til að upplýsa betur um stöðu iðn- og tæknimenntunar hér á landi þá eru það um 15% háskólanema sem útskrifast með raunvísinda- og tækni menntun en sambærileg tala er 21% í Evrópu. Það er mikilvægt að mennta fólk á háskólastigi en við þurfum líka fólk sem lærir að vinna en lærir ekki bara vísindi og kenningar. Menntakerfið í Finnlandi er álitið með þeim betri í heiminum en samt er atvinnuleysi ungs fólks þar um 19%. Þetta er fólkið sem á að byggja upp framtíð Finnlands, hvað ef það fær ekki tækifæri til að vinna og læra nýja færni. Þar hefur atvinnuleysi ungs fólk verið um 20%.
Mikilvægt er að standa sig vel í samkeppni sem á sér stað milli landa. Til að svo geti orðið þarf að huga að lífskjörum landsmanna og starfsumhverfi þeirra. Það þarf að skapa verðmæti og þar með landsframleiðslu sem getur leitt til þessara þátta. Samkeppni er um ný störf. Starfskjör frumkvöðla ráða þarna miklu um. Þeir skapa ný störf sem þá leiða til verðmætasköpunar og arðsemi. Það er í raun samkeppni um hvert nýtt starf sem kemur til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.3.2019 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framlölg til heilbrigðismála í 11% af VLF
20.11.2017 | 11:04
Mikil umræða hefur verið um útgjöld til heilbrigðismála í aðdraganda kosninga en einnig á síðustu árum. Krafa hefur verið um 11% framlög til þessara mála af vergri landsframleiðslu. Raddir hafa heyrst um að í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við sé hlutfall útgjalda af heilbrigðismálum einmitt 11%.
Meðal framlag til heilbrigðismála í OECD ríkjunum er um 9% árið 2016 en á Íslandi um 8,6% eins og sjá má í úttekt OECD Health at a Glance 2017 (http://www.keepeek.com/Digital-Asset-Management/oecd/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-2017_health_glance-2017-en#page1) á blaðsíðu 137.
Spurning er hvað er framlag en OECD skiptir framlögum í opinber framlög og frjáls framlög af ýmsu tagi. Opinber framlög til heilbrigðismála á Íslandi voru um 7% af VLF árið 2016 á meðan þetta framlag var rúmlega 6% að meðaltali hjá OECD. Hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við er opinbert framlag til heilbrigðismála um 8%. Raunar er það svo að önnur framlög til heilbrigðismála en hin opinberu, eru jafnan fremur lægra hlutfall af heildinni hjá þeim sem fá hvað mest.
Eflaust hafa allir sína skoðun á því hve hátt framlag ætti að vera til heilbrigðismála. Þeir sem best þekkja segja að heilbrigðiskerfið sé komið að þolmörkum. Það er vissulega mjög alvarleg staða en spurning er hvert ætti framlagið að vera? Hæsta opinbera framlag til heilbrigðismála er í Þýskalandi eða rúm 9% miðað við 7% á Íslandi. Bæði löndin hafa mjög gott heilbrigðiskerfi en hægt er að velta því fyrir sér hvort hagkvæmni stærðarinn hafi þarna áhrif. Opinbert framlag til heilbrigðismála á Norðurlöndum er talsvert hærra en á Íslandi eða um 9% en frjálsu framlögin kringum 1,5 til 2,0% eitthvað aðeins hærra en á Íslandi. Spurning er hvort markið ætti að vera 9% af opinberu fé eða um 11% af öllu fé. Það er talsverður munur á þessum markmiðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mat á gagnsemi og árangri verkefna sem studd eru með opinberu fé
27.7.2016 | 14:13
Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt meðal annars eftirfarandi málsgrein sem hluti af áliktunum fjárlaganefndar flokksins:
"Engin útgjöld má samþykkja án greinargerðar um tilgang og markmið og skulu kostnaðargreining og tekjugreining til fimm ára fylgja lagafrumvörpum. Reglulega fari fram óháð mat á gagnsemi, hagkvæmni og árangri af fjárframlögum til viðfangsefna svo sem sjóða og verkefna". (Heimild xd.is)
Ekki er efast um að hið opinbera láti fara fram mat á gagnsemi og árangri verkefna og stofnana sem er á þess vegum. Það fer þá ekki hátt og hefur ekki svo mig reki minni til, orðið að stórum ágreiningsmálum hvort opinber verkefni eða stofnanir mættu bæta rekstur sinn, bæta árangur og sníða af óþarfa fitu.
Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar nánast öll svið þjónustu við þjóðina, hvort það eru samgöngur, heilbrigðismál, málefni eldri borgara, menntamál, eða hvað það nú kann að vera, virðist vera svelt með rekstrarfé. Það er ekki létt að stækka fjárlögin til skamms tíma nema með sköttum, sem er ekki sérlega geðfelld leið. Oft er farið í að hagræða sem sé að segja upp starfsfólki á gólfinu sem venjulega er að vinna á fremur lágum launum að láta viðkomandi opinbert verkefni eða stofnun sinna lögbundnum skildum sínum.
Spurning er hvort ekki sé hægt að finna fituna á opinberum stofnunum einhversstaðar annarsstaðar innan þeirra. Nú virðast opinberir stjórnendur vera farnir að fá ofurlaun eins og félagar þeirra í einkageiranum. Þeir bera vísast svo mikla ábyrgð eins og sagt er. En eru hugsanlega of margir stjórnendur á feitum launum við störf í opinberum stofnunum og við önnur opinber verkefni? Ef svo er hver er árangur af starfi þeirra? Er hægt að fækka dýrum stjórnendum og hagræða á þann hátt. Er að minnsta kosti hægt að færa inn í almenna, opinbera og gagnsæja stjórnsýslu mat á rekstri og árangri svona stofnana.
Hér er ekki verið að fullyrða að opinberar stofnanir sem reknar eru með fé skattborgarana séu fullar af fitu eða að það sé nokkur auka fita í þeim til að skera af. Vísast eru stjórnendur þeirra allir að vilja gerðir að gera vel og vinna innan sinna fjárheimilda. En ef.....
Á meðan viðfangsefni hins opinbera eru fjársvelt mætti leita leiða til að bæta rekstur og vonandi árangur í leiðinni. Forstöðumenn ættu að þurfa að gera grein fyrir því hversvegna hinir ýmsu kostnaðarliðir, þar með talinn launakostnaður þeirra sjálfra, er nauðsynlegur fyrir land og þjóð.
Vitað er að ýmsar ágætar stofnanir samfélagsins hafa það hlutverk að fylgjast með rekstri opinberra stofnana og koma með athugasemdir ef má gera betur. Spurning er hvort stofnanir á borð við Ríkisendurskoðun geti lagt mat á rekstur og árangur allra stofnana og verkefna í landinu og séð til þess að ekki sé nein auka fita á þeim.
Betra væri að bjóða út óháð mat á þessum stofnunum og verkefnum í anda samþykktar þess flokks sem fer með opinber fjármála landsmanna, þannig að skattborgararnir fái fullvissu um það að sú þjónusta sem þeim er veitt í formi menntunar, heilbrigðismála og annarra mikilvægra mála, sé ekki um leið aukabúgrein einhverra sem eru að hagnast á kerfinu.