Íslenskir ferðamenn í eigin landi gjaldtaka og annar kostnaður
14.12.2018 | 12:17
Fjöldi íslendinga sem ferðast um landið sitt hefur verið að aukast ár frá ári. Fólk hefur verið að kaupa hjólhúsi, fellihýsi og ýmiskonar vagna til að ferðast með. Þetta er í raun ágætis ferðamáti. Fólk keyrir frá einu tjaldstæði til næsta, ferð í gönguferðir, ferðir inn á hálendið eða almennt gera sér ýmislegt til skemmtunar. Akstur um landið kostar mjög mikið í bæði eldsneytiskostnað og uppihald. Þá er stopp á tjaldstæðum ekki ódýrt. Tjaldstæði reyna að hafa ákveðna lágmarksþjónustu á staðnum fyrir alla ferðamenn. Þó má segja að metnaður sveitarfélaga er afar misjafn hvað varðar framboð af þjónustu og kostnað við hana. Það er önnur saga sem mætti segja.
Íslenskir ferðamenn í eigin landi hafa alltaf verið til staðar en til viðbótar höfum við stóran fjölda erlendra ferðamanna sem allir deila hræðilegu vegakerfi landsins. Það er stórhættulegt að keyra um landið á þröngum, meira og minna ónýtum vegum, með mismundandi góðum bílstjórum. Slysum hefur fjölgað en það hefur í för með sér mikinn kostnað og enn meiri vanlíðan.
Á ferðum okkar verjum við stórum hluta eldsneytiskostnaðar í uppbyggingu vegakerfisins. Á vefsíður FIB segir Af um 80 milljarða króna sköttum sem áætlað er að bílar og umferð skili á næsta ári eiga 29 milljarðar að fara til vegaframkvæmda og vegaþjónustu. Rúmlega 50 milljarðar fara í önnur ríkisútgjöld. Fram hefur komið að vegatollar eigi að skila 10 milljörðum króna til viðbótar á ári. Bílaskattar verða þá komnir í 90 milljarða króna. Að bjóða ökumönnum almennt uppá að rúmlega 60% af sköttunum sem á að fara í vegaframkvæmdir séu setta í hítina stóru er fremur óhentugt.
Það er því mjög kostnaðarsamt fyrir íslenska ferðamenn á Íslandi að ferðast um landið sitt. Það er stórhættulegt og rán dýrt. Þegar ferðamaðurinn hefur tankað fullan tank af rándýru eldsneyti fer hann í sjoppuna og fær sér hamborgara og kók. Þetta kostar hátt á þriðja þúsund. Hann fer síðan á tjaldstæðið að gera klárt fyrir nóttina og fær þá, í boði viðkomandi sveitarfélags að borga frá 1.500 á mann og frá 1.000 fyrir rafmagn. Stundum eru einkaaðilar með tjaldstæðin en það virðist ekki breyta miklu. Allir borga smá upphæð í gistináttagjald, kostnað við gistingu og rafmagn. Það er því aðeins á færi hinna efnameiri að ferðast um eigið land.
Umræða um gjaldtöku á hinum ýmsu ferðamannastöðum hefur farið hátt. Menn vilja byrja á að setja á gjaldtöku fyrir hina ýmsu þætti ferðaþjónustu en oft hefur ekkert verið gert til þess að réttlæta þessa gjaldtöku. Það er tæplega rétt að rukka fólk fyrir þjónustuna sem ferðamenn næsta árs munu njóta. Ferðaþjónusta virðist gang út á gjaldtöku ekki það að veita þjónustu geng eðlilegu gjaldi. Það er eitthvað verið að gefa vitlaust hérna.
Íslenskir ferðamenn í eignin landi eru orðnir langþreyttir á þessum hörmulegu aðstæðum sem boðið er uppá. Það er dýrt og hættulegt að fara um okkar fallega land. Margir hafa lagt í talsverða fjárfestingu til að geta ferðast um landið, ekki alltaf meðvitaðir um aðstæður og þjónustu.
Líklega er ekki svo vitlaust að selja hjólhýsið og fara bara til Tene, það er líklega talsvert ódýrara, þjónustan byggir á að ferðamaður fái verðgildir fyrir peningana sína og hættan er talsvert minni.
OECD gefur út árangur í vísindum, tækni og atvinnulífi 2017.
7.12.2017 | 09:40
OECD birti í nóvember skýrslu um Vísindi, tækni og atvinnulíf (Science, Technology and Industry Scoreboard) fyrir árið 2017. Í sérstöku yfirliti um Ísland koma í ljós ýmsar upplýsingar um vísindi, tækni og nýsköpun sem einkennir Ísland.
Á Íslandi stunda lítil og meðalstór fyrirtæki um 90% af rannsókna og þróunarvinnu á Íslandi. Því má segja að stór fyrirtæki, eða þau sem hafa fleiri en 250 starfsmenn, verja um 3,2 milljörðum til rannsókna og þróunar. Í flestum löndum OECD eru það einmitt stór fyrirtæki sem stunda hvað mestar rannsóknir og er þá spurt hvort stóru rannsókna og þróunarfyrirtækin okkar svo sem Marel, Össur, Íslensk erfðagreining séu ekki að reiknast hærra. Hagstofan gefur engar skýringar á vefsíðu sinni, enda stundar stofnunin almennt ekki greiningu á gögnum sínum. Þetta er verulega umhugsunarvert og kallar á gegnsæi í birtingu gagna.
Tæp 80% af rannsóknum og þróun eiga sér stað í þjónustugeiranum. Á Íslandi eru það einmitt þjónustufyrirtæki sem eru hvað mest áberandi í þekkingargeiranum. Atvinnulíf á Íslandi er verulega háð erlendri eftirspurn. Tæp 60% af störfum í einkageiranum eru í greinum þar sem afgerandi er erlend eftirspurn. Þar má vísast telja að ferðaiðnaður sé mjög áberandi. Á sama tíma er framleiðni vinnuafls fremur lág og er tekið dæmi af því að í upplýsingatækni er framleiðni lægri en í öðrum iðngreinum. Þetta vekur upp margar spurningar, sem vísast fást engin svör við. Það verður að vera hægt að segja þegnum þessa lands hvað er vel gert og hvað miður vel og hvað veldur.
En Íslendingar eru framarlega þegar talað er um notkun á internetinu. Nánast allir Íslendingar (98%) nota internetið. Þá eru Íslendingar öflugir að nota netið í samskiptum við hið opinbera og eru þar fremstir í flokki með Dönum. Þá vekur athygli sá árangur sem íslenskir vísindamenn hafa náð, mælt í samstarfi við erlenda vísindamenn um skrif á vísindagreinum og þar með um samstarf í vísindum. Íslenskt vísindakerfi er fremur lítið og leit að samstarfsaðilum leiðir vísindamenn oftast fljótt til útlanda. Auk þess eru allmargir vísindamenn menntaðir í útlöndum og því með góð tengsl þegar heim er komið.
Það má því segja að það gangi vel og miður vel í málefnum vísinda, tækni og atvinnulífs á Íslandi. Vonandi er að ný ríkisstjórn, sem leggur áherslur á þessi máli, leggi í þá vinnu að greina stöðu og þróun þessara mála en láta sér ekki nægja þá skýringu að hlutirnir séu bara svona.
Framlölg til heilbrigðismála í 11% af VLF
20.11.2017 | 11:04
Mikil umræða hefur verið um útgjöld til heilbrigðismála í aðdraganda kosninga en einnig á síðustu árum. Krafa hefur verið um 11% framlög til þessara mála af vergri landsframleiðslu. Raddir hafa heyrst um að í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við sé hlutfall útgjalda af heilbrigðismálum einmitt 11%.
Meðal framlag til heilbrigðismála í OECD ríkjunum er um 9% árið 2016 en á Íslandi um 8,6% eins og sjá má í úttekt OECD Health at a Glance 2017 (http://www.keepeek.com/Digital-Asset-Management/oecd/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-2017_health_glance-2017-en#page1) á blaðsíðu 137.
Spurning er hvað er framlag en OECD skiptir framlögum í opinber framlög og frjáls framlög af ýmsu tagi. Opinber framlög til heilbrigðismála á Íslandi voru um 7% af VLF árið 2016 á meðan þetta framlag var rúmlega 6% að meðaltali hjá OECD. Hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við er opinbert framlag til heilbrigðismála um 8%. Raunar er það svo að önnur framlög til heilbrigðismála en hin opinberu, eru jafnan fremur lægra hlutfall af heildinni hjá þeim sem fá hvað mest.
Eflaust hafa allir sína skoðun á því hve hátt framlag ætti að vera til heilbrigðismála. Þeir sem best þekkja segja að heilbrigðiskerfið sé komið að þolmörkum. Það er vissulega mjög alvarleg staða en spurning er hvert ætti framlagið að vera? Hæsta opinbera framlag til heilbrigðismála er í Þýskalandi eða rúm 9% miðað við 7% á Íslandi. Bæði löndin hafa mjög gott heilbrigðiskerfi en hægt er að velta því fyrir sér hvort hagkvæmni stærðarinn hafi þarna áhrif. Opinbert framlag til heilbrigðismála á Norðurlöndum er talsvert hærra en á Íslandi eða um 9% en frjálsu framlögin kringum 1,5 til 2,0% eitthvað aðeins hærra en á Íslandi. Spurning er hvort markið ætti að vera 9% af opinberu fé eða um 11% af öllu fé. Það er talsverður munur á þessum markmiðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hveragerðis kappaksturinn
13.10.2017 | 09:17
Árlegur kappakstur milli Rauðavatns og Hveragerðis átti sér stað síðastliðið sumar á hverjum degi frá svona 1. maí til 30. september, eins og venjulega. Keppendur voru næstum allir bílar sem áttu leið þarna um. Sérstaka umbun fengu bílar með hverskyns vagna, hjólhýsi eða annað sem hægir á hraða bíla. Veittir eru punktar fyrir framúrakstur, að halda bílum fyrir aftan sig og sem mestan hraðamismun þar sem er ein akrein og tvær eða fleiri akreinar mætast.
Kappaksturinn hefst á rólegu nótunum við hringtorgið hjá Rauðavatni. Smá núningar geta myndast þegar úr hringtorginu er komið þar sem eru tvær akreinar á stuttu bili. En þaðan og að Lögbergs brekku eru bílstjórar að hugsa um hvaða strategíu þeir eigi að nota á leið uppá og yfir Sandskeið. Um leið og bílar koma á tvær akreinar byrjar hraðaksturinn. Nú þarf að ná í sem besta stöðu áður en akreinum fækkar aftur í eina og hraðinn lækkar niðurfyrir hámarkshraða. Hér gildir að halda öllum fyrir aftan sig og gefa síðan hressilega í og vonast til að vera fyrstur að næstu þrengingu á veginum. Þeir sem á eftir koma út úr einnar akreinar stöðunni þurfa nú að fara enn hraðar en sá sem stjórnaði áður. Þegar kemur að næstu þrengingu gildir að nota hvern þumlung af akreinunum tveimur. Það er hér sem flutningabílar eða bílar með aftanívagna hverskonar, fá flesta punkta. Nái svoleiðis farartæki að komast inn á einnar akreinar þrengingu eru margir punktar í boði.
Hjá Litlu kaffistofunni ná ákafir bílstjórar að komast fram hjá þeim sem réðu ferðinni þegar um eina akrein var að ræða. Á leið upp brekkuna er brennt álíka mikið af gúmmí og af bensíni. Nú ná alvöru bílstjórar aftur tökum á keppninni, en þeir töpuðu punktum á meðan þeir voru í biðröð á einni akrein. En punktarnir eru ekki í að vera í kappakstri þar sem eru tvær akreinar en þar leggja menn línurnar fyrir næstu þrengingu. Í þriðju meiriháttar brekkunni er enn hægt að ná hraða eftir erfiða þrengingu í hrauninu þar á undan. Næsta þrenging er fyrir ofan Skíðaskálann þá gildir að vera með góða staðsetningu því loka hrinan er svo kappaksturinn niður Kambana þar sem tvær mjög víðar akreinar eru alla leiðina niður að þrengingu sem nær að hringtorginu við Hveragerði. Hér gildir að aka eins og sjálfasti Schumacher í misvíðum beygjum. Við þrenginguna neðst í brekkuna þarf að leggja allt undir. Það þarf ekki nema um hálfan meter af akrein til að komast fram úr ef maður fer bara nógu hratt. Þarna ráðast úrslitin því akreinin að hringtorginu í Hveragerði er bara til að hrósa happi eða harma skort á áræði.
Það ber að þakka yfirvöldum vegamála að leggja svona krefjandi kappakstursbraut og hanna hana fyrir allar gerðir bíla. Það er til dæmis hund leiðinlegt að keyra til Keflavíkur á tveimur akreinum alla leið. Þar keyra menn mest á leyfilegum hraða. En á leiðinni til Hveragerðis þarf maður að beita öllum úrræðum sem standa til boða til að keyra misjafnlega hratt, alltaf hægt á einni akrein en eins og andsetinn á tveimur.
Vonandi fara yfirvöld umferðamála ekki að leggja tveggja akreina vegi um allar trissur. Þar væri hættan talsvert minni og akstur minna krefjandi. Það mætti fjölga frekar leiðum með eina og tvær akreinar til skiptis, kannski ef til vill setja einbreiðar brýr hér og þar. Það væri bæði hættulegra og krefðist þess að menn væru mun áræðnari á vegum úti.
Vísindagangan
26.4.2017 | 10:26
Það var gaman að sjá fjöldann sem tók þátt í vísindagöngunni, ekki minnst á tímum þegar vísindin eru sniðgengin eins og má sjá vestan hafs. Þar ríkir mér finnst viðhorfin sem aldrei fyrr. Þetta sést mjög vel á viðhorfi til umhverfis og heilbrigðismála. En sennilega eru svo kölluð alternative truth ekki það besta sem hefur komið fyrir vísindin.
Það er sjaldgæft að hópur vísindamanna sýni þá samstöðu sem þarna var þar sem fjöldi vísindamanna um allan heim, gekk vísindagöngu til stuðnings þessari mikilvægu starfsemi. Það eru mörg málefni sem brenna á vísindafólki þessa dagana en hægt er að sjá nokkur af þeim viðfangsefnum sem þeim er bent á að sinna á þessari vefsíðu. https://satellites.marchforscience.com/
Ein af leiðbeiningunum sem þarna er að finna er reyndu að kynnast því hvernig stefnumótun vísinda gengur fyrir sig. En meðal þess er bent á er að samskipti vísinda og stjórnvalda skipti verulegu máli. Það hjálpar svo sem ekki að hvorugur hópurinn skilur hinn en það er annað mál. En oft er þó skilning að finna á vísindum meðal opinberra aðila. Hér á landi eru fjöldi vísindamanna sem eru í fremstu röð í sínum fræðum aðilar að Vísinda- og tækniráði. En það er hópur sem ætti að tengja saman vísindi og stefnumótun og framkvæmd stefnu. Maður verður hugsi yfir því að hópur fólks með þekkingu á vísindum og situr í skjóli stjórnvalda í slíku ráði hafi ekki áhuga eða getu til þess að vinna að stefnumótun. Nú þegar líður að miðju ársins 2017 fær hinn óinnvígði aðeins að sjá Stefnu og aðgerðaáætlun 2014 til 2016 en það geta verið ótal skýringar á því hvers vegna engin stefna hefur verið gefin út fyrir yfirstandandi tímabil. Sennilega er þó engin þessara skýringa marktæk, en það eru engin stjarnvísindi að skrifa stefnupappír.
En vísindastefna hér á landi er mér finnst stefna. Stjórnvöld hafa litla hugmynd um útá hvað vísindin ganga, hvað þá hvaða forsendum þau lúta og þær þarfir sem þau hafa. Þetta veit vísindafólkið enda hefur það sannað sig að þrátt fyrir stefnu (leysi) stjórnvalda í vísindamálum eru íslenskir vísindamenn oft í fremstu röð í sínum greinum. Það eru til nokkur tæki, ekki þó mjög mörg eða góð, til að sá árangur íslenskra vísindamanna í gegnum tíðina. Nægir hér að nefna að íslenskir vísindamenn hafa birt ritrýndar vísindagreinar í miklu magni og má sjá gæði þessara greina með háu hlutfalli tilvitnana í þær. Það er ekki nóg að skrifa fjölda greina ef enginn tileinkar sér innihald þeirra sem sést til dæmis með að vitna í þær. En íslenskir vísindamenn eru öðrum fremri í að vinna með vísindamönnum annarra landa. Þetta hefur líka verið mælt, en vitanlega bara af erlendum sérfræðingum. Okkur finnst ekki mikil þörf á að mæla svona. Við-vitum-þetta-allt. Reyndar er Hagstofan að mæla aðföng til vísinda sem ekki skal vanmetið, nema hvað að Hagstofan mælir bara hvað er undir ljósastaurnum. Þetta er vísast vegna þess að Hagstofan er mjög góð í að mæla hluti, en bara hluti sem hún skilur.
Þá hafa íslenskir vísindamenn, sjálfir án afskipta stjórnvalda, landað fjölda erlendra rannsóknastyrkja, svo að eftir því er tekið. Þá er sókn í innlenda styrki líka nokkuð mikil. Það eina sem stjórnvöld hafa heyrt þegar vísindamenn tala er meiri pening og þar hafa stjórnvöld raunar staðið rausnarlega við bakið á vísindum á Íslandi. Sjóðir sem styrkja vísindi, tækni og nýsköpun hafa vaxið með ári hverju um langa hríð. Aukningin er mikil á milli ára. Þetta hrósa stjórnvöld sér af við hátíðleg tækifæri og gleðjast yfir framsýni sinni. En íslensk stjórnvöld hafa raunar verið meðal þeirra sem leggja hvað mest til vísindastarfa í hinum vestræna heimi. En ekki með samkeppni um peninga, heldur beinum framlögum til stofnana. Það er síðan stofnanna að skipta fé á milli vísinda og rekstrar. Þetta virkar ekki sérlega skilvirk aðferð en afar þægileg. Nú er raunar skorið verulega í þetta framlag og mun það eflaust leiða til minni virkni vísinda. Það er ekki eins og stofnanir séu teknar út og lagt mat á starfsemi þeirra til að sjá hvar megi skera af, nei það er er best að nota ostaskerann í svona niðurskurð.
Margar þjóðir tengja saman vísindastarf og stefnu viðkomandi ríkisstjórna. Þannig eru veittir styrkir til vísindamanna og hópa um verkefni á þeim sviðum sem viðkomandi lönd eru að leggja áherslu á. Vitanlega eru ýmsar aðrar leiðir sem notaðar eru en að leysa mál þeirrar þjóðar sem styrkir vísindi ætti ekki að vera annað en jákvætt. Er þá ekki verið að atast í margumtöluðu frelsi vísindanna. Þetta gera íslensk stjórnvöld ekki. Þau auglýsa bara eftir verkefnum, einhverjum verkefnum. Það getur verið að á skorti skilvirkni í slíkum aðferðum hjá litlum löndum.
En nú er göngunni lokið og er því spurt: hvað svo. Kannski að komist á samtal milli stjórnvalda og vísinda. Eða ættum við kannski bara að láta Ævar og Villa vísindamenn sjá um að tengja vísindin við alla hina, en þeir eru þeir einu sem hafa gert eitthvað í því af viti.
Rannsóknir og nýsköpun | Breytt 27.4.2017 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vika íþrótta í Evrópu haldin í Breiðholti 19 til 25 september 2016
11.10.2016 | 16:40
Vika íþrótta í Evrópu hvar haldin í annað sinn í álfunni í lok september. Að þessu sinni var efnt til samstarfs milli 6 landa í Evrópu um þessa hátíð íþrótta. Auk Íslands tóku þátt um 12.000 börn og fjölskyldur þeirra frá Portúgal, Spáni, Ítalíu, Króatíu og Tyrklandi.
Um 2.000 börn úr grunnskólunum í Breiðholti tóku þátt í einni fjölmennastu spretthlaupskeppni sem haldin hefur verið. Á sama tíma hlutu um 12.000 börn í Evrópu spretthlaup og er nú verið að reikna út tímann sem börnin náðu.
Um helgina 24 september var síðan haldin íþróttahátíð í Austurbergi í Breiðholti en þar mættu um 5-600 manns og tóku þátt í lokahátíð Viku íþrótta í Evrópu. Þar var m.a. set Íslandsmet í reiptogi auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir þátttöku í spretthlaupinu.
Samstarfið um Viku Íþrótta, sem kallast Feel Ewos (Fjölskyldan saman í Viku íþrótta) gaf út nokkur myndbönd þar sem ítrekað er mikilvægi íþrótta, hreyfingar almennt, hollustu í mataræði og heilbrigðis í lífsháttum. Nokkur af þessu myndböndum eru hér með.
Nokkur myndbönd með íslenskum texta eða tali er að finna:
https://www.youtube.com/channel/UCfg9rmeLXa_59vbLdJ-5SGg
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Breiðholtsbúar settu Íslandsmet í reipitogi
27.9.2016 | 10:48
Íbúar í Breiðholti með Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) héldu íþróttahátíð laugardaginn 24. september s.l. Þrátt fyrir rysjótt veður mættu á fimmta hundrað manns í íþróttahúsið við Austurberg. Þaðan fóru hópar fólks í gönguferð, hjólaferð og skokk. Að því loknu mættu allir í Austurberg.
Þar höfðu ÍR og fleiri skipulagt reipitog þar sem árgangar úr grunnskólunum í Breiðholt kepptu sín á milli. Auk þess kepptu foreldrar leikskólabarna í reipitogi. Skemmst er frá því að segja að um 400 manns tóku þátt í keppninni og er það hér með talið sem Íslandsmet í reypitogi.
Aðdragandinn að þessari íþróttahátíð var að nokkur samtök með ÍR í fararbroddi höfðu efnt il hlaupakeppni í hverfinu. Um 2.000 börn hlupu spretthlaup og öttu með því kappi við um 10.000 önnur börn í Portúgal, Spáni, Ítalíu, Tyrklandi og Króatíu. Ekki liggja fyrir úrslitin ennþá en þau eru til meðferðar hjá ítölsku samtökunum sem voru með í keppninni. En tekinn var tíminn af hverju barni og liggja fyrir miklar upplýsingar um árangurinn.
Hlaupið var samstarf milli Heilsueflandi Breiðholt og Feel Ewos (Fjölskyldan með í Viku íþrótta í Evrópu) en þar er markmiðið að auka hreyfingu fólks og þátttöku í íþróttum. Einnig eru heilbrigð hreyfing og rétt næring hluti af þessu. Þó íslensk börn og fullorðnir líka stundi hreyfingu eru brögð af því að fólk hreyfi sig allt of lítið og hefur það áhrif á líkamlegt atgervi fólks.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mat á gagnsemi og árangri verkefna sem studd eru með opinberu fé
27.7.2016 | 14:13
Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt meðal annars eftirfarandi málsgrein sem hluti af áliktunum fjárlaganefndar flokksins:
"Engin útgjöld má samþykkja án greinargerðar um tilgang og markmið og skulu kostnaðargreining og tekjugreining til fimm ára fylgja lagafrumvörpum. Reglulega fari fram óháð mat á gagnsemi, hagkvæmni og árangri af fjárframlögum til viðfangsefna svo sem sjóða og verkefna". (Heimild xd.is)
Ekki er efast um að hið opinbera láti fara fram mat á gagnsemi og árangri verkefna og stofnana sem er á þess vegum. Það fer þá ekki hátt og hefur ekki svo mig reki minni til, orðið að stórum ágreiningsmálum hvort opinber verkefni eða stofnanir mættu bæta rekstur sinn, bæta árangur og sníða af óþarfa fitu.
Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar nánast öll svið þjónustu við þjóðina, hvort það eru samgöngur, heilbrigðismál, málefni eldri borgara, menntamál, eða hvað það nú kann að vera, virðist vera svelt með rekstrarfé. Það er ekki létt að stækka fjárlögin til skamms tíma nema með sköttum, sem er ekki sérlega geðfelld leið. Oft er farið í að hagræða sem sé að segja upp starfsfólki á gólfinu sem venjulega er að vinna á fremur lágum launum að láta viðkomandi opinbert verkefni eða stofnun sinna lögbundnum skildum sínum.
Spurning er hvort ekki sé hægt að finna fituna á opinberum stofnunum einhversstaðar annarsstaðar innan þeirra. Nú virðast opinberir stjórnendur vera farnir að fá ofurlaun eins og félagar þeirra í einkageiranum. Þeir bera vísast svo mikla ábyrgð eins og sagt er. En eru hugsanlega of margir stjórnendur á feitum launum við störf í opinberum stofnunum og við önnur opinber verkefni? Ef svo er hver er árangur af starfi þeirra? Er hægt að fækka dýrum stjórnendum og hagræða á þann hátt. Er að minnsta kosti hægt að færa inn í almenna, opinbera og gagnsæja stjórnsýslu mat á rekstri og árangri svona stofnana.
Hér er ekki verið að fullyrða að opinberar stofnanir sem reknar eru með fé skattborgarana séu fullar af fitu eða að það sé nokkur auka fita í þeim til að skera af. Vísast eru stjórnendur þeirra allir að vilja gerðir að gera vel og vinna innan sinna fjárheimilda. En ef.....
Á meðan viðfangsefni hins opinbera eru fjársvelt mætti leita leiða til að bæta rekstur og vonandi árangur í leiðinni. Forstöðumenn ættu að þurfa að gera grein fyrir því hversvegna hinir ýmsu kostnaðarliðir, þar með talinn launakostnaður þeirra sjálfra, er nauðsynlegur fyrir land og þjóð.
Vitað er að ýmsar ágætar stofnanir samfélagsins hafa það hlutverk að fylgjast með rekstri opinberra stofnana og koma með athugasemdir ef má gera betur. Spurning er hvort stofnanir á borð við Ríkisendurskoðun geti lagt mat á rekstur og árangur allra stofnana og verkefna í landinu og séð til þess að ekki sé nein auka fita á þeim.
Betra væri að bjóða út óháð mat á þessum stofnunum og verkefnum í anda samþykktar þess flokks sem fer með opinber fjármála landsmanna, þannig að skattborgararnir fái fullvissu um það að sú þjónusta sem þeim er veitt í formi menntunar, heilbrigðismála og annarra mikilvægra mála, sé ekki um leið aukabúgrein einhverra sem eru að hagnast á kerfinu.
Sprotafyrirtæki eða ekki sprotafyrirtæki
20.7.2016 | 08:58
Það virðist vera gróska í ýmiskonar nýsköpunarstarfsemi hér á landi eins og víða annarsstaðar. Fram kemur í Innovation Union Scoreboard (stigatafla ESB um nýsköpun), að Ísland sé í 13. sæti yfir lönd í Evrópu hvað varðar nýsköpunarvirkni.
http://ec.europa.eu/growth/industry/innovation/facts-figures/scoreboards_en
Þó kemur þar fram að raunar er Ísland nánast að sýna sömu nýsköpunarvirkni og árið 2008 og á sama tíma eru önnur lönd að sýna nokkra, þó mismikla framför. Þetta er áhyggjuefni þar sem nýsköpun er forsenda framfara og hagvaxtar jafnvel til skemmri tíma.
Svo virðist sem opinberir aðilar og einkageirinn séu að leggjast á eitt um að bæta málefni nýsköpunar. Hið opinbera leggur fé í opinbera nýsköpunarsjóði og endurgreiðir hluta útgjalda til rannsókna og þróunar. Bæði er þetta afar mikilvægt fyrir fyrirtæki í nýsköpun sem jafnan eru að byggja upp markað fyrir nýjar eða verulega breyttar afurðir. Öðru hvoru koma fram fyrirtæki sem hafa skarað framúr en þau það flest sameiginlegt að hafa átt í góðum tengslum við hið opinbera og gjarnan þegið þaðan fé til nýsköpunarstarfa. En fjármagn er ekki það eina sem lítil og ung fyrirtæki í þekkingarfrekum greinum þarfnast. Þar kemur til skortur á ýmisskonar þekkingu varðandi rekstur sem getur farið illa með nýsköpunarfyrirtækin.
Almennt er talað um að sprotar eða sprotafyrirtæki sé hugtak sem er sameiginleg með nýsköpunarfyrirtæki. En þarna er alls ekki um sama hlut að ræða. Sprotafyrirtæki eru skilgreind á sérstakan, nokkuð þröngan hátt á meðan nýsköpunarfyrirtæki eru með nokkuð víðari skilgreiningu.
Sprotafyrirtæki eru venjulega sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Gengið er út frá því viðmiði að árlegur þ róunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu. Fyrirtæki hættir að teljast sprotafyrirtæki þegar þ að hefur verið skráð í kaup höll sem öflugt tæknifyrirtæki eða náð árlegri veltu sem nemur einum milljarði íslenskra króna
Heimild: http://www.si.is/media/sportafyrirtaeki/Sproti2005-future.pdf glæra 5/49
Nýsköpunarfyrirtæki eru jafnan talin þau sem vinna að því að koma með nýja eða verulega breytta afurð, fyrir fyrirtækið sjálft eða markaðinn sem það vinnur á, starfar á nýjan hátt, hefur skipulagt starfsemi sýna á nýjan hátt eða gert eitthvað nýtt.
Það skiptir vísast ekki öllu máli hvort fyrirtæki heitir sproti eða nýsköpunarfyrirtæki eða eitthvað annað, ef það er að skila arði eða líklegt að svo verði í náinni framtíð. Það þarf bara að aðlaga umhverfð að því að ný fyrirtæki sem oft eru með litla fjárhagslega eða þekkingarlega burði eru að vaxa úr grasi. Nýsköpunarumhverfi á Íslandi er almennt talið jákvætt. Undantekningin er reyndar sú að aðgengi að fjármagni er enn af frekar skornum skammti, þó mikið hafi gerst á því sviði. Markaðurinn sem þessi nýju fyrirtæki hafa til að ná árangri á er oft mjög lítill þannig að þau þurfa að fara fremur fljótt í útrás. Það er svo sem ekki mjög mikill munur á þeirri stöðu og fyrirtæki í litlum löndum standa frammi fyrir þó vissulega sé smá stigs munur á. Þetta á nefnilega líka við norsk og dönsk fyrirtæki. Þó markaður þeirra sé mörgum sinnum stærri er hann oft fljótur að mettast.
Þó er það sjálfsagt að kalla hlutina réttum nöfnum, ekki minnst þar sem verið er að byggja upp innviði og stoðkerfi sem er aðlagað er að ungum fyrirtækjum með sérstök einkenni, svo sem hvað varðar tæknistig, markað, þekkingar- og færniþörf og fleira. Stuðningur við sprotafyrirtæki passar vísast ekki fyrirtækjum í greinum með lægra þekkingar- og færnistig en stuðninginn þarf að laga að öllum fyrirtækjum sem talin eru eiga erindi á markað án tillits til í hvaða flokk þau falla.
European Innovation Scoreboard 2016 er komið út - Ísland í 13. sæti
15.7.2016 | 15:29
Framkvæmdstjórn ESB hefur gefið út hina árlegu skýrslu um nýsköpun, "European Innovation Scoreboard 2016". Af Evrópuþjóðum er Ísland í 13. sæti.
http://ec.europa.eu/growth/industry/innovation/facts-figures/scoreboards_en
http://europa.eu/rapid/press-release_IP-16-2486_en.htm
Enn eru það birtingar vísindarita og samstarf um það sem vegur hátt hjá Íslandi en því miður er Ísland nokkuð að baki þeim þjóðum sem við helst berum okkur saman við.
Rannsóknir og nýsköpun | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)